miðvikudagur, 23. mars 2005

Ætlaði bara að ganga

í 10-15 mínútur á hlaupabrettinu í ræktinni í morgun en datt í að horfa á sjónvarpsþátt sem verið var að sýna á Skjá einum. Endaði á því að ganga í 40 mín. og hneykslast vel og rækilega í leiðinni. Þetta var þátturinn Svanurinn - sem ég hef ekki horft á áður og mun ekki horfa á fleiri slíka. En fyrir þá sem ekki vita hvað þátturinn fjallar um þá snýst málið um að "breyta ljótum andarungum í fallega svani" eins og þetta er orðað svo skemmtilega á heimasíðu þáttarins. Ofurvenjulegar konur eru teknar og þeim þrælað í gegnum lýtaaðgerðir, tannviðgerðir, líkamsrækt og sálfræðimeðferð - vegna þess að fram að þessu hefur útlitið (ljótleikinn) komið í veg fyrir að þær gætu orðið hamingjusamar!

Í þættinum í morgun voru tvær konur og önnur þeirra átti svo bágt, þ.e.a.s. hún var í svo ofboðslegu andlegu ójafnvægi að ég leyfi mér að fullyrða að þrátt fyrir að hún liti út eins og Barbie í lok þáttarins þá mun henni ekki líða neitt betur. En hún var komin með örlítið betri húð (eftir laseraðgerð), stór gervibrjóst, "surprise look" á andlitið (eftir lýtaaðgerð sem togaði augabrúnirnar m.a. upp á við og lagaði á henni nefið), þrýstnar varir (búið að sprauta fitu í þær), var orðin aðeins grennri (eftir fitusogið og líkamsþjálfunina) og tennurnar voru orðnar hvítari og beinni þannig að nú getur hún virkilega "smælað framan í heiminn". Hvað með það þó hún fái brjáluð reiðiköst og öskri á kallinn sinn og fari að gráta við minnsta tilefni?

Hitt tilfellið var ennþá skrýtnara. Einstæð móðir sem hafði reyndar fengið sinn skammt af ömurlegum karlmönnum sem höfðu komið illa fram við hana, en hún var í vinnu sem hjúkrunarfræðingur, átti son og var greinilega náin mömmu sinni. Vandamálið? Jú hún var aðeins of þung en ekki meir en svo að með því að skipta um mataræði og fara í líkamsrækt hefði hún náð kjörþyngd. Og með því að fá rétta hárgreiðslu og hugsa aðeins meira um útlitið hefði hún verið komin í toppstand. Þessi hafði verið módel þegar hún var yngri (og 30 kílóum léttari) og vildi ná aftur fyrra útliti. Ekki málið, bara skella henni í fitusog (andlit, magi, rass og læri), brjóstaminnkun, fegrunaraðgerð, tannviðgerðir o.s.frv.

Æ, ég veit það ekki. Mér finnst þetta bara svo mikð bull! Og hvaða skilaboð sendir þetta þeim konum sem horfa á þættina og eru óánægðar með sjálfar sig? Eða ómótuðum unglingsstúlkum? Einhvern veginn þá hélt maður að fólk væri komið lengra almennt á þroskabrautinni. Maður kaupir ekki hamingjuna, hvorki með peningum né ytra útliti. Og hana nú!

Engin ummæli: