Hér var ekki saltkjöt á borðum í gær, ég fór á Greifann með bekknum hans Ísaks en þau voru að halda upp á að samræmdu prófin voru búin. Það var mjög veglegt pítsuhlaðborð, með fleiri tegundum af pítsu, ostabrauðstöngum, hvítlauksbrauði og frönskum kartöflum.
Þessu skoluðu krakkarnir niður með 0,5 l. af gosi og fengu auk þess frostpinna í eftirrétt. Það var ótrúlega gaman að vera þarna með þeim, þau voru svo glöð og ánægð, enda í fyrsta skipti sem þau fara saman út að borða. Það er hins vegar verðugt verkefni fyrir mannfræðinga að skoða muninn á strákum og stelpum þegar frostpinnaát er annars vegar. Á meðan strákarnir kláruðu ísinn á nokkrum sekúndum voru stelpurnar að dunda sér við þetta í 5 - 10 mín.
Valur saknaði þess nú reyndar að fá ekki saltkjöt en hið sama var ekki sagt um einn pabbann sem kom að ná í dóttur sína. Þegar hefðbundinn matur sprengidags barst í tal sagði hann hátt og snjallt "Ég er kominn með upp í kok af saltkjöti, át þetta helv. bæði í hádeginu og í kvöld".
Engin ummæli:
Skrifa ummæli