laugardagur, 19. febrúar 2005

Öðruvísi mér áður brá

Hvað skyldi þessi málsháttur eiginlega þýða?

Valur er í bílahugleiðingum þessa dagana. Það hefur þær afleiðingar að hér dúkka upp alls konar bílar og ég er "látin" prófa hinar ýmsu tegundir. Var reyndar hundleiðinleg framan af, þegar hann var að spá í ameríska Ford og Ram pallbíla og hafði engan áhuga á að prófa þá, var bara ekki alveg tilbúin að aka um götur bæjarins á risastórum pallbíl. Erfitt að fá bílastæði o.s.frv. En Valur sá hins vegar fyrir sér að keypt yrði hús á pallinn og síðan myndum við leggjast í ferðalög... Ætli við hefuðum ekki þurft að setja playstation tölvu, dvd-spilara og sjónvarp í bílinn til að strákarnir hefðu haft áhuga á að koma með í ferðir um náttúru Íslands? Þeir eiga ekki gott með að vera fjarri rafmagnstækjum og tólum lengi í senn.

Um daginn kom Valur svo með Landcruiser jeppa heim á hlað, og ég verð að viðurkenna að eftir að hafa keyrt hann í hálfan dag eða svo þá var það með hálfum huga að ég skilaði honum aftur, svo ljúfur var hann. Daginn eftir prófuðum við svo Lexus (bara til að prófa hann) en það kom mjög á óvart hversu stífur hann var og hálf hastur eitthvað. Í dag prófuðum við svo Dodge Durango og þrátt fyrir að vera amerískur "lúxusbíll" þá var enginn lúxus að keyra hann. Sætin voru líka hörð og innréttingin hálf spartönsk eitthvað. Það var nú það.

Við matarborðið áðan kom Valur síðan með þá hugmynd að kaupa fólksbíl handa mér og hann myndi bara eiga gamla jeppan áfram, til að fara á honum í veiði o.s.frv. Hvað honum dettur næst í hug veit nú enginn (vandi er um slíkt að spá...) en það er nokkuð ljóst að þessum bílaleitarmálum er hvergi nærri lokið enn.

Læt þetta duga í bili, Guðný has left the building.

Engin ummæli: