Ísak var svo óheppinn í dag að fá gat á hausinn þegar hann var í körfubolta með vini sínum. Ég var ekki heima þegar hann kom heim og ekki datt honum í hug að hringja í mig. Sem ég skil ekki því venjulega hringir hann frekar of oft heldur en hitt (mjög algengt: "mamma, má ég poppa?"). En þegar ég kom heim ætlaði hann að sýna mér sárið en ég sá ekki neitt vegna þess að allt blóðið var storknað í risastóra klessu í hárinu á honum. Velti málinu aðeins fyrir mér en hringdi svo í "Val sem reddar öllu sem hefur með sjúkdóma og slys að gera". Hann ráðlagði mér að skola hárið á honum með vatni og þá myndi ég sjá stærðina á sárinu. Ef það væri lítið þyrfti ekkert að gera meira - annars þyrfti að athuga málið nánar.
Ég hlýddi þessum fyrirmælum og fór með Ísak inn á bað. Skolaði síðan hárið á honum úr volgu vatni og fyrr en varði var lak fagurrauður blóðtaumur ofan í niðurfallið. En blóðlyktin sem þá gaus upp olli því að mér varð svo hræðilega flökurt að ég átti í mestu vandræðum með að klára að skola hárið á honum. Það hafðist þó fyrir rest og þá gat ég séð að hann var með risastóra kúlu en sárið sjálft var ekki mjög stórt. Slapp sem sagt við að fara með hann upp á sjúkrahús, sem betur fer.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli