sunnudagur, 6. febrúar 2005

"Ég segi allt fínt"

er hið klassíska svar við spurningunni "Hvað segirðu?" en þessi spurning er nánast hefðbundin þegar tvær manneskjur taka tal saman. Ég hef í gegnum tíðina svarað þessari spurningu með svarinu sem allir búast við - en hef upp á síðkastið verið að velta þessu aðeins fyrir mér. Af hverju segjumst við alltaf hafa það gott, sama þó allt sé kannski í kalda koli hjá okkur? Mér finnst reyndar ekki að við eigum að úthella hjarta okkar yfir fólk sem við þekkjum harla lítið og hittum á kassanum í Hagkaup, en mættum við ekki vera aðeins hreinskilnari stundum við vini okkar?

Þrátt fyrir þessar pælingar viðurkenni ég fúslega að mér er orðið svo tamt að "halda andlitinu" út á við að kannski geri ég mér ekki einu sinni almennilega grein fyrir því hvernig mér líður í raun og veru. Ef við tökum atvinnumálin mín sem dæmi, þá verð ég líklega atvinnulaus þegar vorar, en hef ekki viljað horfast í augu við sannleikann og látið eins og það sé nú ekkert vandamál. Mér hljóti að leggjast eitthvað til o.s.frv. Sannleikurinn er hinsvegar sá að ég er skíthrædd um að fá bara aldrei neina vinnu við mitt hæfi, ég er skíthrædd um að verða atvinnulaus í lengri tíma, ég er skíthrædd um að verða stimpluð sem algjör lúser............og svona mætti lengi telja.

Svo fær maður bara alls kyns streitueinkenni, svo sem hjartsláttartruflanir, svefntruflanir, meltingartruflanir o.s.frv. og skilur ekkert í því hvernig standi á þessu. Því það er jú ekkert að hjá mér!

Engin ummæli: