þriðjudagur, 1. febrúar 2005

Athygli mín

var vakin á því hve oft ég fjallaði um það hvað ég væri þreytt, eða kæmi eitthvað inn á eigin þreytu eða lasleika í þessum pistlum mínum. Fyrst í stað neitaði ég að horfast í augu við eigin galla og kannaðist ekki við að hafa nefnt slíkt nema í hæsta lagi tvisvar eða þrisvar. Nú er ég hins vegar komin af afneitunarstiginu og viðurkenni "afbrot" mín. Þreyta og "óupplögðheit" hafa víst verið umræðuefnið hjá mér oftar en ég vil muna. Ástæðan er einföld: ég er alltof oft þreytt og illa fyrirkölluð. Síðustu fimm árin (bráðum sex) hefur heilsan hjá mér ekki verið til að hrópa húrra yfir og þegar ástandið var sem verst þurfti ég að fara inn og leggja mig eftir 5 mín. vinnu í garðinum (já, það hefur löngum verið erfitt að reita arfa...).

Þetta er sem sagt ekki skemmtileg staða að vera í en með því að fara í leikfimi þrisvar til fjórum sinnum í viku (passa samt að reyna ekki of mikið á mig), gæta þess að ég fái nægan svefn, borða hollan mat (sem bóndinn eldar fyrir mig eins og honum er einum lagið) og sætta mig við takmarkanir mínar hefur ástandið lagast töluvert og góðu tímabilin eru yfirleitt mun lengri en þessi slæmu. Samt verð ég alltaf jafn hrikalega spæld í hvert sinn sem mér "slær niður" og sennilega eru það þessi vonbrigði sem brjótast út hérna á blogginu.

Svo má alltaf deila um það hvers konar miðill þetta blessað blogg er. Hvers konar upplýsingar um eigin hagi maður á að setja á síðuna sína? Hversu persónulegur maður á að vera? Langar einhvern yfirhöfuð til að lesa um mína þreytu?

Við því hef ég ekkert svar. En það sama gildir um bloggið og sjónvarpið: Það er alltaf hægt að slökkva ef manni leiðist dagskráin ;-)

Engin ummæli: