Ein vinkona mín er afskaplega utan við sig en það skemmtilega er að hún hefur mikinn húmor fyrir því og deilir gjarnan sögunum af eigin axarsköftum með okkur hinum. Um daginn, í framhaldi af umræðu um að við mömmurnar værum alltaf að keyra og sækja krakkana okkar upp í fjall, sagði hún okkur frá því þegar hún sótti dóttur sína og nokkrar vinkonur hennar í fjallið. Hún var búin að keyra tvær stelpur heim til sín og var á leiðinni til þeirrar þriðju þegar sú segir allt í einu, "þær hafa gleymt brettunum sínum í bílnum". Vinkona mín var alveg hissa en snéri strax við til að láta þær hafa brettin. Fann báðar stelpurnar úti á götu með skrýtinn svip í framan. Staðreyndin var nefnilega ekki sú að þær höfðu ekki gleymt brettunum, ónei, þegar þær voru komnar aftur fyrir bílinn og ætluðu að fara að opna afturhurðina keyrði vinkona mín burtu. Það var hún sem hafði steingleymt brettunum í skottinu og brunaði bara af stað þegar stelpurnar voru komnar út úr bílnum. Eftir stóðu þær og skildu ekki neitt í neinu ;-)
Fyrir nokkrum árum var þessi sama vinkona mín á leiðinni til Reykjavíkur. Þetta var skömmu eftir að Hvalfjarðargöngin opnuðu, hún var ein á ferð með tvö yngstu börnin og það var orðið dimmt úti. Ættingjar sem biðu eftir henni í Reykjavík skildu ekkert í því hvað hún var lengi á leiðinni og voru farnir að hafa áhyggjur af því að eitthvað slæmt hefði gerst. Loks birtist hún, nærri klukkutíma síðar en áætlað hafði verið og skýringin: hún var ekki alveg viss um að rata nýju leiðina í göngin svo hún hafði bara elt bílinn fyrir framan sig. Það var bara einn galli við það snilldarráð, sá bíll fór nefnilega Hvalfjörðinn!
Engin ummæli:
Skrifa ummæli