þriðjudagur, 25. janúar 2005

Það ætlar að ganga illa

að finna hótel við hæfi í Orlando. Flækir málið verulega að vera fimm saman í stað fjögurra. Það flækir málið reyndar líka að geta lesið umsagnir annarra um hótelin inni á Tripadvisor.com 3ja stjörnu hótel sem litu ágætlega út af myndum að dæma eru allt í einu ekki svo kræsileg lengur þegar maður les um kakkalakka, flagnaða málningu, tóbakslykt, bletti í gólfteppum o.s.frv. Hótelin sem fá góða dóma eru annað hvort upppöntuð, of dýr eða með of fá svefnpláss.

Inni í herbergi bölsótar unglingurinn - við gáfum honum (rándýra) headphona í jólagjöf til að nota við tölvuna og nú er hljóðið dottið út vinstra megin. Engin gleði þar á bæ.

Inni í stofu er eiginmaðurinn að hlusta á tónlist en Ísak fór í sund ásamt Jóni Stefáni vini sínum og hans fjölskyldu. Okkur var reyndar boðið að koma með líka en við vorum nýbúin að troða okkur út af heimatilbúinni pítsu og treystum okkur ómögulega í sund með fulla maga af mat. Annars var Ísak búinn að fara í skólasund í dag, auk leikfimi og fótboltaæfingar, þannig að hann ætti að sofna vel í kvöld.



Engin ummæli: