sunnudagur, 16. janúar 2005

Afrekaði

að fara á skíði í gær. Stakk meira að segja upp á því sjálf - aðallega af því það var svo gott veður, 2ja stiga frost og örlítil gola. Valur ætlaði varla að trúa sínum eigin eyrum en var fljótur að taka við sér. Af stað fórum við, reyndar bara tvö ein því hvorki Ísak né Andri höfðu áhuga á brettaiðkun í gær. Komin uppeftir var fyrsta verkefni mitt að sækja árskort sem Valur var búinn að kaupa handa mér (hann reynir allt, kaupir handa mér skíði, kaupir árskort...). Á meðan ætlaði hann að bíða í bílnum. Ég fór inn og stillti mér í röð fyrir framan miðasöluna og beið þar þolinmóð í 10-15 mín. þar til röðin kom að mér. Þá var mér sagt að árskortin væru afgreidd inni í öðrum sal. Ég þangað og sá strax að það var biðröð út að dyrum. Var ennþá haldin stóískri ró og brosti góðlega þegar manneskjan fyrir framan mig (nágranni minn úr götunni) fór að ausa úr skálum reiði sinnar yfir því hvað þetta gengi hægt. Börnin hennar voru með í för og dúðuð eins og þau væru að fara á pólinn. Eftir nokkra stund skildi ég betur af hverju hún var svona fúl, röðin hreyfðist bókstaflega ekki neitt, og börnin voru farin að fölna upp og litu helst út fyrir að brátt myndi líða yfir þau. Mamman greip þá til sinna ráða, fletti þau klæðum og sagði enn nokkur vel valin orð við mig. En ég var sallaróleg, ætlaði ekki að láta þetta biðraðar-syndróm ná tökum á mér. Tíminn leið - og leið - og leið. Hægt og bítandi færðist ég framar í röðinni og loks þegar u.þ.b. 40-45 mín. voru liðnar var röðin komin að mér. Þá var ég búin að steingleyma númerinu sem Valur hafði sagt mér að væri á kvittuninni fyrir árskortunum. Hélt að það yrði nú lítið vandamál, það hlyti að vera hægt að fletta mér upp í tölvunni.

En nei, það var ekki hægt. Ég sagði þá að Valur hefði keypt kortin strax eftir áramót og spurði hvort þær gætu ekki flett kvittununum upp eftir dagsetningum. Nei, það var ekki hægt. Önnur byrjaði að fletta í gegnum einhverja möppu (með hraða snigilsins) en þegar hér var komið sögu var ég ekki lengur þolinmóð, onei, og spurði hvort ég gæti ekki sjálf fengið að fletta í gegnum möppuna, ég myndi þekkja skriftina hans Vals eins og skot. Nei, það var ekki hægt - sagði konan og hélt áfram að sniglast í gegnum þetta. Eftir smá stund endurtók ég spurninguna og í þetta sinnið varð mér að ósk minni. Fór að fletta þar sem frá var horfið og fór í gegnum restina af möppunni á ógnarhraða, án þess þó að sjá kvittunina. Einmitt þá kom Valur (mín varð ekkert smá fegin þá), sagði númerið á kvittuninni og þær fundu hana fljótlega (hafði verið nærri fremst í möppunni). Tekin var af mér mynd (sem sýnir afskaplega þreytta og fýlulega konu) og út fór ég, klukkutíma eftir að við Valur komum uppeftir.

Var gjörsamlega búin á því og ekki í neinu stuði til að fara að renna mér. Drattaðist niður í bíl og tróð mér í skíðaklossana (gekk fremur illa enda liðin tvö ár frá því fæti var síðast stungið ofan í þá) og skrönglaðist svo til Vals. Næsta þolraun var að koma sér á skíðin - nokkuð sem tókst í fjórðu eða fimmtu tilraun, sennilega hefur verið snjór undir klossunum. Þegar hér var komið sögu var ég búin að gleyma því að ég hefði nokkru sinni á ævinni verið í góðu skapi og það var með þungu hjarta að ég renndi mér niður að stólalyftunni. Tókst vandræðalaust að komast í lyftuna og upp fórum við! Þá var komið að því að fara niður aftur og merkilegt nokk þá stóð ég í lappirnar alla leið. Átti reyndar í smá erfiðleikum með jafnvægið, vissi ekki alveg í hvaða stöðu rassinn á mér átti að vera - já og hafði heldur ekki stöðu hnjánna alveg á hreinu. Líklega (vonandi) hafa einhverjir áhorfendur getað haft gaman af! Ég þraukaði ferð nr. tvö og ferð nr. þrjú en þá var ég líka alveg búin á því. Verkjaði í lappirnar og fannst ég bara búin að standa mig vel. Bauð Val af góðmennsku einni saman að fara upp í Strýtu og renna sér þar einn nokkrar ferðir ef hann vildi - en það vildi hann sem sagt ekki - svo við fórum heim. Og ég skreið beint upp í rúm og sofnaði eins og smábarn ;-)

Verst að Kata skíðakennari er ekki hér til að taka mig í tíma.

Engin ummæli: