En nei, það var ekki hægt. Ég sagði þá að Valur hefði keypt kortin strax eftir áramót og spurði hvort þær gætu ekki flett kvittununum upp eftir dagsetningum. Nei, það var ekki hægt. Önnur byrjaði að fletta í gegnum einhverja möppu (með hraða snigilsins) en þegar hér var komið sögu var ég ekki lengur þolinmóð, onei, og spurði hvort ég gæti ekki sjálf fengið að fletta í gegnum möppuna, ég myndi þekkja skriftina hans Vals eins og skot. Nei, það var ekki hægt - sagði konan og hélt áfram að sniglast í gegnum þetta. Eftir smá stund endurtók ég spurninguna og í þetta sinnið varð mér að ósk minni. Fór að fletta þar sem frá var horfið og fór í gegnum restina af möppunni á ógnarhraða, án þess þó að sjá kvittunina. Einmitt þá kom Valur (mín varð ekkert smá fegin þá), sagði númerið á kvittuninni og þær fundu hana fljótlega (hafði verið nærri fremst í möppunni). Tekin var af mér mynd (sem sýnir afskaplega þreytta og fýlulega konu) og út fór ég, klukkutíma eftir að við Valur komum uppeftir.
Var gjörsamlega búin á því og ekki í neinu stuði til að fara að renna mér. Drattaðist niður í bíl og tróð mér í skíðaklossana (gekk fremur illa enda liðin tvö ár frá því fæti var síðast stungið ofan í þá) og skrönglaðist svo til Vals. Næsta þolraun var að koma sér á skíðin - nokkuð sem tókst í fjórðu eða fimmtu tilraun, sennilega hefur verið snjór undir klossunum. Þegar hér var komið sögu var ég búin að gleyma því að ég hefði nokkru sinni á ævinni verið í góðu skapi og það var með þungu hjarta að ég renndi mér niður að stólalyftunni. Tókst vandræðalaust að komast í lyftuna og upp fórum við! Þá var komið að því að fara niður aftur og merkilegt nokk þá stóð ég í lappirnar alla leið. Átti reyndar í smá erfiðleikum með jafnvægið, vissi ekki alveg í hvaða stöðu rassinn á mér átti að vera - já og hafði heldur ekki stöðu hnjánna alveg á hreinu. Líklega (vonandi) hafa einhverjir áhorfendur getað haft gaman af! Ég þraukaði ferð nr. tvö og ferð nr. þrjú en þá var ég líka alveg búin á því. Verkjaði í lappirnar og fannst ég bara búin að standa mig vel. Bauð Val af góðmennsku einni saman að fara upp í Strýtu og renna sér þar einn nokkrar ferðir ef hann vildi - en það vildi hann sem sagt ekki - svo við fórum heim. Og ég skreið beint upp í rúm og sofnaði eins og smábarn ;-)
Verst að Kata skíðakennari er ekki hér til að taka mig í tíma.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli