mánudagur, 31. janúar 2005

Alltaf gaman

að fá gesti. Það er þó ekki alveg eins gaman þegar maður er búinn að liggja í rúminu megnið af deginum og lítur út eins og maður hafi verið á fylleríi aldarinnar kvöldið áður...

Ég vaknaði sem sagt í gærmorgun alveg stútfull af hori í öllum "holum" sem fyirfinnast í höfðinu á mér. Lét mig samt hafa það að fara út að ganga með eiginmanninum og fannst ég hressast aðeins við það - en bara tímabundið. Fengum okkur svo kaffi/te í hádeginu og eftir það dróst ég bara inn í rúm, alveg búin á því. Þar lá ég eins og skata þar til kallað var á mig í kaffi en Valur var svo sætur í sér að baka pönnukökur. Eftir kaffi var það svo sófinn í stofunni (var orðin leið á að vera í rúminu) en um fimmleytið lufsaðist ég inn í herbergi og fór að hanga á netinu. Það var náttúrulega ekki sjón að sjá mig, var náföl og hafði hvorki nennt að "setja á mig andlitið" né þvo mér um hárið.

Þá hringdi dyrabjallan og voru það Stína og Ásgeir, gömul vinahjón okkar frá því í Tromsö. Það eru komin mörg ár síðan þau litu síðast við hjá okkur og það var virkilega gaman að sjá þau. Hins vegar held ég að þeim hafi ekkert litist á útlitið á mér enda spurði Ásgeir hvort ég hefði verið að skemmta mér kvöldið áður! Það sást auðvitað ekki utan á mér að ég væri kvefuð enda horið kyrfilega fast uppi í haus. Það byrjaði hins vegar að losna um það í gærkvöldi og í morgun og þá létti sem betur fer aðeins á þrýstingnum í höfðinu á mér. Samt óþolandi! Verð að fara og kaupa mér tvöfaldan skammt af ólífulaufum og c-vítamíni.

Engin ummæli: