Fólk var nú almennt frekar framlágt í vinnunni í morgun og ég greinilega ekki ein um að eiga erfitt með að halda aftur af geispunum. Hitti Hafdísi í hádeginu og við fínpússuðum kennsluáætlunina í markaðsfræðinni. Það verða mikil viðbrigði að fara að kenna, sérstaklega af því undirbúningur, yfirferð verkefna og prófa fer fram utan venjulegs vinnutíma hjá mér, þ.e.a.s. á kvöldin og um helgar. Svo er fjarkennsla 6 laugardaga og auk þess koma fjarnemar hingað norður eina helgi í febrúar. Þannig að mér kemur ekki til með að leiðast næstu 4-5 mánuðina.
Við Valur fengum sendingu frá Amazon í dag. Hann fékk tvo geisladiska og ég fékk bókina "Roadtrip Nation - a guide to discovering your path in life" eftir Mike Marriner og Nathan Gebhard. Höfundarnir áttu í erfiðleikum með að ákveða hvað þeir ætluðu að verða þegar þeir "yrðu stórir" og fengu þá hugmynd að ferðast um Bandaríkin og taka viðtöl við fólk sem var framgangsríkt í sínum störfum. Heyra hvaða leið þetta fólk hafði farið til að komast þangað sem það er í dag. Alls töluðu þeir við 140 menn og konur víðsvegar um landið og tóku samtölin upp á vídeó. Það gat tekið allt að tvö ár að fá viðtalstíma hjá sumum en þeir gáfust ekki upp, hringdu og sendu tölvupóst þar til heppnin varð með þeim. Frábærast við þessa bók er að sjá hvað fólk fer ólíkar leiðir á framabrautinni og það er langt frá því að allir séu staðráðnir frá upphafi við hvað þeir ætli að vinna. Margir vita ekki hvað vekur áhuga þeirra og prófa margt áður en þeir detta niður á eitthvað. Það er þessi hluti sem mér finnst svo frábær - því mér reynist svo erfitt að finna mína leið, minn rétta bás í lífinu (þ.e. atvinnulífinu)!
Engin ummæli:
Skrifa ummæli