Í vinnunni í morgun var ég að hringja í fólk og reka á eftir að það léti okkur hafa ákveðnar upplýsingar sem það hafði verið búið að lofa fyrir mörgum mánuðum síðan. Ég er búin að hringja í suma 5-6 sinnum en það virðist ekki duga til. Alltaf lofar viðkomandi samt öllu fögru en svo gerist ekki neitt, mér til mikillar skapraunar. Þessi upplýsingaöflun er hluti af stærra verkefni sem við tókum að okkur og viljum fara að ljúka.
En þegar ég kom heim úr vinnunni tók ekki skárra við. Markmið mitt var að byrja að undirbúa mig fyrir kennsluna sem nálgast nú óðfluga (í stað þess að vera á síðasta snúningi með þetta) en þá finn ég mér ótal önnur verkefni sem mér finnst að ég þurfi "nauðsynlega" að gera áður. Taka til í eldhúsinu, fara með flöskur í endurvinnsluna (góð hugmynd en ég hélt aftur af mér), keyra Andra og félaga upp í fjall (átti ekki margra kosta völ), fara með skó til skósmiðs, já og svo þyrfti ég að fara í gegnum dagblaðaúrklippur sem ég hef safnað (flokka þær og nota sumt við kennsluna). En hvað gerir mín, jú hún sest auðvitað fyrir framan tölvuna og bloggar, enda bráðnauðsynlegt. Allir hljóta nú að skilja það!
Ég lendi iðulega í þessari frestunaráráttu með stærri verkefni, s.s. að lesa undir próf. Einu sinni fór ég t.d. að sauma nýjar eldhúsgardínur þegar ég átti að vera að reikna fyrir stærðfræðipróf. Kosturinn við þetta (það eru kostir við allt, maður á alltaf að horfa á björtu hliðarnar :-) er sá að ég framkvæmi þá alls skyns hluti sem ég hefði annars ekki gert - en gallinn er sá að ég lendi í ónauðsynlegri tímaþröng. Þá segir maður bara eins og allir aðrir "Ég vinn best undir hæfilegri pressu"!
Engin ummæli:
Skrifa ummæli