miðvikudagur, 12. janúar 2005

Rafmagnsleysi

veldur nútímaunglingnum miklum kvölum, það sannaðist í dag þegar Andri (bráðum 15 ára) hringdi í mig í vinnuna til að láta mig vita að honum leiddist. Ég var á fundi og hafði slökkt á símanum þannig að ég gat ekki svarað en fékk þá SMS með þessum skilaboðum. Já, hvað er eiginlega hægt að gera þegar rafveitan hefur tekið rafmagnið af húsinu? Engin tölva, ekkert sjónvarp, ekkert vídeo.... Ég sendi honum SMS tilbaka og stakk upp á því að hann færi að læra - heyrði ekki múkk frá honum eftir það. Skrítið! Það sem við mömmur höfum lag á því að vera leiðinlegar. Önnur uppástunga hefði verið að hann gæti lagað til í herberginu sínu. Ég er alveg viss um að það hefði leitt til sömu viðbragða af hans hálfu! Þegar ég kom heim spurði ég hann hvað hann hefði tekið sér fyrir hendur. "Ég lá bara í rúminu" var svarið. "Þú fékkst nú bók í jólagjöf, þú hefðir nú getað lesið hana" sagði ég þá. "Já, ég gerði það líka" kom þá stutt og laggott frá honum - og sá var nú rogginn með sig. Þarna stakk hann alveg upp í mömmu sína. En það verður að segjast eins og er að hann er enginn lestrarhestur. Las eina bók í fyrra, Artemis Fowl, sem hann fékk í jólagjöf. Svo les hann bara á skjáinn. Já, það er af sem áður var....

Engin ummæli: