mánudagur, 31. janúar 2005

Fór áðan að sækja um nýtt vegabréf

svo mér verði nú hleypt inn í fyrirheitna landið... Ekki í frásögur færandi nema hvað ég þurfti að fara í myndatöku og þrátt fyrir að hafa klínt eins mikilli málningu framan í mig og mér framast var unnt þá var ég óttalega lasleg eitthvað og þreytuleg til augnanna á myndinni. En ljósmyndarinn er maðurinn hennar Örnu sem kennir Ísaki og þar sem þau voru nýbúin að bjóða öllum bekknum heim til sín, fór ég að spjalla við hann um heimsóknina. Krakkarnir voru nefnilega svo rosalega ánægð, hann hafði m.a. spilað gamlar rokkplötur fyrir þau við góðar undirtektir.

Þegar myndirnar voru til gaf hann mér tvær í kaupbæti, þannig að ég fékk sex í stað fjögurra. Ein fór í vegabréfið en svo sit ég uppi með fimm þreyttar Guðnýjar í hvítu umslagi. NB! Það er ekkert út á ljósmyndunina að setja - bara fyrirsætuna! Ég spurði hann nú reyndar hvort hann gæti ekki fótósjoppað myndina svo ég kæmi betur fyrir sjónir - en hann sagðist ekki mega það þegar um vegabréf væri að ræða. Þá yrði myndin bara að vera eins og hún kæmi af skepnunni....

Alltaf gaman

að fá gesti. Það er þó ekki alveg eins gaman þegar maður er búinn að liggja í rúminu megnið af deginum og lítur út eins og maður hafi verið á fylleríi aldarinnar kvöldið áður...

Ég vaknaði sem sagt í gærmorgun alveg stútfull af hori í öllum "holum" sem fyirfinnast í höfðinu á mér. Lét mig samt hafa það að fara út að ganga með eiginmanninum og fannst ég hressast aðeins við það - en bara tímabundið. Fengum okkur svo kaffi/te í hádeginu og eftir það dróst ég bara inn í rúm, alveg búin á því. Þar lá ég eins og skata þar til kallað var á mig í kaffi en Valur var svo sætur í sér að baka pönnukökur. Eftir kaffi var það svo sófinn í stofunni (var orðin leið á að vera í rúminu) en um fimmleytið lufsaðist ég inn í herbergi og fór að hanga á netinu. Það var náttúrulega ekki sjón að sjá mig, var náföl og hafði hvorki nennt að "setja á mig andlitið" né þvo mér um hárið.

Þá hringdi dyrabjallan og voru það Stína og Ásgeir, gömul vinahjón okkar frá því í Tromsö. Það eru komin mörg ár síðan þau litu síðast við hjá okkur og það var virkilega gaman að sjá þau. Hins vegar held ég að þeim hafi ekkert litist á útlitið á mér enda spurði Ásgeir hvort ég hefði verið að skemmta mér kvöldið áður! Það sást auðvitað ekki utan á mér að ég væri kvefuð enda horið kyrfilega fast uppi í haus. Það byrjaði hins vegar að losna um það í gærkvöldi og í morgun og þá létti sem betur fer aðeins á þrýstingnum í höfðinu á mér. Samt óþolandi! Verð að fara og kaupa mér tvöfaldan skammt af ólífulaufum og c-vítamíni.

laugardagur, 29. janúar 2005

Enn meira rok

Ég er nú eiginlega að verða hálf þreytt á þessu endalausa roki. Var alltaf að vakna s.l. nótt þegar verstu hviðurnar dundu á svefnherbergisglugganum okkar og í morgun sáum við trjátoppa og greinar af lerkitrjám úr garðinum fyrir ofan okkur liggja eins og hráviði á leikvellinum sem er á milli húsanna. Í morgun var ég svo að kenna fjarnemum og tvær konur frá Dalvík sem sátu tímann sögðu mér að flutningabíll með tengivagn hefði oltið í morgun hér úti á hálsinum. Um tvöleytið datt rokið aðeins niður og ég var voða glöð en svo fór allt á fullt aftur og þá fylgdi mígandi rigning í kaupbæti. Það væri kannski bara betra að vera úti í stað þess að vera inni í húsi og hlusta á endalaust gnauðið í vindinum.

Það er frekar fyndið hvað húsverkin fylgja alltaf helgunum. Ég var reyndar löt í dag og gerði lítið nema þvo þvott og setja reikninga í möppur. Já og laga til í tölvupóstinum mínum. Það er að verða gjörsamlega óþolandi hvað ég fæ mikinn ruslpóst og þó ég reyni að eyða honum samstundis þá verður alltaf eitthvað eftir. Svo er ég líka áskrifandi að hinum og þessum fréttabréfum, ferðatilboðum o.s.frv. og stundum bara hleðst þetta allt saman upp án þess að ég fái nokkuð við ráðið. Var örugglega hátt í klukkutíma í dag að laga til og henda - en það var góð tilfinning þegar það var búið. Vá, er allt í einu að fatta hvað ég fæ alltaf mikið kikk út úr því að henda dóti! Hvaða sjúkdómi skyldi maður vera haldinn þegar maður fær svona mikið út úr því að henda einhverju? Spurning hvað Freud gamli hefði sagt við þessu?

föstudagur, 28. janúar 2005

Rok og rigning

úti núna. Regnið lemur gluggann og gott að geta verið inni í hlýjunni. Ég fór í minn venjulega föstudagsklúbb í dag. Við vorum fjórar af átta sem mættum, allar hinar e-s staðar á ferð og flugi. Ein á Flórída, önnur á leið til Reykjavíkur, sú þriðja að vinna en hvar sú fjórða var vissi engin. Mér finnst það stundum ansi fyndið hvað við getum verið óttalega bissí eitthvað, samt erum við alltaf að tala um mikilvægi þess að geta nú slappað af og ekki vera að stressa okkur endalaust á öllu mögulegu. En við fyrsta tækifæri erum við roknar út um hvippinn og hvappinn, til Reykjavíkur, til útlanda, í sumarbústað o.s. frv.

Svo allir fái nú örugglega að fylgjast með Flórída-undirbúningnum þá endurskoðaði ég algjörlega leit mína að gistingu eftir að hafa heyrt frá Kötu í Minnesóta að gott væri að leigja sér hús og vera bara á bíl. Hætti sem sagt algjörlega við hótelin og hef fundið helling af flottum húsum sem kosta mun minna en hótel hefði gert. Takk fyrir það Kata mín!

Það eina sem ég hef áhyggjur af núna í tengslum við ferðina eru kettirnir, Birta og Máni. Þau eru svo selskapssjúk að ég óttast að þeim muni leiðast alveg óskaplega á meðan við erum í burtu. Verð að reyna að semja við bestu nágranna í heimi, vini okkar þau Sunnu og Kidda, um að koma reglulega með börnin sín til að leika við kettina.....

fimmtudagur, 27. janúar 2005

Máninn fullur fer um heiminn...

Stundum þegar ég er í bílnum á leiðinni eitthvert og ekki að drepast úr stressi horfi ég í kringum mig til að upplifa eitthvað fallegt. Stundum eru það skýin, stundum börn að leik, stundum frostþoka yfir Pollinum (þeim eina sanna). Í morgun var það tunglið. Mikið óskaplega var það fallegt. Fullt tungl og örlítil skýjaslæða sem vafði sér mjúklega í kringum það. Birtan var þvílík að mig langaði mest til að geta lagst einhvers staðar á bakið, horft upp í himininn og bara verið til. Minnti mig á það þegar við vorum að ganga upp í Fálkafell, á leiðinni í skátaútilegu, fyrir mörgum árum síðan. Þetta var að kvöldlagi, það var töluvert frost og stjörnubjartur himinn. Við lögðumst á bakið í snjóinn og horfðum á stjörnurnar, gott ef við gerðum ekki engla í snjóinn líka.

Þau eru svo mikils virði þessi andartök þar sem við erum bara til - erum meðvituð um fegurðina allt í kringum okkur - og í smá stund eru engin vandamál, ekkert stress, bara hrein ánægja með lífið og tilveruna.

P.S. Smá væmni í gangi í dag, er það ekki allt í lagi stundum?

þriðjudagur, 25. janúar 2005

Það ætlar að ganga illa

að finna hótel við hæfi í Orlando. Flækir málið verulega að vera fimm saman í stað fjögurra. Það flækir málið reyndar líka að geta lesið umsagnir annarra um hótelin inni á Tripadvisor.com 3ja stjörnu hótel sem litu ágætlega út af myndum að dæma eru allt í einu ekki svo kræsileg lengur þegar maður les um kakkalakka, flagnaða málningu, tóbakslykt, bletti í gólfteppum o.s.frv. Hótelin sem fá góða dóma eru annað hvort upppöntuð, of dýr eða með of fá svefnpláss.

Inni í herbergi bölsótar unglingurinn - við gáfum honum (rándýra) headphona í jólagjöf til að nota við tölvuna og nú er hljóðið dottið út vinstra megin. Engin gleði þar á bæ.

Inni í stofu er eiginmaðurinn að hlusta á tónlist en Ísak fór í sund ásamt Jóni Stefáni vini sínum og hans fjölskyldu. Okkur var reyndar boðið að koma með líka en við vorum nýbúin að troða okkur út af heimatilbúinni pítsu og treystum okkur ómögulega í sund með fulla maga af mat. Annars var Ísak búinn að fara í skólasund í dag, auk leikfimi og fótboltaæfingar, þannig að hann ætti að sofna vel í kvöld.



sunnudagur, 23. janúar 2005

Að vera utan við sig

er eiginleiki sem prófessorar búa oft yfir, a.m.k. samkvæmt "stereotýpískum" hugmyndum fólks um prófessora. En auðvitað geta allir verið utan við sig og ég er þar engin undantekning. Ég var t.d. mjög utan við mig þegar ég fór inn í bílskúrinn hér um árið, ýtti á takkann til að opna bílskúrshurðina, stökk svo upp í bílinn og bakkaði af stað. Ég komst þó ekki langt því hurðin var aðeins rúmlega hálfnuð á leið sinni upp - og það heyrðist hár skellur þegar ég bakkaði á hana!

Ein vinkona mín er afskaplega utan við sig en það skemmtilega er að hún hefur mikinn húmor fyrir því og deilir gjarnan sögunum af eigin axarsköftum með okkur hinum. Um daginn, í framhaldi af umræðu um að við mömmurnar værum alltaf að keyra og sækja krakkana okkar upp í fjall, sagði hún okkur frá því þegar hún sótti dóttur sína og nokkrar vinkonur hennar í fjallið. Hún var búin að keyra tvær stelpur heim til sín og var á leiðinni til þeirrar þriðju þegar sú segir allt í einu, "þær hafa gleymt brettunum sínum í bílnum". Vinkona mín var alveg hissa en snéri strax við til að láta þær hafa brettin. Fann báðar stelpurnar úti á götu með skrýtinn svip í framan. Staðreyndin var nefnilega ekki sú að þær höfðu ekki gleymt brettunum, ónei, þegar þær voru komnar aftur fyrir bílinn og ætluðu að fara að opna afturhurðina keyrði vinkona mín burtu. Það var hún sem hafði steingleymt brettunum í skottinu og brunaði bara af stað þegar stelpurnar voru komnar út úr bílnum. Eftir stóðu þær og skildu ekki neitt í neinu ;-)

Fyrir nokkrum árum var þessi sama vinkona mín á leiðinni til Reykjavíkur. Þetta var skömmu eftir að Hvalfjarðargöngin opnuðu, hún var ein á ferð með tvö yngstu börnin og það var orðið dimmt úti. Ættingjar sem biðu eftir henni í Reykjavík skildu ekkert í því hvað hún var lengi á leiðinni og voru farnir að hafa áhyggjur af því að eitthvað slæmt hefði gerst. Loks birtist hún, nærri klukkutíma síðar en áætlað hafði verið og skýringin: hún var ekki alveg viss um að rata nýju leiðina í göngin svo hún hafði bara elt bílinn fyrir framan sig. Það var bara einn galli við það snilldarráð, sá bíll fór nefnilega Hvalfjörðinn!



laugardagur, 22. janúar 2005

Hef varla haft

tíma til að blogga undandarið. Við Bryndís vorum að ljúka síðasta verkefninu okkar hjá Innan handar og þegar ég kom heim eftir vinnu þurfti ég að fara að undirbúa mig fyrir kennsluna. Suma kafla á ég náttúrulega frá í fyrra en samt vil ég vera pottþétt á þessu, les kaflann í bókinni aftur, fer yfir glærurnar frá í fyrra og breyti einhverju + reyni að taka með nýleg dæmi sem ég sæki t.d. í dagblöðin. Hef einhvern veginn ekki haft orku í það að blogga líka enda lítið annað að gerast en vinna.

En mikið sem það verður skrítið að koma á skrifstofuna á mánudaginn (við ætlum að halda henni út mánuðinn) og vita að þetta er búið hjá okkur Bryndísi. Þrátt fyrir að fyrirtækið hafi ekki gengið sem skyldi þá hefur okkar samstarf gengið mjög vel og ég er ansi hrædd um að ég eigi eftir að sakna þess að geta ekki rabbað við hana. Svo er ég auðvitað byrjuð að velta því fyrir mér hvað ég á að taka mér fyrir hendur í vor þegar kennslan er búin - en ætli sé ekki bara best að láta hverjum degi nægja sína þjáningu og treysta því að eitthvað dúkki upp.

Er annars búin að vera á fullu í tiltekt og húsverkum í dag, með þeirri undantekningu reyndar að sitja við tölvuna hátt í tvo tíma og leita að hótelum í Orlando. Það þrengir úrvalið töluvert að vera fimm saman og mér tókst ekki að finna neitt sem ég féll fyrir. Við erum farin að hlakka mikið til að komast í vetrarfrí, það verður gaman að prófa þetta einu sinni. Við höfum nefnilega talað um það í mörg ár (alveg síðan við bjuggum í Tromsö fyrir 10-12 árum síðan) að fara í vetrarfrí og loksins er komið að því. Valur á líka mjög erfitt með að fara til útlanda á sumrin - sá tími ársins er helgaður veiði!

miðvikudagur, 19. janúar 2005

Strákarnir

hafa verið í fríi frá skólanum síðustu þrjá daga (að deginum í dag meðtöldum). Það setur rútínuna hjá mér úr skorðum því ég kann ekki við að fara í leikfimi áður en Ísak er vaknaður á morgnana - og ekki kann ég heldur við að vekja krakkann kl. 8 svo ég komist í leikfimi. En það er ótrúlegur lúxus að komast í leikfimi þrjá morgna í viku og virkilega fínt að byrja daginn á því að koma blóðrásinni á hreyfingu. Þetta er m.a. einn af kostunum við að vera sjálfs sín herra. Núna byrja ég reyndar að kenna kl.8 á föstudagsmorgnum, þannig að leikfimis-kerfið ruglast hjá mér.

Hitti í dag stelpu (konu) sem var með mér á námskeiðinu um daginn. Ég hef líka verið í símasambandi við eina aðra og fengið tölvupóst frá þeirri þriðju. Það er alltaf gaman að kynnast nýju fólki og um að gera að reyna að halda sambandi við þá sem manni finnst gott og gaman að tala við.

Nóg komið af spjalli í bili, þarf að fara að gera eitthvað af viti...

þriðjudagur, 18. janúar 2005

Blogg-leti

hin ógurlegasta herjar nú á mig á meðan bóndinn bloggar sem aldrei fyrr.

Mamma og Ásgrímur voru hjá okkur um helgina en fóru nú í morgun. Ég ók þeim á Umferðarmiðstöðina kl. 9 en rútan fór kl. 9.30. Þau vildu vera viss um að ná rútunni.... Fyrir þá sem þekkja ekki til, þá tekur í mesta lagi 5 mín. að keyra þangað frá okkur - en allur er varinn góður! Annars sáum við ekki mikið til þeirra, þau fóru í ótal heimsóknir og svo náðu þau einni samkomu í Hvítasunnukirkjunni.

Við höfum ákveðið að taka okkur smá vetrarfrí fjölskyldan og skreppa þangað sem sólin skín meira en hér. Þetta hittir akkúrat á Verkefnaviku í skólanum hjá mér - en það er kennslulaus vika. Að vísu verður að taka strákana úr skólanum í 7 kennsludaga en maður er orðinn svo óprúttinn eitthvað eftir verkfallið... og þeir hafa lofað öllu fögru varðandi það að vinna upp það sem tapast. Og stóra barnið (21 árs) hún Hrefna ætlar meira að segja að koma með okkur þannig að þetta verður sannkallað fjölskyldufrí. Það verður gaman að sjá hvernig þessi kokteill hristist saman, orðið langt síðan við höfum öll farið saman í frí :-)

sunnudagur, 16. janúar 2005

Afrekaði

að fara á skíði í gær. Stakk meira að segja upp á því sjálf - aðallega af því það var svo gott veður, 2ja stiga frost og örlítil gola. Valur ætlaði varla að trúa sínum eigin eyrum en var fljótur að taka við sér. Af stað fórum við, reyndar bara tvö ein því hvorki Ísak né Andri höfðu áhuga á brettaiðkun í gær. Komin uppeftir var fyrsta verkefni mitt að sækja árskort sem Valur var búinn að kaupa handa mér (hann reynir allt, kaupir handa mér skíði, kaupir árskort...). Á meðan ætlaði hann að bíða í bílnum. Ég fór inn og stillti mér í röð fyrir framan miðasöluna og beið þar þolinmóð í 10-15 mín. þar til röðin kom að mér. Þá var mér sagt að árskortin væru afgreidd inni í öðrum sal. Ég þangað og sá strax að það var biðröð út að dyrum. Var ennþá haldin stóískri ró og brosti góðlega þegar manneskjan fyrir framan mig (nágranni minn úr götunni) fór að ausa úr skálum reiði sinnar yfir því hvað þetta gengi hægt. Börnin hennar voru með í för og dúðuð eins og þau væru að fara á pólinn. Eftir nokkra stund skildi ég betur af hverju hún var svona fúl, röðin hreyfðist bókstaflega ekki neitt, og börnin voru farin að fölna upp og litu helst út fyrir að brátt myndi líða yfir þau. Mamman greip þá til sinna ráða, fletti þau klæðum og sagði enn nokkur vel valin orð við mig. En ég var sallaróleg, ætlaði ekki að láta þetta biðraðar-syndróm ná tökum á mér. Tíminn leið - og leið - og leið. Hægt og bítandi færðist ég framar í röðinni og loks þegar u.þ.b. 40-45 mín. voru liðnar var röðin komin að mér. Þá var ég búin að steingleyma númerinu sem Valur hafði sagt mér að væri á kvittuninni fyrir árskortunum. Hélt að það yrði nú lítið vandamál, það hlyti að vera hægt að fletta mér upp í tölvunni.

En nei, það var ekki hægt. Ég sagði þá að Valur hefði keypt kortin strax eftir áramót og spurði hvort þær gætu ekki flett kvittununum upp eftir dagsetningum. Nei, það var ekki hægt. Önnur byrjaði að fletta í gegnum einhverja möppu (með hraða snigilsins) en þegar hér var komið sögu var ég ekki lengur þolinmóð, onei, og spurði hvort ég gæti ekki sjálf fengið að fletta í gegnum möppuna, ég myndi þekkja skriftina hans Vals eins og skot. Nei, það var ekki hægt - sagði konan og hélt áfram að sniglast í gegnum þetta. Eftir smá stund endurtók ég spurninguna og í þetta sinnið varð mér að ósk minni. Fór að fletta þar sem frá var horfið og fór í gegnum restina af möppunni á ógnarhraða, án þess þó að sjá kvittunina. Einmitt þá kom Valur (mín varð ekkert smá fegin þá), sagði númerið á kvittuninni og þær fundu hana fljótlega (hafði verið nærri fremst í möppunni). Tekin var af mér mynd (sem sýnir afskaplega þreytta og fýlulega konu) og út fór ég, klukkutíma eftir að við Valur komum uppeftir.

Var gjörsamlega búin á því og ekki í neinu stuði til að fara að renna mér. Drattaðist niður í bíl og tróð mér í skíðaklossana (gekk fremur illa enda liðin tvö ár frá því fæti var síðast stungið ofan í þá) og skrönglaðist svo til Vals. Næsta þolraun var að koma sér á skíðin - nokkuð sem tókst í fjórðu eða fimmtu tilraun, sennilega hefur verið snjór undir klossunum. Þegar hér var komið sögu var ég búin að gleyma því að ég hefði nokkru sinni á ævinni verið í góðu skapi og það var með þungu hjarta að ég renndi mér niður að stólalyftunni. Tókst vandræðalaust að komast í lyftuna og upp fórum við! Þá var komið að því að fara niður aftur og merkilegt nokk þá stóð ég í lappirnar alla leið. Átti reyndar í smá erfiðleikum með jafnvægið, vissi ekki alveg í hvaða stöðu rassinn á mér átti að vera - já og hafði heldur ekki stöðu hnjánna alveg á hreinu. Líklega (vonandi) hafa einhverjir áhorfendur getað haft gaman af! Ég þraukaði ferð nr. tvö og ferð nr. þrjú en þá var ég líka alveg búin á því. Verkjaði í lappirnar og fannst ég bara búin að standa mig vel. Bauð Val af góðmennsku einni saman að fara upp í Strýtu og renna sér þar einn nokkrar ferðir ef hann vildi - en það vildi hann sem sagt ekki - svo við fórum heim. Og ég skreið beint upp í rúm og sofnaði eins og smábarn ;-)

Verst að Kata skíðakennari er ekki hér til að taka mig í tíma.

föstudagur, 14. janúar 2005

Fyrsti

kennslutíminn í dag og gekk líka svona ljómandi vel. Það er alltaf spennandi að sjá hópinn, strákarnir raða sér allir aftast, í miðjunni eru nokkrir strákar en aðallega stelpur og fremst sitja þrjár "þroskaðar" konur (á aldur við mig eða örlítið eldri). Þetta er mjög líkt sætaskipaninni sem var þegar ég var sjálf í skólanum. Þá var ég þroskuð kona á fremsta bekk...

Í dag var ég að kenna kafla sem Hafdís var með í fyrra þannig að ég gat ekki notfært mér mitt eigið efni frá í fyrra. Það er alveg ótrúlega tímafrekt að undirbúa sig, sérstaklega fyrir svona manneskjur eins og mig sem vil hafa allt svo pottþétt. Það er þó kostur við að hætta með fyrirtækið, þá get ég undirbúið mig á dagvinnutíma en ekki alltaf á kvöldin (og fram á nótt eins og kom fyrir í fyrra).

Annars var dagurinn í dag frekar erilsamur, kennsla, símhringingar (enn að reyna að fá fólk til að skila gögnum sem það lofaði síðasta sumar), greiðsla reikninga (ótrúlegur munur síðan netbankinn kom til sögunnar), fara í Hagkaup, keyra Andra upp í fjall, sækja mömmu og Ásgrím á Umferðarstöðina, gefa þeim kaffi, sækja Val í vinnuna, versla í matinn, skreppa í örstutta stund í konuklúbb (Andri hringdi þegar ég var nýsest), sækja Andra upp í fjall, borða, setja í þvottavél... blogga. Já, þetta er indælt stríð :-)

fimmtudagur, 13. janúar 2005

Einum kafla

í lífi mínu lýkur senn. Ég er ekki að fara að skilja við kallinn, ekki að flytja, ekki.. Nei, hið sanna er að við Bryndís höfum tekið þá ákvörðun að loka sjoppunni, þ.e. Innan handar sf. Úthaldið er búið og þrátt fyrir skárri (aldrei góða) verkefnastöðu inn á milli þá viljum við ekki sætta okkur við það lengur að geta ekki greitt okkur laun. Höfðum gefið okkur ákveðnar forsendur fyrir rekstrinum og þar sem þær hafa ekki staðist hlaut að koma að endalokum hjá okkur. Ég segi það ekki, ætli við höldum ekki fyrirtækisnafninu + VSK númerinu aðeins lengur (ef eitthvað bitastætt skyldi reka á fjörur okkar) en líklega segjum við upp húsnæðinu hjá Frumkvöðlasetrinu bráðlega.

Það eru blendnar tilfinningar sem fylgja svona ákvörðunum en ég er þeirrar skoðunar að öll reynsla sem við öðlumst í lífinu geti gagnast okkur, svo hver veit, kannski eitthvað frábært komi út úr þessu síðar meir. Já, það var lagið Pollýanna mín! Ég hef auðvitað vinnu fram á vorið við að kenna en hvað síðan tekur við - tja - hef ekki hugmynd.

Hér hefur verið fremur kalt í dag, ég hef svona rétt fundið fyrir því þegar ég hef skreiðst inn og út úr bílnum en þau undur og stórmerki gerðust í dag að Ísak samþykkti að fara í ullarpeysu í fjallið, þannig að meira að segja hann hefur gert sér grein fyrir kuldanum. Hann fór á brettanámskeið með tveimur vinum sínum, bræðrunum Jóni Stefáni og Patreki, og kom aldeilis sæll og glaður heim aftur.

Fleira er ekki í fréttum að sinni...

miðvikudagur, 12. janúar 2005

Rafmagnsleysi

veldur nútímaunglingnum miklum kvölum, það sannaðist í dag þegar Andri (bráðum 15 ára) hringdi í mig í vinnuna til að láta mig vita að honum leiddist. Ég var á fundi og hafði slökkt á símanum þannig að ég gat ekki svarað en fékk þá SMS með þessum skilaboðum. Já, hvað er eiginlega hægt að gera þegar rafveitan hefur tekið rafmagnið af húsinu? Engin tölva, ekkert sjónvarp, ekkert vídeo.... Ég sendi honum SMS tilbaka og stakk upp á því að hann færi að læra - heyrði ekki múkk frá honum eftir það. Skrítið! Það sem við mömmur höfum lag á því að vera leiðinlegar. Önnur uppástunga hefði verið að hann gæti lagað til í herberginu sínu. Ég er alveg viss um að það hefði leitt til sömu viðbragða af hans hálfu! Þegar ég kom heim spurði ég hann hvað hann hefði tekið sér fyrir hendur. "Ég lá bara í rúminu" var svarið. "Þú fékkst nú bók í jólagjöf, þú hefðir nú getað lesið hana" sagði ég þá. "Já, ég gerði það líka" kom þá stutt og laggott frá honum - og sá var nú rogginn með sig. Þarna stakk hann alveg upp í mömmu sína. En það verður að segjast eins og er að hann er enginn lestrarhestur. Las eina bók í fyrra, Artemis Fowl, sem hann fékk í jólagjöf. Svo les hann bara á skjáinn. Já, það er af sem áður var....

þriðjudagur, 11. janúar 2005

Jamm og jæja,

ótal verkefni sem bíða og mig langar helst að leggjast upp í sófa með góða bók. Valur var "sendur" upp í fjall á skíði en hann er öllu duglegri en ég að nýta sér þetta frábæra útivistarsvæði hér rétt við bæjardyrnar. Ég hef í rauninni aldrei kunnað á skíði og ætli minnimáttarkenndin sé ekki bara að drepa mig í brekkunum. Svo þoli ég illa kuldann, hef síðstu árin haft óskaplega mikið að gera frá áramótum fram á vor - já, ég hef ótal afsakanir fyrir því að fara ekki á skíði. Kannski ég ætti nú að drífa mig einu sinni og athuga hvort það kveikir eitthvað í mér? Ekki vantar mig græjurnar, Valur hefur séð fyrir því.

Fyrir mörgum, mörgum árum síðan fórum við til Davos í Sviss en þar var haldið námskeið fyrir skurðlækna - með skíðaívafi. Og ef ég á að vera hreinskilin þá fannst mér mjög gaman, frábært að geta rennt sér marga kílómetra án þess að þurfa að fara í lyftu. Svo var sól og gott veður allan tímann. En þrátt fyrir þessa góðu ferð fæ ég kvíðahnút í magann í hvert skipti sem Valur nefnir þá löngun sína að fara aftur í skíðaferð til útlanda. Stakk jafnvel upp á því við hann um daginn að hann gæti farið með Andra með sér, þetta yrði svona feðgaferð. En þá er Andri auðvitað á bretti en Valur á skíðum svo honum fannst að það myndi ekki alveg ganga. Já, margt er mannsins bölið....

Prisoner of own thoughts

Is it really safe
to step out of my cage?

A cage created by false beliefs
and filled with fear.

Although I want to be free
this has always been the place to be.

But deep in my heart I understand
that out there is a whole new space.

So I face my fears
and take the leap.

Still a little afraid
but with freedom in sight.

I embrace the safe new me.

mánudagur, 10. janúar 2005

Er ekki

alveg komin í blogg-gírinn ennþá. Sé samt á teljaranum mínum að einhverjir eru að bíða eftir næsta pistli svo ég verð að taka mig saman í andlitinu. Það var gott að koma aftur heim til fjölskyldunnar eftir mjög intensívt námskeið í höfuðborginni. Í dag var svo leikfimi, vinna og allt þetta venjulega. Samt er ég eitthvað heiladauð akkúrat núna (kannski gott að slökkva stundum á þessum heila sem alltaf er að störfum, leyfa honum aðeins að hvíla sig...) og læt þetta gott heita í bili.

föstudagur, 7. janúar 2005

Það verður smá hlé

á bloggskrifum mínum næstu daga. Er að fara á námskeið sem stendur yfir alla helgina og enginn tími gefst til að skrifa. Námskeiðið er haldið í Reykjavík og því er ég komin í höfuðborgina, kom reyndar í gær og gisti hjá Rósu vinkonu minni í nótt. Við sátum frameftir (ekki of lengi samt enda gamlar konur) og kjöftuðum eins og okkur einum er lagið, enda margar minningarnar sem hægt er að rifja upp.

Dagurinn í dag fór í "Shop till you drop" leiðangur og stóð ég vart í fæturnar að honum loknum. Afraksturinn var þó harla lítill og ekki til að hreykja sér af. Fór að vísu í Húsgagnahöllina og Ikea en síðan var Kringlan næst á dagskrá. Markmiðið var að finna gallabuxur á mig en þrátt fyrir ótrúlegan skammt af þolinmæði af minni hálfu og þá staðreynd að ég þræddi hverja einustu búðarholu á svæðinu tókst mér ekki að finna buxur sem pössuðu á mig. Fyrir það fyrsta þá vil ég ekki buxur þar sem strengurinn situr svo lágt að hann nemur við skapahárin (sem takmarkar úrvalið um ca. 90%) og í öðru lagi langar mig ekki í rifnar, götóttar eða buxur sem líta út fyrir að vera skítugar. Ergo: ég passa ekki inn í markhópinn fyrir gallabuxur! Vil samt taka það fram að í Gallabuxnabúðinni fékk ég góða þjónustu og þar fengust m.a. buxur sem náðu nægilega langt upp á magann til að teljast siðsamlegar en sniðið bara passaði ekki á mig. Sorry!

Hvað um það - það kemur dagur eftir þennan dag - líka í gallabuxunum.

miðvikudagur, 5. janúar 2005

Frestunarárátta

er óþolandi ljóður á fólki - mér sjálfri meðtalinni.

Í vinnunni í morgun var ég að hringja í fólk og reka á eftir að það léti okkur hafa ákveðnar upplýsingar sem það hafði verið búið að lofa fyrir mörgum mánuðum síðan. Ég er búin að hringja í suma 5-6 sinnum en það virðist ekki duga til. Alltaf lofar viðkomandi samt öllu fögru en svo gerist ekki neitt, mér til mikillar skapraunar. Þessi upplýsingaöflun er hluti af stærra verkefni sem við tókum að okkur og viljum fara að ljúka.

En þegar ég kom heim úr vinnunni tók ekki skárra við. Markmið mitt var að byrja að undirbúa mig fyrir kennsluna sem nálgast nú óðfluga (í stað þess að vera á síðasta snúningi með þetta) en þá finn ég mér ótal önnur verkefni sem mér finnst að ég þurfi "nauðsynlega" að gera áður. Taka til í eldhúsinu, fara með flöskur í endurvinnsluna (góð hugmynd en ég hélt aftur af mér), keyra Andra og félaga upp í fjall (átti ekki margra kosta völ), fara með skó til skósmiðs, já og svo þyrfti ég að fara í gegnum dagblaðaúrklippur sem ég hef safnað (flokka þær og nota sumt við kennsluna). En hvað gerir mín, jú hún sest auðvitað fyrir framan tölvuna og bloggar, enda bráðnauðsynlegt. Allir hljóta nú að skilja það!

Ég lendi iðulega í þessari frestunaráráttu með stærri verkefni, s.s. að lesa undir próf. Einu sinni fór ég t.d. að sauma nýjar eldhúsgardínur þegar ég átti að vera að reikna fyrir stærðfræðipróf. Kosturinn við þetta (það eru kostir við allt, maður á alltaf að horfa á björtu hliðarnar :-) er sá að ég framkvæmi þá alls skyns hluti sem ég hefði annars ekki gert - en gallinn er sá að ég lendi í ónauðsynlegri tímaþröng. Þá segir maður bara eins og allir aðrir "Ég vinn best undir hæfilegri pressu"!

þriðjudagur, 4. janúar 2005

Loks

varð mínum heittelskaða að ósk sinni - einhver honum nákominn (annar en ég) byrjaði að blogga, eða halda úti skrafsíðu eins og viðkomandi kallar það. Sá er um ræðir er frændi Vals (ég þyrfti nú eiginlega að skoða skyldleikann í Íslendingabók) og mætti jafnvel halda að andinn hafi komið yfir hann eftir að hafa lesið bloggið hans Vals. Þar hafa þeir frændur kveðist á og bætir Reynir um betur á sinni skrafsíðu. Þar bókstaflega vella vísurnar fram. Ég vænti mikils af áframhaldandi rafrænum samskiptum þeirra frændanna í framtíðinni!

Var að koma

úr frábærlega hressandi göngutúr með vinkonu minni. Veðrið sýndi sitt fegursta andlit, snjóhvít fönn yfir öllu, rétt um frostmark og svo stillt að ekki blakti hár á höfði. Við gengum út úr umferðarniðnum, út að golfvelli og upp að golfskála. Þar var reyndar hálf brjálaður hundur á harðahlaupum fram og tilbaka en engan sáum við eigandann. Hvar svo sem hann var hafði hann a.m.k. haft rænu á því að klæða hundinn í endurskinsvesti þannig að ekki var hætta á að voffi yrði keyrður í klessu. Hins vegar óttuðumst við eitt andartak um að vera sjálfar keyrðar í klessu á bakaleiðinni þegar þrír snjósleðar komu á hvínandi siglingu og var einn þeirra ljóslaus. Ég reyndi að sveifla endurskinsmerkinu í gríð og erg (þetta er sveitavegur, engin lýsing) og viti menn, þeir brunuðu framhjá okkur án þess að að slys hlytist af.

Á heimleiðinni fór ég í Hrísalund og keypti fisk í matinn. Tók húfuna af mér fyrir utan og mætti í búðina með hárið svo rafmagnað að það klesstist allt upp að höfðinu á mér - hefði betur haft húfuna á mér áfram!

Rétt í þessu datt dóttir mín inn úr dyrunum að sækja launaseðilinn sinn sem á einhvern undarlegan hátt ratar alltaf inn um lúguna hjá okkur, líklega vegna þess að hún hefur ekki ennþá haft fyrir því að skipta um lögheimili. Ég notaði tækifærið og reyndi að koma stóra speglinum hennar með henni út aftur en hún harðneitaði, þrátt fyrir að ég benti henni á að spegillinn myndi smellpassa fyrir ofan annan sófann hjá þeim... En í sárabætur þá tók hún við bókinni (Roadtrip Nation) sem ég bauðst til að lána henni - enda er hún í sömu krísu og mútta gamla, veit ekkert hvað hún vill verða þegar hún verður stór.

mánudagur, 3. janúar 2005

Back to reality

Já þá eru frímínúturnar á enda og búið að hringja inn í næsta tíma.....

Fólk var nú almennt frekar framlágt í vinnunni í morgun og ég greinilega ekki ein um að eiga erfitt með að halda aftur af geispunum. Hitti Hafdísi í hádeginu og við fínpússuðum kennsluáætlunina í markaðsfræðinni. Það verða mikil viðbrigði að fara að kenna, sérstaklega af því undirbúningur, yfirferð verkefna og prófa fer fram utan venjulegs vinnutíma hjá mér, þ.e.a.s. á kvöldin og um helgar. Svo er fjarkennsla 6 laugardaga og auk þess koma fjarnemar hingað norður eina helgi í febrúar. Þannig að mér kemur ekki til með að leiðast næstu 4-5 mánuðina.

Við Valur fengum sendingu frá Amazon í dag. Hann fékk tvo geisladiska og ég fékk bókina "Roadtrip Nation - a guide to discovering your path in life" eftir Mike Marriner og Nathan Gebhard. Höfundarnir áttu í erfiðleikum með að ákveða hvað þeir ætluðu að verða þegar þeir "yrðu stórir" og fengu þá hugmynd að ferðast um Bandaríkin og taka viðtöl við fólk sem var framgangsríkt í sínum störfum. Heyra hvaða leið þetta fólk hafði farið til að komast þangað sem það er í dag. Alls töluðu þeir við 140 menn og konur víðsvegar um landið og tóku samtölin upp á vídeó. Það gat tekið allt að tvö ár að fá viðtalstíma hjá sumum en þeir gáfust ekki upp, hringdu og sendu tölvupóst þar til heppnin varð með þeim. Frábærast við þessa bók er að sjá hvað fólk fer ólíkar leiðir á framabrautinni og það er langt frá því að allir séu staðráðnir frá upphafi við hvað þeir ætli að vinna. Margir vita ekki hvað vekur áhuga þeirra og prófa margt áður en þeir detta niður á eitthvað. Það er þessi hluti sem mér finnst svo frábær - því mér reynist svo erfitt að finna mína leið, minn rétta bás í lífinu (þ.e. atvinnulífinu)!

sunnudagur, 2. janúar 2005

Það eru kostir og gallar við allt

Kosturinn við þann tíma þegar Andri átti ekki í samskiptum við aðra stráka nema gegnum tölvuna var sá að við foreldrarnir vissum alltaf hvar hann var. Ekkert kvöld- og næturgölt sem hélt vöku fyrir okkur. Gallinn var auðvitað sá að við höfðum áhyggjur af félagslegum þroska hans. Nú er hann hættur að vera svona mikið í tölvunni, sem er kostur, en er kominn í nýjan vinahóp með strákum sem eru flestir einu ári eldri en hann og við þekkjum ekki neitt. Gallinn er sá að hann er (annað slagið) farinn að fara út á kvöldin.

Ég veit ekki hvort það er ellimerki - en við Valur eigum afskaplega erfitt með að halda okkur vakandi eftir klukkan ellefu á kvöldin og verðum því að treysta á frásögn sonarins varðandi það hvenær hann kom heim. Eitthvað nefndi ég þetta vandamál við eina vinkonu mína og hún, eins og endranær, hafði lausn á reiðum höndum. Bara segja honum að vekja okkur þegar hann komi heim! Þetta ráð hafði vinkona hennar notað með góðum árangri - hins vegar fannst henni frekar fyndið að þegar dóttirin kom um miðjar nætur og bauð góða nótt þá gerði hún það alltaf á innsoginu....

laugardagur, 1. janúar 2005

2005

Mér finnst alltaf svo skrýtið fyrstu daga nýs árs að skrifa nýja ártalið - svo það er eins gott að byrja bara strax að æfa sig.

Áttum virkilega notalegt gamlárskvöld í gær. Grillaðar nautasteikur bóndans brögðuðust afbragðsvel og eftir matinn sátum við fjölskyldan og spiluðum Gettu betur. Fórum síðan með eftirréttinn yfir til vinahjóna okkar hér í götunni, þeirra Sunnu og Kidda og hjá þeim var drukkið kaffi, horft á skaupið og skotið upp flugeldum. Ljúft!

Brjálaða veðrið sem búið var að spá kom ekki fyrr um miðja nótt og þá vorum við (gömlu hjónin) komin upp í rúm.

Lítur út fyrir letidag í dag, við erum nú samt búin að fara út í stuttan göngutúr þannig að við getum slappað af með góðri samvisku. Ég var líka svo dugleg í gær...