mánudagur, 17. mars 2014

Næturbrölt og ljósmyndarölt

Ég fékk fregnir af því í morgun að mamma hefði dottið út úr rúminu sínu í nótt, á þá hliðina sem brotin er. Það var búið að taka röntgenmyndir af henni en ekki komin niðurstaða úr þeim þegar Dísa tengdadóttir Ásgríms hringdi í mig. Því það var hún sem hringdi, ekki sjúkrahúsið. Þá hafði enginn aðstandandi verið skráður hjá mömmu, þrátt fyrir að ég hafi nefnt það við a.m.k. þrjá hjúkrunarfræðinga, og síðast daginn sem ég fór norður, hvort það væri ekki alveg öruggt að nafnið mitt og símanúmer væri skráð hjá þeim. Jú jú, alltaf tóku þær niður nafnið og lofuðu að athuga hvort það væri ekki örugglega komið inn í tölvukerfið, en það hafði aldrei verið gert.  
Ég er afskaplega þakklát fyrir það að Dísa og Kristinn eru í Keflavík og ég veit að Dísa hefur litið daglega til mömmu, en það breytir því ekki að ég er nánasti ættingi hér á landi, og mér finnst það hálfgert skeytingarleysi í mömmu garð að geta ekki komið þessum upplýsingum inn í tölvukerfið. Þannig að tilfinningarnar hlupu aðeins með mig í gönur í morgun. Áhyggjur af mömmu og hvort hún þyrfti ef til vill að fara í aðra aðgerð? Hvort ég ætti að drífa mig suður í hvelli? Og svo framvegis ... 
Eftir að hafa talað við Dísu og síðan við hjúkrunarfræðing á legu-deildinni og fengið nánari upplýsingar, þá fann ég hvernig streitan ætlaði alveg að éta mig, enda þoli ég afskaplega lítið áreiti þegar ég er í gigtarkasti. Í kjölfarið ákvað ég að koma mér út í sólskinið. Ég tók myndavélina með mér og vonaði að útiveran myndi ná að róa mig aðeins niður. Sem varð raunin. Að minnsta kosti svona rétt á meðan ég var úti. Ég var bara samt svo lúin, að ég treysti mér ekki til að ganga nema rétt uppá túnið sem er milli Hamragerðis og Dalsbrautar. Hins vegar er myndefni yfirleitt að finna hvar sem er, bara ef maður hefur augun opin.
Það var gott að fara út, en þrátt fyrir það náði ég ekki að slakað almennilega á fyrr en ég fékk loks fréttir af því (um tvöleytið) að það væri í lagi með mömmu. Röntgenmyndirnar sýndu ekkert óeðlilegt sem betur fer. Úff, mikið sem mér var létt. En ég var samt svo þreytt eftir allar þessar tilfinningar og streitu, að það er fyrst núna (klukkan rúmlega hálf fimm) sem ég er að ná mér. 
 
Eins og sést kannski óbeint á þessum myndum, þá skein sólin hér í dag. Hún hefur verið sjaldséður gestur í vetur og fólk almennt orðið afskaplega þreytt á þessari endalausu snjókomu sem verið hefur. Vonandi fer nú bráðum að vora meira í lofti.

4 ummæli:

Fríða sagði...

Æ hvað það var gott að ekki fór verr með mömmu þína. En þetta er nú bara ekki hægt, að skrá ekki svona niður. Mér skilst að stór hluti eldri sjúklinga hafi engan skráðan nánasta aðstandanda. En það er samt vonandi ekki orðið reglan og þá undantekningin af hafa nánasta aðstandanda.
Merkilegt með birkibörk hvað hann er eitthvað fallegur á þessum árstíma. Kannski maður taki ekki eftir honum á öðrum árstímum?

Guðný Pálína Sæmundsdóttir sagði...

Æjá, mér var mikið létt, fannst þetta svo sannarlega nóg í bili. Nú er bara að horfa fram á við og vera bjartsýn á bata hjá henni. En varðandi þetta með að eldri sjúklingar hafi margir engan nánasta aðstandanda skráðan, það finnst mér hræðilegt.

Elín Kjartansdóttir sagði...

Ég er svo aldeilis gáttuð og bit, hélt að það væri regla að allir gæfu upp aðstandanda við innlagnir, að minnsta kosti þegar um er að ræða aðgerðir. Þyrfti ekkert að vera að ýta á eftir slíku?!?
Ég þykist hafa lesið það út úr bloggfærslum mömmu þinnar að hún leggi ekki endilega áherslu á langt líf en ég vil að allir fái að eiga gott líf. Vonandi gengur allt vel.

Guðný Pálína Sæmundsdóttir sagði...

Nei Ella, ég var líka alveg bit þegar ég áttaði mig á því að þrátt fyrir allar mínar tilraunir, þá hafði ekki tekist að skrá hjá henni aðstandanda. En já þetta er vonandi allt á réttri leið núna.