mánudagur, 10. mars 2014

Að komast á klósettið og í ísskápinn

 er skilyrðið fyrir því að vera útskrifaður af sjúkrahúsi eftir mjaðmarbrot og neglingu. Þá vitum við það... Mamma hefur verið með frekar mikla verki um helgina þrátt fyrir verkjalyfjagjöf. Hún er nú heldur ekki sú duglegasta að láta í sér heyra ef henni líður illa. Í dag var svo ákveðið að auka við hana verkjalyfin því það að líða sæmilega er forsenda þess að sjúkraþjálfunin gangi eins vel og hægt er.

Annars fór ég extra snemma á sjúkrahúsið í morgun til að reyna að hitta á lækni og fá einhverjar upplýsingar um það hvernig framhaldið yrði. Staðan er þannig að um leið og sjúkraþjálfari metur hana færa um að fara heim, þá fer hún heim. Það er erfitt að segja hvenær það verður, en mér var sagt að í Reykjavík er fólk sem farið hefur í svipaða aðgerð sent heim eftir ca. 5-6 daga. Þá sagði ég að hún yrði nú að geta komist á klósettið - og var tjáð að klósettið og ísskápurinn væri það sem fólk þyrfti að geta komist í - og þegar það væri fært um það, væri það útskrifað. Þá hélt ég nú kannski að fólk fengi sjúkraþjálfun heima, en nei það er engin frekari sjúkraþjálfun. Athafnir daglegs lífs eiga að sjá fólki fyrir þeirri þjálfun sem það þarf. Ég vona samt að hún fái að vera þarna a.m.k. fram yfir næstu helgi. Ætla að reyna að ná sambandi við sjúkraþjálfarann fljótlega og heyra hvað hún/hann segir.

Hvað sjálfa mig varðar þá ætla ég að skreppa heim og heilsa uppá eiginmann, son og kött. Ég er búin að bóka flug norður á morgun, en fer þá bara aftur suður þegar mamma á að fara heim af sjúkrahúsinu. Svo verðum við bara að spila þetta eftir því hvernig ástandið á henni verður. Anna systir gæti jafnvel líka komið og verið eitthvað hjá mömmu ef þarf, en vonandi mun bara ganga vel hjá henni að ná sæmilegri hreyfifærni á ný.P.S. Maður rekst á ýmsa gamalkunnuga hluti hér í íbúðinni hennar mömmu og eitt af því er þessi púði sem sjá má hér að ofan. Mér finnst endilega að ég hafi saumað þennan púða þegar ég var krakki/unglingur en kannski ekki klárað og mamma tekið við. Hins vegar treysti ég minninu á mér ekki meira en svo, að það getur vel verið að Anna systir hafi saumað púðann ... hehe ;-) Anna, hvað heldur þú? (Mamma staðfesti að ég hefði saumað þennan ...) 

P.P.S. Að vissu leyti er gott að vera hætt að vinna núna þegar svona aðstæður koma upp. "Heildarpakkinn" verður ekki alveg jafn stressandi.

2 ummæli:

HH sagði...

-- og sturta niður!
HH

Guðný Pálína Sæmundsdóttir sagði...

Nei, það er aukaatriði ;-)