þriðjudagur, 25. mars 2014

Hvað keyptirðu fyrir peningana

sem frúin í Hamborg gaf þér í gær? 
Þessi orðaleikur var mjög vinsæll þegar ég var lítil. Sá sem spyr reynir að leiða þann sem svarar í ógöngur, þ.e.a.s fá hann til að segja bannorðin "svart, hvítt, já, nei". Ég var oft býsna ánægð með mig að hafa náð að svara nokkrum spurningum án þess að falla í gildruna, þegar sigurvissan varð til þess að í næstu andrá notaði ég óvart eitthvað af bannorðunum í svari mínu, og var þar með dottin úr leik.
Þetta var skemmtilegur leikur og hann rifjaðist upp fyrir mér núna áðan þegar ég velti eftirfarandi spurningu fyrir mér:  
Hvað gæti ég gert ef ég væri frísk og full af orku? 
Ég gæti:
 • Gert áætlanir um framtíðina
 • Verið í vinnu og einnig átt mér líf utan vinnu
 • Verið í góðu líkamlegu formi
 • Synt lengri vegalengdir og notað froskalappirnar
 • Hjálpað meira til á heimilinu
 • Farið í langar gönguferðir 
 • Unnið í garðinum á sumrin
 • Boðið heim,  t.d. vinkonum mínum og kvennaklúbbnum mínum / ljósmyndaklúbbnum
 • Haldið frænkuboð (hef aldrei gert það en held það gæti verið gaman)
 • Þrifið húsið án þess að hafa áhyggjur af afleiðingunum

Við Valur gætum:
 • Farið í fleiri ferðalög, innanlands sem utan
 • Boðið fólki heim án þess að hafa áhyggjur af því hvort ég verði „uppistandandi“ þegar að heimboðinu kemur
 • Farið oftar í leikhús, bíó, á tónleika
 • Tekið húsið í gegn (mála o.s.frv.)
 • Farið í fleiri ljósmyndaferðir
 • Farið á skíði saman
OK þetta er bara smá sýnishorn, hlutir sem komu upp í hugann svona einn-tveir-og-þrír. En já það sakar ekki að láta sig dreyma :) 
Annars má kannski færa rök fyrir því að sumt af þessu gæti ég gert, þrátt fyrir að vera ekki eins frísk og full af orku eins og mig dreymir um að vera. Svo sem að bjóða fólki heim. Það er að minnsta kosti auðveldara í dag (þegar ég er ekki í vinnu) því þá get ég hvílt mig fyrir og eftir heimboðið. 
Stóra vandamálið er samt að sökum þess hve síðustu 5 ár hafa verið erfið hjá mér, þá er komin svo mikil þreyta í okkur bæði tvö, að erfitt er að hafa sig af stað og framkvæma hluti sem eru framkvæmanlegir þrátt fyrir ástandið á frúnni. 
Kannski er þetta bara spurning um að byrja smátt, setja sér t.d. markmið um eitt heimboð á ca. 8 vikna fresti. Svona til að komast upp úr startholunum ...  
P.S. Þetta var bloggfærsla nr. 1600 - sko mig :) 

2 ummæli:

Fríða sagði...

En varstu að leika þér að klessulitum? :)

Guðný Pálína Sæmundsdóttir sagði...

Hehe já - það var voða gaman :)