fimmtudagur, 20. mars 2014

Fröken flækjufóturÉg á það til að flækja ótrúlegustu hluti fyrir mér. Taka eitthvað sem er tiltölulega einfalt og búa til þvílíkan risaflóka í kollinum á mér að hann yfirskyggir allt annað. 
Akkúrat núna er það væntaleg ferð suður sem er að flækjast svona fyrir mér. Við Valur höfðum hugsað okkur að keyra suður eftir vinnu hjá honum í dag. Sem er í sjálfu sér gott og blessað. Nema hvað Öxnadalsheiðin er ófær í augnablikinu (sem þarf ekki að þýða að hún verði ófær síðar í dag), og það er grámi, hríðarmugga og skafrenningur úti (ekkert sérlega spennandi ferðaveður). 
Þar fyrir utan er ég haldin þvílíku verkstoli að það er ekki séns að ég geti farið að pakka ofan í tösku. Sem er „vandamál“ nr. 2. Ég veit ekki hvað ég á að taka með mér af dóti. Því ef mamma ætti kannski bráðum að fara heim af sjúkrahúsinu, segjum t.d. á fimmtudegi (sem ég veit ekkert um), þá tekur það því ekki fyrir mig að fara norður á sunnudegi, eða hvað? Og það segir sig eiginlega sjálft að ég þarf að pakka aðeins öðruvísi fyrir (hugsanlega) 2ja vikna fjarveru í stað 3ja daga ferðalags. 
Líklega hjálpar ekki að hafa verið eins og drusla undanfarið. Því þrátt fyrir fögur fyrirheit um að reyna að láta þetta ekki hafa áhrif á andlegu hliðina hjá mér, þá gerist það óhjákvæmilega. Sjálfs-efasemdir laumast inn í kollinn á mér. Mér fer að finnast ég svo mikill lúser eitthvað, að geta ekki haft stjórn á þessu ástandi. En aftur á móti, ef fólk almennt gæti nú haft stjórn á veikindum sínum þá væru víst fáir veikir, eða hvað? Kvíði lætur líka á sér kræla. Ég óttast að geta ekki staðið undir því sem ég þarf að gera s.s. í þetta skiptið að fara suður. Áður fyrr tengdist kvíðinn vinnunni, mér fannst svo erfitt að hugsa til þess að mæta í vinnuna þegar ég stóð varla undir sjálfri mér. 
En í raun held ég að það séu ekki einstök verkefni sem slík sem eru kvíðavaldandi, heldur meira að þegar ég er í þessu ástandi þá líður mér eins og ég sé almennt ekki að höndla þau verkefni sem lífið býður mér uppá. Þetta gildir sérstaklega á tímabilum eins og núna, þegar líkaminn er svona á sínu eigin róli - sem samræmist ekki þeim hugmyndum sem ég geri mér um það hvernig minn líkami ÆTTI að hegða sér. 
Samt veit ég að hann er að gera sitt besta og ég ætti að vera þakklát fyrir að hafa þó þá heilsu sem ég hef. Plús (og þetta er mikilvægt en gleymist stundum í hita leiksins) þetta er tímabundið ástand! Klassískt „eftir-jólatörnina í vinnunni-ástand“. Þegar við bættist svo andlát Ásgríms, útsölutörn og endalok Potta og prika, þá er alls ekkert skrýtið við það að ég skuli vera þreytt. Ég mun hressast aftur, má ekki gleyma því!!!

4 ummæli:

Kristín Björk sagði...

Ég kannast við þetta! verkefni geta hlaðið utan á sig í kollinum á mér :) ég hef verið að lesa pistlana þína þar sem þú talar um vefjagigtina og síþreytuna, mér finnst nefninlega svo oft að þú sért að lýsa minni líðan. Takk enn og aftur fyrir að leyfa okkur hinum að njóta pistlanna þinna og góða ferð :)

Guðný Pálína Sæmundsdóttir sagði...

Æ hvað er gott að heyra að þetta er svona hjá fleirum :) Það er oft þannig að manni finnst maður vera eina manneskjan á jörðinni með eitthvað vandamál, en auðvitað er það ekki svo. Og takk kærlega fyrir að lesa pistlana mína og kommentera hjá mér :)

Elín Kjartansdóttir sagði...

Mitt verkstol kemur iðulega án áþreifanlegrar ástæðu en stundum er þó kvíði orsökin og þá einna helst vegna minna nánustu þannig að heilsa mömmu þinar ein og sér finnst mér kappnóg ástæða þó að þú værir fullfrísk sjálf. Þið veljið þokkalegt ferðaveður þykir mér! Komust þið? Bestu kveðjur.
(Var að blogga!)

Guðný Pálína Sæmundsdóttir sagði...

Nei við komumst hvorki lönd né strönd. Hefðum komist með flugi en það var ekki ætlunin í þetta sinn, enda skelfilega dýrt þegar pantað er með svona skömmum fyrirvara. En já það var hálf fúlt að sitja svo bara heima þegar búið var að skipuleggja annað. Leiðinlegt að ná ekki að hitta mömmu.