söng Bubbi hér um árið. Heiti þessa lags kom upp í huga mér þegar ég settist niður til að blogga, enda var Öxnadalsheiðin ófær frá miðvikudagskvöldi fram á seinni part laugardags og þar af leiðandi komumst við Valur ekki suður um helgina að heimsækja mömmu. Þetta voru okkur mikil vonbrigði og erfitt eiginlega, því það er ótrúlega taugatrekkjandi að bíða í óvissu varðandi það hvort maður kemst á áfangastað eða ekki.
Sunnudagur 23. mars
Núverandi gigtarkast hjá mér hefur staðið í tvær vikur og þrátt fyrir að hafa vaknað örlítið hressari í morgun, þá var það bara í smá tíma og ég er aftur orðin eins og drusla. Það flækir málið töluvert að vera svona slöpp, en mér finnst endilega að ég verði að heimsækja mömmu eitthvað meira áður en hún kemur heim af sjúkrahúsinu. Bara verst að enginn veit hvenær það verður. Sjúkraþjálfarinn hennar talaði um hugsanlega í kringum næstu helgi, ef allt gengi vel. Ef það væri raunin þá gæti ég kannski bara farið suður á ca. miðvikudag og verið áfram, en ef ekki ... og hún á að vera lengur á sjúkrahúsinu þá gæti ég farið heim aftur í einhverja stund þar til hún útskrifast. Málið er bara að mér sýnist þetta ganga frekar hægt og hef það á tilfinningunni að þetta sé dæmigert „eitt skref áfram og tvö afturábak“ ferli. En já það þýðir víst ekkert að spekúlera í þessu, hlutirnir verða bara að hafa sinn gang. Það er bara þetta að mér finnst svo erfitt að vera þetta langt í burtu frá henni, og þó ég (og við systur báðar) hringi í hana á hverjum degi þá upplifi ég það samt eins og maður sé einhvern veginn ekki að gera nóg.
Á sama tíma er ég algjörlega að missa þolinmæðina gagnvart ástandinu á sjálfri mér og er orðin alveg hreint skelfilega þreytt á þessu. Arg! Alls konar einkenni (fyrir utan verki og yfirgengilega þreytu) stinga upp kollinum og pirra mig, s.s. bólgnir eitlar, þrútnar æðar á gagnaugum, flökurleiki og viðkvæmni, bara svona til að nefna eitthvað ...
Mánudagur 24. mars
Þessi bloggfærsla ætlar að vera lengi í fæðingu ... Byrjaði upphaflega að skrifa á föstudaginn en eyddi því út. Byrjaði uppá nýtt á laugardag og hélt áfram í gær en kláraði ekki heldur þá. Og það er náttúrulega ekki hægt að enda bloggfærslur bara „í lausu lofti“ þó það væri kannski í takt við upplifun mína þessa dagana, því mér finnst ég svo mikið í lausu lofti einhvern veginn.
En já á laugardag gekk ég smá hring í hverfinu, í gær var það bara sófinn, og Valur lýsti því yfir að hann væri eiginlega bara feginn að hafa ekki farið að drusla mér milli landshluta, því ég kæmist nú varla milli herbergja. Hm, jæja þetta var kannski ekki orðrétt svona, en nálægt því. Í ofanálag var andlega hliðin eiginlega alveg á leiðinni út í sjó, svo ekki var ástandið gáfulegt. Seint í gærkvöldi fór mér nú samt að líða aðeins betur og þegar ég vaknaði í morgun ákvað ég að nú skyldi ég taka við stjórnartaumunum og hætta að leyfa þessari vefjagigt að stjórna. Svo ég hringdi í vinkonu mína, skrapp í morgunkaffi til hennar og við fórum meira að segja út að ganga saman. Sem var bara akkúrat það sem ég þurfti.
Núna áðan hringdi ég svo í mömmu og hún var þá bara býsna hress. Sagði að læknirinn hefði nefnt að nú færu þau bráðum að stefna að útskrift. Engin dagsetning var þó nefnd, þannig að ég hringdi í hjúkrunarfræðinginn á vakt og spurði nánar út í þetta. Hún sagði að mamma væri að hressast svo mikið núna. Kæmist sjálf á klósettið í göngugrindinni og væri öll að koma til. Varðandi útskriftina þá gat hún ekki sagt mér neitt nákvæmt, en nefndi hugsanlega 5-7 daga ef allt gengi vel. Ég bað um að mér yrði leyft að fylgjast með og sagði þeim að ég hyggðist koma og vera hjá mömmu fyrst eftir að hún útskrifaðist. Vonandi verður það nú samt ekki til þess að þau senda hana fyrr heim ...
En já já þetta kemur bara allt í ljós!
Engin ummæli:
Skrifa ummæli