Hér er heitt! Þessi orð féllu þegar ég kom inn í gufubaðið í sundlauginni í Keflavík í morgun. Fyrir voru tveir eldri karlmenn og annar þeirra mælti þessi snilldarorð. Málið var bara að það var alls ekkert heitt í gufunni og ég stóðst ekki mátið að segja honum það. Svo þegar ég sá hvað hann varð vonsvikinn með þessi viðbrögð mín þá fékk ég dúndrandi samviskubit. En já það er misjafn smekkur manna og ef maður er á annað borð að fara í gufu þá vil ég helst hafa hana dálítið vel heita. Sama með heita potta, ég vel yfirleitt alltaf að fara í heitasta heita pottinn ef hann er að finna.
Annars hefur þetta verið rólegheitadagur. Eftir sundið fór ég heim í hús og borðaði morgunmat en síðan fór ég til mömmu. Þá var hún nýkomin úr baði og var mjög eftir sig. Þannig að það er töluverður dagamunur á henni, eins og kannski við er að búast. Svo eftir hádegismatinn kom sjúkraþjálfarinn og lét hana ganga og það gekk nú bara nokkuð vel. Hún er með háa göngugrind og getur látið efri hluta líkamans hvíla ofan á örmunum á göngugrindinni. Þetta voru nú svo sem ekki mörg skref sem hún tók, að rúmendanum og til baka, en hún var að minnsta kosti ekki slæm af verkjum á meðan svo það var nú gott.
Ég stoppaði hjá henni til að verða hálf tvö en fór þá aftur heim í hús til að fá mér að borða og pakka niður í tösku. Ætlaði að taka rútuna til Reykjavíkur kl. 14:45. Þá fékk ég skilaboð frá flugfélaginu sem hljóðuðu á þá leið að sökum samverkandi þátta væri búið að fella flugið mitt kl. 17:30 niður og ég var beðin um að bóka aftur. Fyrst varð ég nú frekar fúl því ég óttaðist að þá kæmist ég kannski ekki norður í dag, en ástandið var ekki verra en svo að ég gat fengið flug klukkutíma seinna.
Ég notaði þennan aukatíma sem ég fékk í að setja rúmfötin hennar í þvottavél og rykmoppa gólfin aftur og snurfusa eldhúsið, en í gær skúraði ég gólfin og þreif klósettið. Það ætti því allt að vera hreint og fínt þegar mamma kemur heim af sjúkrahúsinu. Já svo hringdi Anna systir líka. Hún er í Þrándheimi á ráðstefnu og var í smá pásu. Henni finnst erfitt að vera svona langt í burtu þegar ástandið er svona með mömmu, og ég skil hana vel, en svona er þetta þegar fólk er búsett hvert í sínu landinu. Anna sagðist hafa séð í fréttum að danskar ferðaskrifstofur væru byrjaðar að flytja ferðafólk heim frá Sjarm-El-Sheikh í Egyptalandi, sökum aukinnar ókyrrðar í landinu, en í örstuttum samskiptum sem ég átti við Hrefnu fyrr um daginn minntist hún ekki á neitt slíkt. Já Hrefna og Egil eru sem sagt stödd í fríi í Egyptalandi og ættu í raun að vera fram á næsta sunnudag
Andri og Freyja komu svo og keyrðu mig inn á Reykjavíkurflugvöll, þar sem ég sit núna og blogga. Það verður gott að komast aðeins heim. Ég svaf bara tvær nætur heima eftir síðustu Reykjavíkurferð okkar Vals og þar til ég fór suður af því mamma brotnaði. Valur segir að Birta (kisa) sé búin að vera í hálfgerðu þunglyndiskasti síðustu daga. Hún lítur náttúrulega á mig sem "mömmu" sína og saknar þess ábyggilega að geta ekki kúrt með mér í sófanum. Hehe mig grunar nú sterklega að ég eigi eftir að leggjast í sófann á morgun, svona miðað við hvað ég er þreytt og lúin í skrokknum núna ;-) Svo er bara að vona að mamma hressist fljótt og fái að vera á sjúkrahúsinu þar til hún er orðin nokkuð fær um að bjarga sér sjálf.
P.S. Myndin sem fylgir tengist efni bloggfærslunnar alls ekki neitt - en ég tók hana um daginn þegar við Valur vorum í Reykjavík. Hafði hugsað hana sem mynd dagsins á blippinu en notaði mynd af Val, Andra og Freyju í staðinn.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli