Örlitlar breytingar á blogginu
Ég hef verið í gigtarkasti undanfarið og þá gerist ýmislegt. Tja, eða akkúrat öfugt, það gerist auðvitað fátt, sökum þess hve geta mín til flestra hluta verður takmörkuð. Ég reyni að vera þolinmóð (gengur ekki vel), reyni að hvíla mig í stað þess að tjúnna mig upp með sykri og kaffi, reyni að falla ekki í sjálfsvorkunnarpyttinn ...
Eins og ég hef sagt áður þá er gigtarkast ekki ósvipað flensu, nema ég er laus við horið og hálsbólguna. Sem er gott! En það segir sig þá kannski sjálft að sund, útivera og samvera við fólk er ekki ofarlega á framkvæmdalistanum þegar þannig er ástatt fyrir manni.
Mér fer óhjákvæmilega að leiðast og þá verður bloggið fyrir barðinu á mér. Ég reyni að vísu að sleppa því að blogga meðan ástandið er sem verst, en þá fer ég að hamast í útlitinu á bloggsíðunni í staðinn. Í þetta skiptið gerði ég reyndar engar stórkostlegar breytingar. Eftir að skoða nokkrar bloggsíður sem aðhyllist einfaldleika (James Clear, Leo Babuta) þá ákvað ég að draga úr áreiti á síðunni minni. Sleppa tenglum á aðrar vefsíður og hafa bara eina bloggfærslu sýnilega hverju sinni. Þeir sem hafa áhuga geta alltaf skoðað eldri færslur, sem eru aðgengilegar hér til hægri, eða kíkt á "You might also like" dálkinn fyrir neðan hverja færslu. Og nei, mér hefur ekki tekist að fá þann texta til að birtast á íslensku ...
Ég hef verið að velta því fyrir mér undanfarið hvernig ég gæti hugsanlega unnið við að skrifa - og allar hugmyndir eru vel þegnar ;) Mér datt reyndar í hug að kannski væri ekki vitlaust að byrja á því að þýða erlenda bók s.s. þessa hér: Chronic Resilience (10 sanity-saving strategies for woman coping with the stress of illness) eftir Danea Horn. Ég pantaði þessa bók fyrir nokkru síðan og finnst hún algjör snilld. En já þar sem ég hef einungis þýtt eina bók áður þá veit ég ekki alveg hvernig ég ætti að bera mig að varðandi það að fá þýðingarréttinn og útgefanda hér á landi. Geri mér nú samt alveg grein fyrir því að það er ekki óleysanlegt verkefni að finna út úr því ;)
Fyrir utan alls kyns vangaveltur þá er næst á dagskrá að fara suður þegar mamma á að útskrifast af sjúkrahúsinu. Batinn kemur að vísu fremur hægt hjá henni enn sem komið er, en vonandi fer þetta allt að koma. Við Valur höfðum hugsað okkur að keyra suður á fimmtudag/föstudag en það er a) spurning hvernig heilsufarið verður á mér og b) spurning hve langt á leið mamma verður komin í bataferlinu þá. Við sjáum til þegar nær dregur. Ég ætla að hringja í sjúkraþjálfarann hennar á morgun og heyra betur hjá henni hvernig staðan er.
P.S. Þetta er líklega fremur ruglingslegt hjá mér varðandi mömmu. Ég hef ekki hugmynd um það hvenær hún á að útskrifast, en óháð því þá erum við að spá í suðurferð til að heilsa uppá hana.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli