Þar sem við systkinin og mamma erum nánast aldrei samankomin, var tækifærið gripið og tekin mynd af okkur. Þessi er reyndar bara úr símanum mínum og gæðin ekkert sérstök eins og sjá má.
Það var mjög gaman að vera við sjálfa athöfnina. Fyrst talaði deildarforseti Læknadeildar og svo var boðið uppá veitingar. Síðar um daginn voru Hrefna og Borgný vinkona hennar með sameiginlega veislu. Hér má sjá Nönnu systur Egils, May mömmu hans, Hrefnu og mig.
Daginn eftir var ég orðin veik, þannig að ég var nú aldeilis fegin að hafa náð útskriftinni. Þann dag lá ég í rúminu heima á hóteli alveg fram undir kvöldmat. Við höfðum ætlað að fara út að borða á fínan veitingastað með Hrefnu, Egil, Einari pabba Hrefnu og mömmu og systur Egils, en þau áfrom urðu að engu. Í staðinn eldaði Hrefna dýrindis súpu heima og við fórum þangað í mat.
Á sunnudeginum var ég sem betur fer aðeins hressari og við notuðum þann dag í að skoða Luisiana safnið í Humlebæk. Já eða hluta úr safninu ... þetta er svo stórt safn og ég ennþá frekar slöpp, svo við skoðuðum bara lítinn part af því sem í boði var. Safnið stendur við ströndina og þetta var útsýnið þaðan. Það var ansi kalt eins og sjá má.
Um kvöldið fórum við svo á ítalskan veitingastað sem er staðsettur ca. miðja vegu milli hótelsins sem við gistum á og heimilis Hrefnu. Það var mjög fínt.
Á mánudeginum fórum við í smá búðarráp en versluðum nánast ekki neitt. Ég keypti mér eina peysu og Valur keypti nokkrar hljómplötur. Um kvöldið eldaði svo Hrefna og Egill og mamma Egils kom líka í mat. Þarna má sjá Egil standa álútan yfir eldamennskunni (í neðsta uppljómaða glugganum). Þau búa enn á stúdentagarði en stefna að því að kaupa sér íbúð í sumar.
Á þriðjudagsmorgni var svo komið að brottför. Tíminn líður alltaf svo hratt þegar verið er að heimsækja ættingja sem búa erlendis, mér finnst ég vera nýkomin þegar kominn er tími til að fara aftur.
Heimferðin gekk vel, fyrir utan það að ég fékk svona svakalega verki í hljóðhimnurnar þegar vélin fór að lækka flugið. Hef aldrei lent í þessu áður og líklega hefur þetta bara verið af því ég var veik. En vá hvað það var vont. Andri tók óvænt á móti okkur á Keflavíkurflugvelli, sem var ágætt því hann plataði Freyju kærustuna sína til að skutla okkur inn til Reykjavíkur og þá sluppum við við að bíða eftir flugrútunni.
Við náðum því að heimsækja foreldra Vals í góða stund áður en flogið var norður. Það var mjög ánægjulegt. Það er erfitt að vera alltaf svona langt í burtu frá foreldrunum sem farin eru að reskjast, og geta ekki hjálpað til með praktíska hluti, né kíkt inn í kaffi og smá spjall.
Ferðin norður gekk vel og Ísak sótti okkur á flugvöllinn. Ég get ekki lýst því hvað það var gott að leggjast í sitt eigið rúm um kvöldið, því rúmið á Hótel Österport var held ég það versta sem við höfum gist í ... En slíkir hlutir gleymst fljótt :-)
P.S. Valur tók langflestar myndirnar, bara svo það sé nú á hreinu ;-)
2 ummæli:
Skemmtilegt ferðablogg og líka gaman að sjá nýlegar myndir af ykkur með foreldrum ykka, ekki frá því að það sé svipur ;). Þetta er rétt hjá þér með eyrnaverkinn, þetta stafar af nefstíflunni -> erfiðara að þrýstijafna þegar hausinn er allur stíflaður. :)
Takk Andri minn fyrir að lesa bloggið hjá mömmu gömlu og takk fyrir að koma okkur svona skemmtilega á óvart þarna um daginn. Miðinn var algjör snilld :-)
Skrifa ummæli