laugardagur, 15. febrúar 2014

Gamla alveg búin á því


Já allt í einu er ég dottin í allsherjar þreytu „breakdown“ með tilheyrandi óskemmtilegum einkennum. Hraður hjartsláttur, svimi, þrekleysi, sljóleiki yfir höfðinu, óþol fyrir hávaða, verkir í skrokknum ... allur pakkinn bara. Ég fann strax í morgun að ég var eitthvað skrítin en reyndi að leiða það hjá mér. Fór meira að segja í sund um hádegisbilið þó Valur reyndi að segja mér að líklega væri skynsamlegast fyrir mig að vera heima. Svona upplifði ég sundferðina...
Þegar ég kem í bílinn ætlar hávaðinn að æra mig. Miðstöðin er á fullu og kveikt á útvarpinu. Ég skrúfa niður í miðstöðinni og slekk alveg á útvarpinu. Bakka út úr stæðinu og ek áleiðis niður í sundlaug. Þarf að passa mig sérlega vel, því það er eins og öll rýmisskynjun brenglist þegar ég er svona. Hvað er langt í næsta bíl? Kemst slysalaust niður eftir og alla leið ofan í laugina. Byrja að synda. Er að gefast upp eftir fjórar ferðir. Líkaminn lætur ekki nógu vel að stjórn, vöðvarnir kannski að vinna á 10-20% afköstum, hraður hjartsláttur, mæði. Kannski ég ætti að fara bara uppúr? Nei það hlýtur að gera mér gott að synda... Reyni að beita núvitund. Horfi á hendurnar taka hvert sundtakið á fætur öðru, einbeiti mér að því að upplifa hvernig hendurnar kljúfa vatnið. Tel sundtökin milli bakkanna. Stoppa. Finn hvað ég er móð. Bara tvær ferðir enn. Já og svo aðrar tvær. Hætti eftir tíu ferðir. Fer í gufu. Dauðfegin að geta sest á bekk og hvílt mig. Loka augunum. Finn hvernig hjartað hamast í brjósti mér eins og eftir meiriháttar áreynslu. Hitti konu sem ég þekki, reyni að halda uppi eðlilegum samræðum en líður eins og ég hafi komið undarlega fyrir. Fer í sturtu. Sé aðra konu sem ég veit að ég þekki en það tekur heilann minn býsna langan tíma að segja mér hvaða kona þetta er. Spjalla líka aðeins við hana. Líður eins og hugurinn svífi þarna einhvers staðar um þó líkaminn sé vissulega á sínum stað. Hafði ætlað að þvo mér um hárið en gleymi því alveg þar til ég sæki handklæðið mitt og sé sjampóið. Ekki séns ég nenni aftur í sturtuna. Í búningsklefanum er ærandi hávaði. Samt bara kona að nota hárþurrkuna. Og önnur á eftir henni. Ég get vel skilið að hávaði sé notaður sem pyntingatæki þegar mér líður svona. Verð að komast héðan út. Sleppi því að þurrka á mér hárið og mála mig. Dríf mig heim. Er algjörlega örmagna.
Þessi dagur kemur sem sagt til með að verða algjörlega ónýtur nema eitthvað kraftaverk eigi sér stað. Já já kannski hressist ég eitthvað þegar líður á daginn. En það er eiginlega pínu fyndið að ég er nýlega búin að hrósa mér af því bæði við Val, Önnu systur og Hrefnu að nú þoli ég hávaða miklu betur en ég gerði á tímabili. Og fæ það þá heldur betur í bakið. En miðað við hvað er búið að ganga á undanfarið, þá er auðvitað ekkert skrítið að eitthvað láti undan. Vonandi stendur þetta bara stutt yfir.

Annars ætluðum við í herbergjaflutninga í dag. Ísak er löngu byrjaður að sofa inni í gamla herberginu hans Andra en það á eftir að flytja afganginn af dótinu hans þangað inn. Já og tæma Andra dót úr herberginu. Aðalmálið er skrifborðið stóra sem Hrefna átti á sínum tíma og arfleiddi svo bróður sinn að. Það þarf að skrúfa það í sundur til að geta flutt það. Valur græjar það. En já það liggur svo sem ekkert á þessu.

P.S. Þessi fallega fjöður leyndist í lyngi í Loðmundarfirði  (hvað eru mörg "L" í því ;-)

Engin ummæli: