miðvikudagur, 19. febrúar 2014

Hugurinn út um víðan völl



Já það er fyndið hvaða brögðum hugurinn beitir til þess að sleppa því að horfast í augu við raunveruleikann. Þegar ákveðið upplausnarástand er í kollinum á mér finnst mér gott að reyna að koma röð og reglu á hlutina í kringum mig, s.s. að laga til í skápum og skúffum (við mikla hrifningu Vals). Það virkar sérlega vel og mér líður alltaf betur á eftir.

Hins vegar hef ég ekki haft orku í svoleiðis hamagang undanfarið og þá fer ég í þann gír að skanna alls konar síður á netinu, lesa mér til um ótrúlegustu hluti, og athyglin dreifist gjörsamlega út um allt. Eins og þetta sé ekki nóg, þá fer ég á bókasafnið og sæki mér bækur og tímarit sem ég gleypi í mig í einum grænum. Þetta er svo sem engin ný hegðun hjá mér. Þegar ég var yngri var netið ekki til og þá einskorðaðist veruleikaflóttinn við bækur, öfugt við núna.

Kosturinn er sá að ég hef uppgötvað alls konar skemmtilegar síður og sumt mjög fræðandi s.s. iTunes university. Mér finnst algjör snilld að geta legið heima í sófa og horft á fyrirlestra í sálfræði frá Stanford háskóla í Bandaríkjunum, svo dæmi sé nefnt. Önnur síða sem ég fann heitir 33voices.com  en þar er m.a. hægt að hlusta/horfa á viðtöl við alls konar fræðimenn um margs konar áhugaverða hluti.

Þessa dagana finnst mér samt afskaplega erfitt að einbeita mér að því að hlusta t.d. á heilan fyrirlestur í einu. Það er eins og ég nái ekki að halda athyglinni nógu lengi. Sem er í sjálfu sér allt í lagi, það þarf ekkert að hlusta á þetta í einni bunu, maður má alveg taka pásu ;-)

Hm núna áttaði ég mig reyndar á einni staðreynd - Mér finnst virkilega skemmtilegt að fræðast um hluti/viðfangsefni sem vekja áhuga minn.

En já það er einhver óróleiki í mér þessa dagana og innst inni veit ég að ég þarf að ná aðeins meiri rósemd í hugann. Verða svona lygn og friðsæl eins og sjórinn á myndinni hér að neðan ;-)


Engin ummæli: