fimmtudagur, 13. febrúar 2014

Og hvað svo?


„Hvað ætlarðu svo að fara að gera?“

Eftir að fólk er búið að jafna sig á fyrsta sjokkinu yfir því að við Sunna skulum vera hættar með Potta og prik, kemur þessi spurning næst. Stundum fylgir svo önnur spurning strax í kjölfarið:
  • Stofnið þið ekki bara nýja verslun inni í bæ? (Hm nei það stendur ekki til)
  • Ætlarðu að fara að vinna aftur á sjúkrahúsinu? (Yeah right, það eru bara 25 ár síðan ég var að vinna þar síðast... )
  • Ferðu ekki bara að taka myndir? (Jú einmitt það er svo mikil eftirspurn eftir ljósmyndum frá áhugaljósmyndurum... )
Annars ætti ég náttúrulega vera þakklát fyrir að fá hugmyndir - já já allar hugmyndir bara vel þegnar :-) En svona í alvöru talað þá veit ég ekki hvað ég á að taka mér fyrir hendur. Hins vegar þarf ég eiginlega að byrja á því að hvíla mig eftir síðustu vinnutarnir. Venjulega tekur það mig 6-8 mánuði að jafna mig eftir jólatörnina og nú bættist útsölutörnin við. 14 daga stanslaus vinna og þar að auki brjálað að gera. Ekki akkúrat „my cup of tea“. Enda er það svo að ég get varla sótt um venjulega launavinnu einhvers staðar, það væri þá að hámarki 50% vinna, í starfsumhverfi sem ég gæti ráðið við með góðu móti. 

Það er eiginlega fyrst núna að ég er að átta mig á því að ég er án atvinnu. Það hefur verið nóg að gera hjá okkur Sunnu að hnýta ýmsa lausa enda, og þar fyrir utan hef ég verið að vinna í bókhaldinu. Þeirri vinnu er raunar ekki alveg lokið enn. Stefni samt að því að klára þetta núna í vikunni - já þú meinar það er fimmtudagur í dag - hm ein ekki að fylgjast með dögunum. 

Það sem mér finnst skemmtilegt að gera ...... er að skrifa og taka myndir. Spurning hvort mér tekst að búa til einhvers konar starf úr því? Sennilega hámark bjartsýninnar. 

Ég hef reyndar næg verkefni hér heima við. Hef látið svo margt sitja á hakanum undanfarin ár þegar þreytan hefur verið allsráðandi. Spurning að gera lista bara ... 

Þarf að minnsta kosti að passa mig á því að detta ekki í þunglyndi yfir þessu öllu. Viðurkenni að það eru ýmsar tilfinningar að hrærast í mér þessa dagana og auðvitað er ótrúlega fúlt að hafa þurft að enda söguna um Potta og prik á þennan hátt. Mér fannst t.d. mjög erfitt að fara í búðina í allra síðasta sinn í gær, en þá sóttum við ljósmyndina mína sem var á veggnum í búðinni, og skiluðum lyklunum til húsvarðanna. Æjá, ég fór kannski ekki að vatna músum en varð hálf „sentimental“ eitthvað (svo ég sletti nú aðeins ensku).

Og nú læt ég þetta gott heita í bili - á ábyggilega eftir að þurfa útrás oft og mikið hér á blogginu í nánustu framtíð ;-)

2 ummæli:

Anna Sæmundsdottir sagði...

Guðný mín, mér líst vel á að þú búir til lista, og ekki gleyma að setja á þann lista alla sem þig langar að heimsækja ;-) En þú mátt og átt að fara þér hægt........... Heyrumst við ekki um helgina?

Guðný Pálína Sæmundsdóttir sagði...

Já Anna mín hvenær á ég að koma í heimsókn? ;-) Miðað við ástandið á mér í dag sýnist mér ferð á heilsuhæli vera næst á dagskrá ... En já já ég hressist. Endilega heyrumst í dag eða á morgun.