Í fyrradag (eða var það í gær?) fór ég á bókasafnið og sótti nýja áfyllingu af bókum og tímaritum. Tók nokkur Hús&Híbýli blöð, nokkur Alt for damerne, matreiðslubók með Yesmine Olsson og svo eina norska skáldsögu. Ég hafði aldrei heyrt um höfundinn áður en opnaði bókina af handahófi og sá strax að þetta var texti sem náði að grípa mig. Bókin heitir Monstermenneske og er eftir Kjersti Annesdatter Skomsvold. Ég hafði ekki lesið margar blaðsíður þegar ég áttaði mig á því að aðalsöguhetja bókarinnar væri líklega með það sem á íslensku kallast alltof einfölduðu nafni: síþreyta. Í stað þess að lesa áfram fór ég í tölvuna og gúgglaði nafn höfundarins og komst að því að þetta var hárrétt hjá mér. Þegar ég hélt svo áfram með bókina kom það fram tveimur blaðsíðum síðar. Hehe fröken Óþolinmóð lætur ekki að sér hæða ;-)
Mér finnst þetta virkilega góð bók og nýt þess að lesa hana. En á sama tíma er það erfitt. Því þegar ég hef verið sem verst af minni vefjagigt/síþreytu, þá þekki ég þessa tilfinningu of vel sem höfundurinn miðlar svo vel í bókinni. Vonleysið um að ástandið muni nokkurn tímann lagast. Kærastinn hennar hafði alltaf vonað að henni myndi batna og reyndi að vera sterkur fyrir þau bæði, en svo kom að því að hann missti vonina og hætti með henni. Gat þetta ekki lengur. Það er ábyggilega ekki auðveldara að vera aðstandandi heldur en sjúklingur í svona tilfellum. Báðir aðilar þjást á sinn hátt.
Góðu fréttirnar eru þær að mitt í allri þjáningunni þá fór Kjersti að dreyma um að verða rithöfundur. Að skrifa bók. Og smátt og smátt fór henni að líða betur, andlega og líkamlega. Ég er reyndar bara komin á blaðsíðu 175 af 580, svo ég hef nóg að lesa ennþá, sem betur fer. Er að reyna að gleypa þetta ekki í mig á sama hraða og ég les venjulega.
Annars er ég sem sagt ennþá aðallega í því að hvíla mig. Fór samt í sund í morgun, í fyrsta sinn síðan á laugardaginn síðasta þegar gigtarkastið var byrjað og sú sundferð var jú algjörlega ónýt. Gekk mun betur í morgun.
Og til að komast aðeins út úr kúlunni sem ég upplifði mig inni í, þá fór ég í Eymundsson í hádeginu, til að vera innan um annað fólk í smá stund. Mér leið samt eins og inni í kúlu þar niður frá. En akkúrat núna er ég búin að ná tengingu við sjálfa mig og umheiminn. Sjáið bara hvað það gerir manni gott að blogga ;-)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli