laugardagur, 22. febrúar 2014

Hvar er „kveikja“ takkinn?Hann er týndur, svo mikið er víst. Mér líður eins og það sé búið að slökkva ljósin hjá mér - en samt ekki. Einhver týra er þarna einhvers staðar. Málið er bara að ég er svo lúin, löt og pínu leið eitthvað. Og nei, það var ekki viljandi sem það komu þrjú lýsingarorð í röð sem byrja á bókstafnum L. Það var hins vegar viljandi að ég setti orðið „pínu“ inn á milli, bæði til að brjóta upp þessi þrjú L, en líka til að fólk færi ekki að halda að ég væri dottin í þunglyndiskast. Sem ég er ekki. Er bara flöt.

Kannski er ég of mikið að reyna að bæla niður neikvæðar tilfinningar í tengslum við allt sem er að gerast í lífi mínu þessa dagana. Ég las í bók eftir Brené Brown að það er ekki hægt að blokkera út einungis neikvæðar tilfinningar. Um leið og maður bælir niður tilfinningar sem maður vill ekki horfast í augu við, þá lokar maður á sama tíma á jákvæðu tilfinningarnar. Og missir getuna til að upplifa tilfinningar eins og gleði og ánægju. Kannski það sé ástæðan fyrir því að mér finnst ég vera svona flöt?

Þannig að ef ég reyni nú að horfast í augu við það sem er að angra mig, þá er það meðal annars þetta:
  • Það sem átti að verða mín leið til að skila loks einhverju framlagi til heimilisins (Pottar og prik) fór á allt annan veg. 
  • Ég var ekki að höndla að vera verslunareigandi með vefjagigt. Ég lenti í algjörri klemmu, gat ekki tekið það tillit til sjálfrar mín sem ég hefði þurft að gera af því við höfðum ekki efni á að ráða starfsfólk í staðinn fyrir mig. Þannig að mig langaði að losna úr þessari klemmu og nú þegar ég er laus úr henni þá er ég með samviskubit yfir því að hafa langað að losna. 
  • Núna þarf ég að finna mér nýjan starfsvettvang og það skelfir mig. Ekki séns að ég gæti farið í 100% „venjulega“ vinnu einhvers staðar en þá þarf ég líka að koma með einhverja aðra lausn.
  • Upp á síðkastið hugsaði ég sem svo að ef ég myndi hætta með Potta og prik þá skyldi ég fara að sinna skrifum (á einhvern hátt). En ég veit ekki hvernig ég á að fara að því að hafa skriftir sem launaða atvinnu. Fyrir utan þá staðreynd að mér er eiginlega lífsnauðsynlegt að eiga samskipti við fólk og ef ég sit bara ein heima að skrifa þá hitti ég ekki marga aðra.
OK bjartsýnin sem sagt alveg að drepa frúna ... eða þannig. Reyndar verð ég að viðurkenna að sjálfsævisögulega skáldsagan sem ég er að lesa hjálpar ekki til í þeim efnum. Það er að segja, höfundurinn hressist jú smám saman og lagast af síþreytunni, en hún er frekar melankólísk og ég lifi mig alltof mikið inn í söguna. Var einmitt að segja við Val í dag að ég verð eiginlega að drífa mig að klára þessa blessaða bók svo ég komist út úr þessu hugarástandi.

En svona til að enda þennan pistil á jákvæðari nótum þá er ég afskaplega þakklát fyrir það hvað við Sunna áttum gott samstarf. Okkur gekk mjög vel að vinna saman og ég minnist þess ekki að okkur hafi orðið sundurorða þau 7,5 ár sem samvinnan varði. Eins hafði ég mjög gaman af því að eiga samskipti við fólk í tengslum við vinnuna, viðskiptavini, birgja og aðra, og öðlaðist meiri færni í mannlegum samskiptum (vona ég, hehe). Og mér dytti áreiðanlega eitthvað fleira jákvætt í hug ef mér tækist að kveikja aðeins fleiri ljós inni í höfðinu á mér ;-)

En af því ég var að minnast á Brené Brown, þá er hér tengill á áhugaverðan fyrirlestur með henni á Ted.com.


5 ummæli:

Elín Kjartansdóttir sagði...

Ég þekki líka fólk sem sem var ánægt með að vinna hjá ykkur :)

Elín Kjartansdóttir sagði...

Ég þekki líka fólk sem var ánægt að vinna hjá ykkur :)

Elín Kjartansdóttir sagði...

Mér finnst þetta vont athugasemdakerfi.

Guðný Pálína Sæmundsdóttir sagði...

Ég lenti í veseni með gamla athugasemdakerfið, svo ég neyddist til að skipta. Það hrundi inn svo mikið af rusl-athugasemdum, sem ég þurfti endalaust að vera að eyða út. Ég sá að ein athugasemdin frá þér hafði birst í tvígang (og eyddi annarri), en gott væri að vita nákvæmlega hvað það er, sem er svona slæmt við þetta kerfi?

Guðný Pálína Sæmundsdóttir sagði...

Takk Elín mig grunar nú hvaða starfsfólk það er ;-)