sunnudagur, 10. febrúar 2013

Sukk og svínarí ... á bolludaginn ;)

Bolludagurinn er víst ekki fyrr en á morgun, en eins og sannir Íslendingar tókum við forskot á sæluna. Í fyrra held ég að ég hafi ekki borðað neinar bollur en í ár langaði mig að svindla aðeins á mataræðinu, sem ég og gerði. Þá var bara spurningin hvort ég ætti að svindla á þann hátt að ég myndi borða glúten, eða egg ... Þegar óþolsmælingin var gerð hjá mér hérna um árið, þá var ég með mun meira óþol fyrir eggjum, svo ég ákvað að velja skárri kostinn af tveimur vondum. Það er að segja, það var hægt að fá uppskrift að glútenlausum vatnsdeigsbollum með eggjum, eða uppskrift að eggjalausum speltbollum, og ég valdi síðri kostinn.

Ég er á póstlista hjá Sollu Eiríks og hún sendi í vikunni uppskriftir að speltbollum, marsipani, súkkulaði og möndlurjóma, í tilefni bolludagsins. Valur bakaði bollurnar í morgun og gerði marsipanið (reyndar úr möndlum en ekki heslihnetum eins og uppskriftin gerði ráð fyrir). Svo bjó ég til fremur misheppnað súkkulaði og lapþunnan kasjúhneturjóma. Þetta bragðaðist nú samt allt ágætlega en engin mynd var tekin af herlegheitunum.

Annars er bara vorveður úti, vægt til orða tekið. 8 stiga hiti, sólskin, sunnangola og snjórinn bráðnar eins og honum sé borgað fyrir það. Valur skellti sér á skíði og naut sín í botn á nýju skíðunum. Ég sjálf hef voða lítið farið á skíði síðan ég fékk brjósklosið 2008, aðallega af því jafnvægið er ekki ennþá komið í lag. En mig langar samt stundum uppeftir, sérstaklega í svona fallegu veðri eins og í dag. Aldrei að vita nema ég skelli mér einhvern tímann í vor.

Svo áttaði ég mig á því núna, að það eru sem sagt komin fimm ár frá brjósklosinu, sem þýðir að í í vor eru komin fimm ár frá því Pottar og prik fluttu á Glerártorg. Ég veit að ég er alltaf að tönnlast á því sama, en ég bara verð að segja það "upphátt" einu sinni enn ... ég hreinlega skil ekki hvað tíminn líður fljótt!!!


P.S. Fyndið, ég var svo oft að drepast úr kláða hér áður fyrr. Eftir tvo skammta af bollum í dag kom þessi sami kláði aftur. Þá veit ég það ;o)

3 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Mér finnst ég nú svakalega gömul eitthvað, þegar ég les að það eru fimm ár síðan við fluttum P&P á Glerártorg! ;)

Guðný Pálína sagði...

Hahah, já Nanna bara farið að slá verulega í þig sko ... þú varst nú svo ung og spræk fyrir 5 árum og ert ennþá ung og spræk :) En það var mjög gott að hafa þig í flutningunum, enda fékkstu víst alveg að vinna nóg þá ;)

Nafnlaus sagði...

Já, mig minnir líka að það hafi verið rosalega gaman og huggulegt að flytja búðina. Og jebb, fjöldi vinnutíma skemmdi ekki fyrir ;)