miðvikudagur, 24. október 2012

Stutt og dökkt

Ég hef nú ábyggilega skrifað um það áður, hvað ég er orðin þreytt á því að "þurfa" alltaf að láta lita á mér hárið á nokkurra vikna fresti. Er sem sagt orðin býsna grá í rótina en ekki alveg tilbúin til þess ennþá að verða gráhærð. Finnst samt margar konur ótrúlega flottar með grátt hár. Hárgreiðslukonan mín segir hins vegar, að hárið á mér sé ennþá svo mismikið grátt, að það kæmi ekki vel út fyrir mig að hafa það ólitað. Og já já auðvitað er þetta hennar atvinna og þar af leiðandi hennar hagur að ég komi sem oftast í háralitun, en ég held samt að þetta sé rétt hjá henni. Það er vel grátt í vöngum og fremst ofan á kollinum en t.d. í hnakkanum er ég lítið sem ekkert farin að grána.

Nú var löngu kominn tími á að ég færi í litun, en ég var sem sagt ekki farin. Fyrir því voru tvær ástæður. Aðalástæðan var sú að hárgreiðslukonan mín var í fríi og það er alltaf smá stress að fara á nýja staði. Svo var ég jú búin að vera veik og þá var það ekki beinlínis efst á forgangslistanum að sitja á hárgreiðslustofu í 2-3 tíma. En í gær sá ég að við svo búið mátti ekki standa lengur. Frídagur í dag og nægur tími til að sinna þessu. Hugsaði samt með mér að ég fengi ábyggilega hvergi tíma með svona skömmum fyrirvara. En viti menn, fékk tíma á fyrstu stofunni sem ég hringdi á. Það var Medulla sem er frekar stór stofa og ég taldi að þá væru líkurnar meiri á að eitthvað væri laust.

Þannig að í morgun fór ég og sat mína 2 tíma og kom út aftur með "nýtt" hár á mettíma. Þær voru tvær að bera litinn í hárið á mér og voru snöggar að því. Ég hafði hugsað með mér að mig langaði til að dekkja hárið og var að spá í eitthvað í áttina að súkkulaðibrúnu. Það kom á daginn að hárgreiðslukonan hafði samskonar hugmyndir. Það fer svo vel við brúnu augun þín ... sagði hún. Ég vildi nú ekki vera svo smámunasöm að benda á að ég væri með græn-brún augu... enda kannski aukaatriði.

Þegar komið var að því að þvo litinn úr hárinu var það ungur karlmaður sem tók það að sér. Hann leysti það með sóma og ég fékk þetta þvílíkt fína höfuðnudd í leiðinni. Og ég sem hafði verið svo stíf í hnakkanum og höfuð-vöðvunum, þetta var einmitt það sem ég þurfti.

Næst var það klippingin. Það er alltaf pínu áhætta að láta nýja manneskju klippa sig af því hún þekkir ekki hárið á mér. Ég t.d. missi alltaf hárið í kollvikunum og svo kippist það yfirleitt töluvert upp eftir klippinguna, þannig að þá sýnist það ennþá styttra en markmiðið kannski var. En þetta gekk nú bara ágætlega fannst mér. Hún reyndar ætlaði aldrei að hætta að klippa... svo ég var farin að hafa smá áhyggjur af því að það yrði nú voðalega lítið eftir. Var líka komin á flug í því að spjalla við mig og sessunaut minn um áhugavert námskeið sem hún er á. Sem var bara gaman. En já svo hætti hún nú loks að klippa og skildi nokkra lokka eftir á höfðinu á mér, hehe ;)


Ég hef oft verið með mjög stutt hár, svo þetta er ekkert nýtt. Það er hins vegar nýtt hjá mér að taka sjálfsmyndir, en ég smellti af mynd til gamans þegar ég kom heim. Bara verst að það sést eiginlega ekki nógu vel þarna hvað liturinn er í raun fallegur.

4 ummæli:

Anna S. sagði...

Sæt klipping, fer þér vel :-) Svo er liturinn fallegur! Ábyggilega tilviljun en ég keypti súkkulaðibrúnan háralit í gær og litaði hárið!! Ég var hinsvegar að hugsa með mér að ég þyrfti að lýsa hárið smá (smám saman) ;-) Er að fara í klippingu á morgun, en það verður nú sennilega bara smá.

Guðný Pálína sagði...

Takk Anna mín :) Skemmtileg tilviljun að þú skulir líka vera komin með súkkulaðibrúnan háralit :) Ég var nú að segja hárgreiðslukonunni frá því hvað mamma gránaði seint, það er nokkuð ljóst að við höfum fengið hára-genin úr föðurættinni ;)

Nafnlaus sagði...

Mér finnst þú nú alltaf fín mamma mín; gráhærð, dökkhærð, ljóshærð, stutthærð eða síðhærð, þó ég hafi nú aldrei séð þig síðhærða ;)

Andri

Guðný Pálína sagði...

Æ takk Andri minn, voða var þetta fallega sagt við mömmu sína :*