sunnudagur, 14. október 2012

Haust


Mér hefur sennilega tekist að krækja mér í einhverja pesti þarna í útlandinu. Að minnsta kosti var ég komin með hálsbólgu seinni part miðvikudags, verri á fimmtudaginn og á föstudag var það haus fullur af hori... Ótrúlega spennandi, eða þannig. Ég var nú í vinnunni og þurfti m.a. að biðja einn viðskiptavin að hafa mig afsakaða meðan ég fór að snýta mér. Þá var ég búin að sjúga árangurslaust upp í nefið og fann að horið var farið að leka... oj bara, þvílík lýsing. Er kannski að ýkja þetta aðeins en ekki mikið.

Helgin hefur því að mestu farið í hvíld hjá mér. Í gær fór ég samt með Ísak að kaupa buxur af því það var 30% afsláttur í Levi's búðinni og hann átti sem sagt bara einar passandi gallabuxur. Þar sem hann er að fara með skólanum til Reykjavíkur um næstu helgi fannst móður hans að hann þyrfti nauðsynlega að eiga buxur til skiptanna ef eitthvað kæmi uppá. Fatakaup eru hins vegar ekki í miklu uppáhaldi hjá honum en hann lét sig hafa það í þetta sinn.

Eftir að hafa farið heim aftur, snýtt mér og slappað aðeins af, fór ég reyndar út aftur. Í þetta sinn til að kíkja á LEE gallabuxur sem voru með 20% afslætti. Það er endalaust gallabuxnavesen á mér. Ég keypti mér buxur á útsölu í Benetton í sumar, en ákvað að taka þær frekar þröngar af því ég lendi svo oft í því að buxur víkka og verða alltof stórar eftir fyrstu notkun. Þá gerðist það auðvitað næst að ég fitnaði ... og Benetton buxurnar eru orðnar alltof þröngar í strenginn.

Auðvitað hefði verið fjárhagslega hagkvæmara að grenna sig bara aftur - en það er eiginlega hægara sagt en gert. Sérstaklega þar sem kolvetnafíknin er alveg að fara með mig þessa dagana. Ég hef reynt að taka mig á en það gengur illa. Svo er ég jú heldur ekki feit, það er víst nokkuð langt í það hjá mér. En samt, ég þarf að koma mér upp úr þessu kolvetnaáti því mér líður betur orkulega séð ef ég er laus við "upp-og-niður-sveiflurnar" sem því fylgir.

Í dag fór ég nánast ekkert út úr húsi. Er samt að mestu laus við hálsbólgu og hor, en bara alveg hræðilega slöpp. Svaf samt til að verða tíu í morgun. Eina ferðin mín út, var þegar ég fór út í garð um miðjan daginn í dag, og smellti af nokkrum mis-heppnuðum myndum.

Að öðru leyti hékk ég alltof mikið í tölvunni (hvernig væri nú að ég héldi frekar áfram að prjóna peysuna mína?) og dundaði mér m.a. við að útbúa þessa undirskrift sem hér má sjá. Ekki þar fyrir, þetta er náttúrulega ekki einu sinni mín eigin skrift (eða hrafnaspark eins og undirskriftin mín er), en mér finnst þetta samt pínu flott. Persónulegra einhvern veginn. Æ, ég veit það samt ekki, svo kannski finnst mér þetta ekkert flott á morgun, hehe.

Engin ummæli: