mánudagur, 15. október 2012

Öll að koma til



Það er nú einu sinni svo, að þegar maður vælir um kvef fyrir framan alþjóð (eða alla þessa fimm sem lesa bloggið mitt...) þá tel ég mér skylt að upplýsa um framgang málsins.

Það er mér sönn gleði að segja frá því að ég var ótrúlega hress framan af degi í dag. Ekkert hor-rennsli, engir verkir í augum, enginn höfuðverkur. Það dró nú reyndar af mér eftir því sem leið á daginn og ég var orðin fremur framlág þegar ég kom heim úr vinnunni um hálf fjögur leytið. En engu að síður var ég mjög ánægð með að hafa þó átt svona góðan tíma fram að því.

Annars var þetta fremur tíðindalítill dagur. Fáir viðskiptavinir sem komu í Potta og prik, enda er október með afbrigðum rólegur mánuður. Við Sunna vorum aðeins að kíkja á vörur og ákveða varðandi pantanir, enda styttist verulega í jólatraffíkina. Úff, ég fæ nú eiginlega smá sting í magann þegar ég hugsa um það, því eins skemmtilegt og það er, þá er það líka sá tími sem er hvað erfiðastur fyrir mig.

Þegar heim var komið hékk ég aðallega í tölvunni, enda ekki með orku í að gera neitt annað. Eitt af því sem konan er farin að gera á gamals aldri er að leika sér í "tölvuleikjum". Þessir leikir eru reyndar sérstaklega hannaðir með það í huga að þjálfa heilann á ýmsan hátt. Þá má finna inni á síðunni Lumosity.com en leikirnir eru m.a. hannaðir af vísindamönnum á sviði taugalíffræði, svo þetta er alvöru... ;-) Og ég er ekki frá því að ég sé þegar farin að sjá smá árangur af þessum æfingum. Aðgangurinn kostar tæpa 80 dollara á ári, eða ríflega 800 krónur á mánuði, sem er nú ekki mikið ef þetta skilar árangri í skarpari heila.

Svo er ég líka pínulítið upptekin af því að skoða tískublogg þessa dagana. Veit ekki alveg hvaðan þessi skyndilegi áhugi minn á tísku dúkkaði upp, en við erum sem sagt ekki að tala um hátískuna, heldur bara fatnað venjulegra kvenna. Þá kemur Pinterest sterkt inn. Þar set ég inn myndir af fötum og fatasamsetningum sem mér finnast flottar, á mína Pinterest síðu, og get svo skoðað það síðar meir til að fá innblástur.

Myndin sem fylgir þessari bloggfærslu er tekin í glugga Gamla Kaupfélagsins á Breiðdalsvík. Þar er núna safn, en húsið hefur verið endurbyggt af miklum myndarskap, í samráði við Húsafriðunarnefnd ríkisins.


P.S. Ég held annars að ástæðan fyrir þessum aukna tískuáhuga sé að hluta til sú, að ég er aðeins að vakna til lífsins aftur, eftir afskaplega langt þreytutímabil.

4 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Sæl Guðný ég er þá sú sjötta sem les bloggið þitt :) lenti hér inn fyrir rælni fyrir nokkrum vikum og hef sérlega gaman að því að skoða fallegu myndirnar þínar,ég er sjálf mikil áhugamanneskja um ljósmyndun og það er mitt uppáhald að taka myndir, sérstaklega útí náttúrunni. En ég gat ekki lengur verið að koma hér inn nema kvitta fyrir komuna og ég geri það hér með, Takk fyrir! frábærar myndir sem þú tekur og einnig segir þú skemmtilega frá lífinu og tilverunni.Bestu kveðjur frá Hrísey, Kristín Björk.

Nafnlaus sagði...

Langt síðan ég hef skrifað núna, en lít alltaf inn hjá þér. Verulega skemmtileg ferðasaga og flott pinterest síða hjá þér. Bestu kveðjur, Þórdís.

Anna Sæm sagði...

Var einmitt að reyna að muna hvað þessi "heilaþjálfunarsíða" heitir, en nú kviknaði á perunni, ha, ha....

Guðný Pálína sagði...

Vá, nú er ég glöð, fullt af athugasemdum :) Það var nú samt ekki markmiðið að plata fólk til að kommentera, þó ég talaði um "þessa fimm sem lesa bloggið". Auðvitað er ég fyrst og fremst að blogga til að fá útrás fyrir tjáningarþörf + að halda "skriftarvöðvanum" í æfingu, en mikið er nú samt gaman að fá komment :)

Velkomin og takk kærlega fyrir innlitið Kristín Björk í Hrísey. Mig dreymir um lítið krúttlegt hús í Hrísey, kannski sá draumur rætist einhvern tímann ;)

Og takk sömuleiðis Þórdís og Anna :)