laugardagur, 20. október 2012

Hvenær er fólk miðaldra?


Á síðasta fundi í ljósmyndaklúbbnum barst það í tal hvenær fólk yrði miðaldra, þ.e.a.s. á hvaða aldri telst manneskja vera orðin miðaldra. Og áður en lengra er haldið - Já, við ÁLFkonur tölum um margt annað en ljósmyndun þegar við hittumst...

Ég man ekki ástæðuna fyrir því að þetta barst í tal, en þetta er athyglisvert umhugsunarefni.  Er maður miðaldra þegar maður hefur lifað helming þess tíma sem maður getur vænst þess að lifa, samkvæmt tölum um meðal-langlífi Íslendinga? Ef svo er, þá eru Íslendingar miðaldra um fertugt. Eða er maður miðaldra þegar maður hefur lifað í hálfa öld? Eða - er fólk miðaldra þegar það upplifir sig miðaldra? Er þetta spurning um skynjun, fremur en harðar staðreyndir?

Samkvæmt orðabók Merriam-Webster þá er fólk miðaldra á aldursbilinu 45-60 ára. Hins vegar sýndi könnun sem gerð var í Bretlandi að þar í landi upplifði fólk sig fyrst miðaldra um 55 ára aldur. Þarna var það huglægt mat þátttakenda sem var skoðað. Líklega upplifum við okkur seinna miðaldra nú á dögum, þegar meðalaldur fer hækkandi og flest fólk heldur heilsu mun lengur en fólk gerði hér áður fyrr.

Hm, ég veit það ekki, kannski vil ég bara ekki horfast í augu við það að ég "stelpan" sé nú þegar komin í hóp miðaldra fólks. Ekki að það sé neitt að skammast sín fyrir. Samt finnst mér sennilega að orðið "miðaldra" feli í sér að nú sé farið að síga á seinni hlutann hjá manni, og ég er ekki tilbúin til þess ennþá held ég.

Engu að síður tala staðreyndirnar sínu máli. Yngsta barnið komið í annan bekk í framhaldsskóla og brátt verðum við Valur ein eftir í kotinu. Líklegast eftir 3 til 5 ár í mesta lagi. Einu skeiði í lífinu að ljúka og annað sem tekur brátt við.

Það er nokkuð ljóst að með hækkandi aldri breytast hlutverk okkar. Það eru aðrar ástæður fyrir því að fara á fætur á morgnana. Engin ung börn sem kalla endalaust á athygli, ekki sama þörfin fyrir að sanna sig í námi eða starfi. Því fylgir sú áskorun að finna sér farveg, halda áfram að lifa lífinu lifandi en staðna ekki í vana hversdagsins.

En því er ekki að neita að hjón t.d. þurfa að passa uppá sambandið þegar hlutverkin breytast, börnin eru flutt að heiman og eru ekki lengur miðpunktur athyglinnar á heimilinu.

Við Valur fórum  að sjá myndina Hope Springs í gærkvöldi, en hún fjallar um MIÐALDRA hjón sem leita til hjónabandsráðgjafa, að frumkvæði konunnar sem saknar þess sem þau áttu áður saman. Þetta var ágætis mynd að mörgu leyti og hún var nokkuð fyndin á köflum. Þó hefði verið hægt að gera enn betri mynd hefði handritið verið betra, því leikurinn var góður. Engu að síður sýndi myndin ýmsar gildrur sem auðvelt er að falla í þegar hjónabandið er komið í vítahring vanans. Hjónin hrædd við að "rugga bátnum" og halda þess vegna í siði og venjur sem eru í raun ekki að virka. Fyrir hvorugt þeirra.

En þrátt fyrir hugsanlegar hjónabands- og aðrar lífskrísur, er margt gott sem fylgir því að eldast. Maður verður öruggari með sjálfan sig, veit betur hvað maður vill og vill ekki, og lætur umhverfið síður hafa áhrif á skoðanir sínar og viðhorf. Ýmis konar komplexar sem ungt fólk á við að stríða hafa lotið í lægra haldi fyrir uppsafnaðri visku og auknum þroska.

Hvað sjálfa mig snertir, þá hef ég þá skoðun (og vona að hún sé rétt) að ég sé svona "late bloomer". Það er að segja, að ég eigi bara eftir að batna eftir því sem ég eldist, og öðlist með aldrinum hugrekki til að láta þá drauma rætast sem ég þorði ekki að eltast við þegar ég var yngri :-)

Jamm og jæja, þetta voru pælingar dagsins í boði Guðnýjar, sem fagnaði sigri yfir kvefpestinni of snemma, og er slöpp/veik heima aðra helgina í röð.P.S. Myndin sýnir bláklukkur í Mjóafirði, í lok júlímánaðar.

Engin ummæli: