sunnudagur, 21. október 2012

Allt í stíl


Þessi mynd er tekin þegar við Valur ókum í gegnum Fáskrúðsfjörð í sumar. Þá  helgina voru Franskir dagar haldnir í þorpinu, og hús og götur skreytt eins og ímyndunarafl íbúanna leyfði. Hvert hverfi hafði sinn einkennislit, en eins og sjá má var það guli liturinn sem var ríkjandi í þessari götu :-)

Annars hefur þessi dagur verið pínu erfiður fyrir sálartetrið. Ég vaknaði í morgun, ennþá með fullan haus af hori, og gerði fátt annað en snýta mér framan af degi. Til að kóróna ástandið er ég svona líka hrikalega slöpp í dag, og treysti mér ekki einu sinni út að ganga, þrátt fyrir fagrar fyrirætlanir.

Þá byrjar líka vælubíllinn ... ó ó æ æ aumingja ég ... að komast ekki út í góða veðrið að taka myndir o.s.frv. Ég er bara eitthvað svo innilega leið á því að nota meira og minna allar helgar í veikindi af einhverju tagi. En nú hlýtur þetta að fara að lagast.

Satt best að segja var ég einmitt að tala um það í síðustu viku, að mér fyndist ég vera að skána töluvert af þessari yfirgnæfandi þreytu minni. Ég hef aðeins betra úthald, þoli betur hávaða og er alveg laus við svimann sem mikið að hrella mig á tímabili.

Það er kannski einmitt þess vegna sem ég er í smá panikk-ástandi núna. Þessi kvefpesti virðist hafa kveikt aftur á þreytunni, og þá verð ég svo hrædd um að það taki mig langan tíma að ná aftur þeim bata sem þó var orðinn. Þá fer líka "áhyggjuvélin" í gang og ég fer að hafa áhyggjur af því að ná ekki að standa mig í vinnunni og á öðrum vígstöðvum vegna þreytu. En já já, eigum við ekki bara að halda í bjartsýnina og vona hið besta.

Valur var í dugnaðarkasti í dag. Fór með helling af rusli uppá gámasvæði + í endurvinnslu, auk þess sem hann þvoði bílinn. Svo heyrði ég aðeins í Guðbjörgu svilkonu minni í síma, og spjallaði við Önnu systur á Skype, og það var virkilega gaman að heyra í þeim báðum tveimur.

Núna mallar indverskur réttur í pottinum og rétt strax þarf að fara að sækja Ísak niður í skóla, en rútan hans fer að renna inn í bæinn. Birta gamla sefur á þykkum púða hér á rúminu fyrir aftan mig, hún eltir mann milli herbergja, vill vera þar sem fólkið er. Svo lífið gengur sinn vanagang eins og sjá má.

Engin ummæli: