sunnudagur, 28. október 2012

Þar sem vindarnir hvílast


Þegar við vorum í Kaupmannahöfn hjá Hrefnu, í byrjun október, bar það til tíðinda hér heima á Íslandi að Dagur Hjartarson hlaut Bókmenntaverðlaun Tómasar Guðmundssonar árið 2012. Dagur er bróðursonur Vals, og það sem gerir þetta enn skemmtilegra, er sú staðreynd, að Hjörtur bróðir Vals (og pabbi Dags) hlaut sömu bókmenntaverðlaun árið 2000 fyrir skáldsöguna AM00.

Þegar við vorum komin heim frá Danmörku kíkti ég á netið til að finna umfjöllun um verðlaunin. Hana má finna á mörgum netmiðlum, til dæmis er viðtal við Dag í Víðsjá og einnig eru styttri fréttir víða annars staðar. Í umsögn dómnefndar um bókina segir m.a.:
,,Verðlaunahandritið er lágstemmt, afslappað og áreynslulaust. Og einmitt þar liggur styrkur þess, sá styrkur sem þarf alltaf til að draga lesanda frá fyrstu blaðsíðu til þeirrar síðustu; aðdráttarafl hins prentaða orðs…. Tærleiki, bjartsýni og einlæg ást einkennir handritið fram undir lok þess. En þá birtast nokkur ljóð í röð sem eru full af lúmskum trega og óvæntum sársauka, eins og ljóðmælandi hafi haldið sársaukanum í sér en leyft honum að koma upp á yfirborðið undir það allra síðasta. Það er ekki síst þessi leikur með viðtökur lesandans sem gerði að verkum að dómnefndin ákvað að verðlauna ljóðahandritið Þar sem vindarnir hvílast - og fleiri einlæg ljóð. Titillinn er, eins og handritið sjálft, leikur með einlægni og kaldhæðni.“
Eins og Dagur segir sjálfur í viðtalinu í Víðsjá, þá eru stundum mörg partý sömu helgina. Fyrir skömmu hlaut hann nefnilega einnig Nýræktarstyrk Bókmenntasjóðs fyrir smásagnahandritið Fjarlægðir og fleiri sögur, svo það er  margt að gerast hjá honum þessa dagana. 

Ég keypti ljóðabókina hans Dags og gaf Val í síðustu viku. Svo las ég hana auðvitað sjálf líka. Þetta eru ljóð sem eru þægileg aflestrar en skilja samt eftir sig fótspor í vitund lesandans. Mæli með henni :-)

2 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Það skaðar varla nokkurn að lesa þessar fáeinu síður og komast að því að gæðin felast ekki í magni eða fjölda bls., heldur textanum á síðunum.
Halur

Guðný Pálína sagði...

Já, það er svo sannarlega rétt, gæðin eru mikilvægari en magnið, sérstaklega þegar um skáldskap er að ræða.