laugardagur, 13. október 2012

Fínasta Danmerkurferð að baki

þar sem allt gekk samkvæmt áætlun. Við flugum suður á þriðjudagskvöldi og tókum svo rútu til Keflavíkur, þar sem við gistum hjá mömmu og Ásgrími um nóttina. Flugið til Kaupmannahafnar var ekki fyrr en kl. 13 svo við gátum sofið frameftir og borðað morgunmat með mömmu og þeim í rólegheitum áður en við fórum upp á flugvöll. Það er ótrúlega mikill munur að þurfa ekki að vakna kl. fjögur að nóttu fyrir flug.

Við komum til Kaupmannahafnar um hálf sjö að dönskum tíma og tókum lest frá flugvellinum, að Österport lestarstöðinni, en þar kom Hrefna á móti okkur með regnhlífar því það hafði verið ausandi rigning skömmu áður. Það er ca. tíu mínútna gangur frá lestarstöðinni heim til hennar, en hún býr á stúdentagarði sem heitir Nordisk Kollegium. Hrefna var búin að elda flottan mat handa okkur og við sátum heillengi og borðuðum og spjölluðum, ásamt Egil kærastanum hennar. Svo fengum við herbergið hennar lánað en hún gisti í Egils herbergi á næstu hæð fyrir neðan. 

Á fimmtudeginum vorum við Valur aðallega að slæpast um í miðborginni, á meðan Hrefna og Egil voru í vinnunni. Valur var að leita að verslun sem seldi Fjellreven buxur og við fórum í einar fjórar slíkar án þess að finna réttu buxurnar. Svo auðvitað kíktum við á kaffihús og fengum okkur síðan að borða síðbúinn hádegismat á 42raw, sem er hráfæðisveitingastaður, en þar fást rosalega góðar avocado samlokur. Ég fékk mér reyndar lasanja í þetta skiptið sem var líka mjög gott. Um kvöldið fórum við svo út að borða á indverskan veitingastað með Hrefnu og Egil. Það var líka mjög gaman og vel heppnað. 

Á föstudagsmorgni þegar við vorum nýlega búin að borða morgunmat hringdi síminn minn. Það var Anna systir, en hún og Kjell-Einar höfðu tekið ferju frá Noregi kvöldið áður og voru nýlega komin í höfn. Þau kíktu aðeins á okkur og keyrðu svo mig, Val og Hrefnu í enn eina útivistarverslunina, áður en þau héldu áfram för sinni til Palla bróður á Jótlandi. Í þessari verslun fengust loks réttu Fjellreven buxurnar og ég fékk meira að segja á mig buxur líka. Ég var mjög ánægð með það, því útivistarbuxurnar sem ég á eru alltof stórar á mig.

Við fengum okkur aftur að borða hádegismat á hráfæðisstaðnum en þar sem það var farið að hellirigna, og við vorum ekki almennilega klædd fyrir rigningu, fórum við næst í stóra verslunarmiðstöð í útjaðri borgarinnar. Þar kíkti ég í H&M en gekk hálf illa að finna eitthvað spennandi á mig. Það er eiginlega of mikið af fötum úr lélegum efnum, og erfitt og tímafrekt að finna eitthvað sem er ódýrt en nokkuð vandað. Ég keypti nú samt tvö pils, kjól og sokkabuxur svo ekki fór ég tómhent út. Til að kóróna kaupæðið, keypti ég svo nýja spariskó til að vera í í brúðkaupinu. Ég hafði reyndar tekið með mér skó en þeir eru eiginlega alltof litlir á mig, enda skildi ég þá eftir hjá Hrefnu þegar ég fór, þar sem hún notar númeri minna af skóm en ég. 

Á meðan ég var að máta skó fóru Hrefna og Valur og keyptu í kvöldmatinn. Nautasteikur, rauðvín og grænmeti. Svo sáu þau í sameiningu um að elda matinn á meðan ég bara sat á mínum lata rassi og kíkti á facebook og svona. Eftir matinn pökkuðum við Hrefna inn gjöfinni til Palla og Sanne, og svo fórum við frekar snemma að sofa. Það var að minnsta kosti meiningin, en ég hef sennilega verið í einhverju stresskasti og var illt í maganum og svaf fremur illa um nóttina. 

Laugardagur rann upp nokkuð bjartur og fagur. Við Valur, Hrefna og Egil tókum lest til Jótlands þar sem Palli býr. Lestin var ekki nema ríflega tvo og hálfan tíma á leiðinni, enda hraðlest sem stoppaði sjaldan. Klukkan var hálf eitt þegar við komum til Skanderborg. Þar tók Kjell-Einar á móti okkur og ók okkur heim í hús til Palla og þeirra. Tja, eða réttara sagt á gistiheimilið sem Sanne rekur sem nokkurs konar aukabúgrein. Þar fengum við að borða og Palli kom síðan og heilsaði uppá okkur en Sanne var að undirbúa sig fyrir giftinguna og við sáum hana ekki fyrr en í kirkjunni. Hins vegar komu líka Sara og Anna dætur Palla, ásamt kærasta Söru. Já og Bjarni sonur Palla. Það var gaman að hitta þau öll. Næst á dagskrá var svo að fara í sparifötin og drífa sig í kirkjuna. 


Þarna er Anna dóttir Palla, og Sara fyrir aftan hana. Hrefna og Anna systir mín.


Sara, Anna og Hrefna.


Hrefna og Egil í sparidressinu :-)


Undirrituð ásamt eiginmanni.


Bjarni sonur Palla, ásamt pabba sínum og verðandi brúðguma. Hm, hvar á nú eiginlega að festa þetta blóm??Brúðkaupið var í lítilli sveitakirkju örskammt frá heimili þeirra. Athöfnin gekk snuðrulaust fyrir sig og þau játuðust hvort öðru eins og lög gera ráð fyrir ;-) 
Það var föðursystir Sanne sem hannaði og saumaði brúðarkjólinn, en hún er menntaður fatahönnuður. Eins og sjá má var þetta afskaplega fallegur kjóll, jafnt af framan sem aftan.


Búið að gefa brúðhjónin saman og presturinn horfir á eftir þeim út í lífið.Amma brúðarinnar óskar til hamingju.


Smá uppstilling í kirkjudyrunum fyrir ljósmyndarana.Eftir athöfnina óku brúðhjónin á brott í hestvagni en við hin ókum hefðbundnari farartækjum í salinn þar sem veislan var haldin.
Enn ein uppstilling fyrir myndatökur, í þetta sinn fyrir utan veislusalinn.Hrefna, Egil og systir brúðarinnar skoða hestana sem drógu vagninn.


 Næst var boðið uppá brúðartertu og freyðivín. Brúðhjónin skiptust á að gefa hvort öðru köku að smakka og brugðu aðeins á leik af því tilefni.
Eftir að allir höfðu fengið köku og drykk, stungu hin nýgiftu af til að fara í myndatöku ásamt börnunum sínum öllum sjö.

Þegar þau komu aftur tóku þau upp gjafirnar en síðan hófst heljarinnar veisla með forrétt, aðalrétt og eftirrétt, þar sem hver rétturinn var öðrum ljúffengari.Kjell-Einar horfir á mig íbygginn á svip. Verst að ég man ómögulega hvað við vorum að ræða um þarna...


 Faðir brúðarinnar að halda ræðu. Móðir brúðarinnar situr honum til hægri handar, en konan í græna pilsinu er föðursystirin sem hannaði brúðarkjólinn.


Kjell-Einar eitthvað að spauga í Önnu systur.


Í Danmörku er sá siður að brúðhjónin flytja ræðu til hvors annars. Hér er Sanne að hlusta á ræðu Palla.Og hér flytur Sanne sína ræðu. Ræður þeirra beggja voru mjög hjartnæmar og tár komu í augu þónokkurra veislugesta við að hlusta.


Sara dóttir Palla og Emma dóttir Sanne.


Hér er kærastinn hennar Söru kominn með á myndina.


Og Egil og Hrefna.
Fyrirfram hafði ég ekki leitt hugann að ræðuhöldum, en fannst svo að einhver yrði að tala fyrir hönd fjölskyldu Palla, og kastaði mér því í djúpu laugina ... og sagði nokkur orð, nánast óundirbúin. Tókst nú að gleyma því sem ég ætlaði að segja þar sem ég fraus í miðri ræðu, en klóraði mig  fram úr þessu svona nokkurn veginn skammlaust. 

Um miðnættið dönsuðu Palli og Sanne brúðarvalsinn, og eftir það var spilað fyrir dansi. Þetta var orðinn langur dagur og við fórum fljótlega heim í hús ásamt Önnu og Kjell-Einari, en Hrefna og þau voru eitthvað lengur. 
Á sunnudagsmorgni var svo heljarinnar sameiginlegur morgunverður í gistiheimilinu. Að því loknu voru teknar myndir af okkur systkinunum saman, (mér, Palla og Önnu) en svo var komið að kveðjustund. 

Við Valur ókum  til Kaupmannahafnar með Önnu og Kjell-Einari en Hrefna og Egil tóku lestina. Við vorum nú reyndar lengur á leiðinni því það tók svo langan tíma að keyra í gegnum Kaupmannahöfn, en það er nú önnur saga. Svo fóru Anna og þau í ferjuna um þrjúleytið. Síðar um daginn fóru svo Hrefna og Valur út í hjóltúr en ég var búin að klára alla mína orku og rúmlega það, og var bara heima á meðan. Um kvöldið fórum við á Wok-veitingastað í fimm mínútna göngufæri, og fengum þar hinn fínasta mat.

Mánudagur var heimferðardagur. Vélin okkar fór þó ekki fyrr en kl. 14 og við skruppum í búð og keyptum skó handa Andra í leiðinni á flugvöllinn. Það er alltaf pínu erfitt að velja gjafir handa öðrum en hjálpaði þó að þeir feðgar nota nokkurn veginn sömu skóstærð. Flugið heim gekk vel en varði þó hálftíma lengur en flugið út, sökum mótvinds. Svo var það bara venjulega rútínan, þ.e.a.s flugrútan inn til Reykjavíkur, rúmlega klukkutíma bið á flugvellinum og svo flug norður til Akureyrar. Ég var nú orðin býsna framlág þegar við komum loks heim en fegin hvað allt hafði gengið vel. Ennþá fegnari því að hafa skipt um vakt við Önnu sem vinnur hjá okkur, þannig að ég gat verið í fríi daginn eftir. Enda veitti ekki af því, ég var gjörsamlega búin á því eftir ferðina. En ánægð samt með að hafa farið.

P.S. Ferðasagan er hér skrifuð til gamans, og fremur margar myndir birtar, en það er fyrir mömmu sem treysti sér ekki í ferðalög til útlanda. Og svo það sé nú alveg á hreinu, þá var það Valur sem tók nánast allar myndirnar.

2 ummæli:

Anna S. sagði...

Takk fyrir góða ferðasögu og skemmtilegar myndir Guðný mín

Guðný Pálína sagði...

Takk fyrir samveruna segi ég nú bara :)
Valur á náttúrulega heiðurinn af myndunum, svo hefur þú ábyggilega tekið fullt af flottum myndum sem gaman væri að sjá við tækifæri.