þriðjudagur, 30. október 2012

Þá er skammdegið að ná í skottið á mér


Ég hef oft átt erfitt með að halda haus í myrkasta skammdeginu. Ástandið var reyndar verra hér áður fyrr, og sérlega erfitt þegar við bjuggum í Tromsö, því þar var ennþá meira skammdegi en hér á Íslandi. Einn vetrarpart þegar ég var hvorki í skóla né fastri vinnu, átti ég það til að fara með Andra til dagmömmunnar á morgnana, og svo beint heim í rúm aftur þar sem ég svaf til hádegis.

Inni á vef persona.is er skammdegisþunglyndi skilgreint á eftirfarandi hátt:
Einkenni skammdegisþunglyndis eru vanlíðan, sinnuleysi, mikil depurð, svartsýni, lífsleiði, orkuleysi og óeðlilega mikil svefnþörf. Einnig eykst matarlyst, þá sérstaklega löngun í kolvetnaríka fæðu. Því er algengt að fólk með skammdegisþunglyndi þyngist töluvert yfir vetrartímann. Að auki getur skammtímaþunglyndi leitt til þess að fólk forðist félagsleg samskipti og einangri sig.
Ég hef verið viðkvæm fyrir skammdeginu alveg síðan ég var unglingur og það fór versnandi með árunum. Þetta var afar slæmt þegar við bjuggum í Noregi og einhver ár eftir að við fluttum heim, en ég hef skánað mikið hin síðari ár. Mestu framfarirnar komu eftir að við fjárfestum í dagsbirtu-lampa fyrir rúmum tíu árum síðan. Þá sit ég við hann í a.m.k. 30 mín. á dag og ég finn gríðarlegan mun á því að nota hann.

Í morgun þurfti ég ekki að vakna í vinnu og þrátt fyrir að hafa rumskað kl. 9, svaf ég áfram til kl. 10. Þá dauðbrá mér líka þegar ég sá hvað ég hafði sofið lengi. Að vísu er ég ennþá með anga af þessari leiðinda pesti í mér (stífluð í ennis-, nef-, og kinnholum með tilheyrandi slappleika) en það var samt ekki skýringin á þessum mikla svefni. Nei, ég áttaði mig á því að nú var það skammdegið sem var skollið á, og ég ekki búin að sækja lampann góða niður í geymslu.

Annað sem ég mæli með til að berjast við skammdegisþreytu, er að fara út að ganga í hádeginu, þeir sem hafa möguleika á því. Þá er mest birtan úti + öll hreyfing er af hinu góða.

Svo hjálpar það líka til hversu mikið er að gera hjá mér í vinnunni í nóvember og desember, og enginn tími til að detta niður í þunglyndi. Öll samskiptin við viðskiptavinina gefa líka mikið af sér.

Það sem hefur þó hjálpað mér mest að sættast við skammdegið, er ljósmyndaáhuginn. Það að vera úti með myndavélina og reyna að fanga fegurð vetrarins, er bara snilldar"lyf" gegn skammdegisþreytu :-)

Myndina sem fylgir þessari færslu tók ég í desember 2011, rétt hjá Leirunesti hér á Akureyri.

sunnudagur, 28. október 2012

Þar sem vindarnir hvílast


Þegar við vorum í Kaupmannahöfn hjá Hrefnu, í byrjun október, bar það til tíðinda hér heima á Íslandi að Dagur Hjartarson hlaut Bókmenntaverðlaun Tómasar Guðmundssonar árið 2012. Dagur er bróðursonur Vals, og það sem gerir þetta enn skemmtilegra, er sú staðreynd, að Hjörtur bróðir Vals (og pabbi Dags) hlaut sömu bókmenntaverðlaun árið 2000 fyrir skáldsöguna AM00.

Þegar við vorum komin heim frá Danmörku kíkti ég á netið til að finna umfjöllun um verðlaunin. Hana má finna á mörgum netmiðlum, til dæmis er viðtal við Dag í Víðsjá og einnig eru styttri fréttir víða annars staðar. Í umsögn dómnefndar um bókina segir m.a.:
,,Verðlaunahandritið er lágstemmt, afslappað og áreynslulaust. Og einmitt þar liggur styrkur þess, sá styrkur sem þarf alltaf til að draga lesanda frá fyrstu blaðsíðu til þeirrar síðustu; aðdráttarafl hins prentaða orðs…. Tærleiki, bjartsýni og einlæg ást einkennir handritið fram undir lok þess. En þá birtast nokkur ljóð í röð sem eru full af lúmskum trega og óvæntum sársauka, eins og ljóðmælandi hafi haldið sársaukanum í sér en leyft honum að koma upp á yfirborðið undir það allra síðasta. Það er ekki síst þessi leikur með viðtökur lesandans sem gerði að verkum að dómnefndin ákvað að verðlauna ljóðahandritið Þar sem vindarnir hvílast - og fleiri einlæg ljóð. Titillinn er, eins og handritið sjálft, leikur með einlægni og kaldhæðni.“
Eins og Dagur segir sjálfur í viðtalinu í Víðsjá, þá eru stundum mörg partý sömu helgina. Fyrir skömmu hlaut hann nefnilega einnig Nýræktarstyrk Bókmenntasjóðs fyrir smásagnahandritið Fjarlægðir og fleiri sögur, svo það er  margt að gerast hjá honum þessa dagana. 

Ég keypti ljóðabókina hans Dags og gaf Val í síðustu viku. Svo las ég hana auðvitað sjálf líka. Þetta eru ljóð sem eru þægileg aflestrar en skilja samt eftir sig fótspor í vitund lesandans. Mæli með henni :-)

fimmtudagur, 25. október 2012

ÁLFkonur eru með ljósmyndasíðu á facebook


Og nýlega var ákveðið að blása aðeins meira lífi í síðuna, á þann hátt að við yrðum duglegri að setja inn myndir. Fyrir þá sem eru með facebook aðgang og hafa gaman af því að skoða ljósmyndir, endilega gerið "like" á síðuna.

Einhverra hluta vegna hef ég verið hálf feimin við að setja myndir inná þessa síðu, en skellti fyrstu myndinni inn í kvöld. Það er reyndar sama mynd og birtist hér með þessari færslu. Hún er tekin þegar við Valur vorum á heimleið eftir ferðina austur, í júlílok í sumar.

Þá tókum við á okkur smá krók til að koma frúnni á klósett á Möðrudal... og stoppuðum þar nálægt og smelltum af nokkrum myndum. Á svipuðum slóðum rákumst við líka á þessar fallegu geitur sem lágu í makindum sínum á malarþúfu. Eins og sjá má, er Drottning íslenskra fjalla þarna í baksýn. Endilega smella á myndirnar, þá opnast þær stærri.



miðvikudagur, 24. október 2012

Stutt og dökkt

Ég hef nú ábyggilega skrifað um það áður, hvað ég er orðin þreytt á því að "þurfa" alltaf að láta lita á mér hárið á nokkurra vikna fresti. Er sem sagt orðin býsna grá í rótina en ekki alveg tilbúin til þess ennþá að verða gráhærð. Finnst samt margar konur ótrúlega flottar með grátt hár. Hárgreiðslukonan mín segir hins vegar, að hárið á mér sé ennþá svo mismikið grátt, að það kæmi ekki vel út fyrir mig að hafa það ólitað. Og já já auðvitað er þetta hennar atvinna og þar af leiðandi hennar hagur að ég komi sem oftast í háralitun, en ég held samt að þetta sé rétt hjá henni. Það er vel grátt í vöngum og fremst ofan á kollinum en t.d. í hnakkanum er ég lítið sem ekkert farin að grána.

Nú var löngu kominn tími á að ég færi í litun, en ég var sem sagt ekki farin. Fyrir því voru tvær ástæður. Aðalástæðan var sú að hárgreiðslukonan mín var í fríi og það er alltaf smá stress að fara á nýja staði. Svo var ég jú búin að vera veik og þá var það ekki beinlínis efst á forgangslistanum að sitja á hárgreiðslustofu í 2-3 tíma. En í gær sá ég að við svo búið mátti ekki standa lengur. Frídagur í dag og nægur tími til að sinna þessu. Hugsaði samt með mér að ég fengi ábyggilega hvergi tíma með svona skömmum fyrirvara. En viti menn, fékk tíma á fyrstu stofunni sem ég hringdi á. Það var Medulla sem er frekar stór stofa og ég taldi að þá væru líkurnar meiri á að eitthvað væri laust.

Þannig að í morgun fór ég og sat mína 2 tíma og kom út aftur með "nýtt" hár á mettíma. Þær voru tvær að bera litinn í hárið á mér og voru snöggar að því. Ég hafði hugsað með mér að mig langaði til að dekkja hárið og var að spá í eitthvað í áttina að súkkulaðibrúnu. Það kom á daginn að hárgreiðslukonan hafði samskonar hugmyndir. Það fer svo vel við brúnu augun þín ... sagði hún. Ég vildi nú ekki vera svo smámunasöm að benda á að ég væri með græn-brún augu... enda kannski aukaatriði.

Þegar komið var að því að þvo litinn úr hárinu var það ungur karlmaður sem tók það að sér. Hann leysti það með sóma og ég fékk þetta þvílíkt fína höfuðnudd í leiðinni. Og ég sem hafði verið svo stíf í hnakkanum og höfuð-vöðvunum, þetta var einmitt það sem ég þurfti.

Næst var það klippingin. Það er alltaf pínu áhætta að láta nýja manneskju klippa sig af því hún þekkir ekki hárið á mér. Ég t.d. missi alltaf hárið í kollvikunum og svo kippist það yfirleitt töluvert upp eftir klippinguna, þannig að þá sýnist það ennþá styttra en markmiðið kannski var. En þetta gekk nú bara ágætlega fannst mér. Hún reyndar ætlaði aldrei að hætta að klippa... svo ég var farin að hafa smá áhyggjur af því að það yrði nú voðalega lítið eftir. Var líka komin á flug í því að spjalla við mig og sessunaut minn um áhugavert námskeið sem hún er á. Sem var bara gaman. En já svo hætti hún nú loks að klippa og skildi nokkra lokka eftir á höfðinu á mér, hehe ;)


Ég hef oft verið með mjög stutt hár, svo þetta er ekkert nýtt. Það er hins vegar nýtt hjá mér að taka sjálfsmyndir, en ég smellti af mynd til gamans þegar ég kom heim. Bara verst að það sést eiginlega ekki nógu vel þarna hvað liturinn er í raun fallegur.

þriðjudagur, 23. október 2012

Einu sinni var ...

Once upon a time ... by Guðný Pálína
Once upon a time ..., a photo by Guðný Pálína on Flickr.
Maður getur ekki annað en velt því fyrir sér, hverjir hafi áður fyrr búið í þeim húsum, sem núna eru eyðibýli. Þetta litla hús fundum við Valur við Fáskrúðsfjörð (ekki nálægt kauptúninu sjálfu, heldur nær fjarðarmynninu sunnan megin í firðinum). Og eins og flestir áhuga-ljósmyndarar þá erum við pínu veik fyrir eyðibýlum, og "þurftum" þar af leiðandi að stoppa, ganga þarna um og taka eitthvað af myndum í leiðinni.

Ég klikkaði alveg á því í sumar að skrifa ferðasögu úr ferðinni okkar Vals austur á land. Undanfarið hef ég verið að skoða myndir úr þessari ferð og þess vegna eru þær að detta hér inn á bloggið, ein og ein.

Annars er ég bara svo ógurlega glöð núna :-) Ástæðan er sú að ég er loks að skána af pestinni sem var að hrjá mig. Í gær var ég hins vegar alveg að tapa glórunni. Þá var ég búin að vera alveg skelfilega slöpp og drusluleg síðan á fimmtudag, en í dag fór ég loks að sjá til sólar á ný, svona heilsufarslega séð. Þar sannaðist enn einu sinni að oft er stutt á milli gráturs og hláturs.

sunnudagur, 21. október 2012

Allt í stíl


Þessi mynd er tekin þegar við Valur ókum í gegnum Fáskrúðsfjörð í sumar. Þá  helgina voru Franskir dagar haldnir í þorpinu, og hús og götur skreytt eins og ímyndunarafl íbúanna leyfði. Hvert hverfi hafði sinn einkennislit, en eins og sjá má var það guli liturinn sem var ríkjandi í þessari götu :-)

Annars hefur þessi dagur verið pínu erfiður fyrir sálartetrið. Ég vaknaði í morgun, ennþá með fullan haus af hori, og gerði fátt annað en snýta mér framan af degi. Til að kóróna ástandið er ég svona líka hrikalega slöpp í dag, og treysti mér ekki einu sinni út að ganga, þrátt fyrir fagrar fyrirætlanir.

Þá byrjar líka vælubíllinn ... ó ó æ æ aumingja ég ... að komast ekki út í góða veðrið að taka myndir o.s.frv. Ég er bara eitthvað svo innilega leið á því að nota meira og minna allar helgar í veikindi af einhverju tagi. En nú hlýtur þetta að fara að lagast.

Satt best að segja var ég einmitt að tala um það í síðustu viku, að mér fyndist ég vera að skána töluvert af þessari yfirgnæfandi þreytu minni. Ég hef aðeins betra úthald, þoli betur hávaða og er alveg laus við svimann sem mikið að hrella mig á tímabili.

Það er kannski einmitt þess vegna sem ég er í smá panikk-ástandi núna. Þessi kvefpesti virðist hafa kveikt aftur á þreytunni, og þá verð ég svo hrædd um að það taki mig langan tíma að ná aftur þeim bata sem þó var orðinn. Þá fer líka "áhyggjuvélin" í gang og ég fer að hafa áhyggjur af því að ná ekki að standa mig í vinnunni og á öðrum vígstöðvum vegna þreytu. En já já, eigum við ekki bara að halda í bjartsýnina og vona hið besta.

Valur var í dugnaðarkasti í dag. Fór með helling af rusli uppá gámasvæði + í endurvinnslu, auk þess sem hann þvoði bílinn. Svo heyrði ég aðeins í Guðbjörgu svilkonu minni í síma, og spjallaði við Önnu systur á Skype, og það var virkilega gaman að heyra í þeim báðum tveimur.

Núna mallar indverskur réttur í pottinum og rétt strax þarf að fara að sækja Ísak niður í skóla, en rútan hans fer að renna inn í bæinn. Birta gamla sefur á þykkum púða hér á rúminu fyrir aftan mig, hún eltir mann milli herbergja, vill vera þar sem fólkið er. Svo lífið gengur sinn vanagang eins og sjá má.

laugardagur, 20. október 2012

Hvenær er fólk miðaldra?


Á síðasta fundi í ljósmyndaklúbbnum barst það í tal hvenær fólk yrði miðaldra, þ.e.a.s. á hvaða aldri telst manneskja vera orðin miðaldra. Og áður en lengra er haldið - Já, við ÁLFkonur tölum um margt annað en ljósmyndun þegar við hittumst...

Ég man ekki ástæðuna fyrir því að þetta barst í tal, en þetta er athyglisvert umhugsunarefni.  Er maður miðaldra þegar maður hefur lifað helming þess tíma sem maður getur vænst þess að lifa, samkvæmt tölum um meðal-langlífi Íslendinga? Ef svo er, þá eru Íslendingar miðaldra um fertugt. Eða er maður miðaldra þegar maður hefur lifað í hálfa öld? Eða - er fólk miðaldra þegar það upplifir sig miðaldra? Er þetta spurning um skynjun, fremur en harðar staðreyndir?

Samkvæmt orðabók Merriam-Webster þá er fólk miðaldra á aldursbilinu 45-60 ára. Hins vegar sýndi könnun sem gerð var í Bretlandi að þar í landi upplifði fólk sig fyrst miðaldra um 55 ára aldur. Þarna var það huglægt mat þátttakenda sem var skoðað. Líklega upplifum við okkur seinna miðaldra nú á dögum, þegar meðalaldur fer hækkandi og flest fólk heldur heilsu mun lengur en fólk gerði hér áður fyrr.

Hm, ég veit það ekki, kannski vil ég bara ekki horfast í augu við það að ég "stelpan" sé nú þegar komin í hóp miðaldra fólks. Ekki að það sé neitt að skammast sín fyrir. Samt finnst mér sennilega að orðið "miðaldra" feli í sér að nú sé farið að síga á seinni hlutann hjá manni, og ég er ekki tilbúin til þess ennþá held ég.

Engu að síður tala staðreyndirnar sínu máli. Yngsta barnið komið í annan bekk í framhaldsskóla og brátt verðum við Valur ein eftir í kotinu. Líklegast eftir 3 til 5 ár í mesta lagi. Einu skeiði í lífinu að ljúka og annað sem tekur brátt við.

Það er nokkuð ljóst að með hækkandi aldri breytast hlutverk okkar. Það eru aðrar ástæður fyrir því að fara á fætur á morgnana. Engin ung börn sem kalla endalaust á athygli, ekki sama þörfin fyrir að sanna sig í námi eða starfi. Því fylgir sú áskorun að finna sér farveg, halda áfram að lifa lífinu lifandi en staðna ekki í vana hversdagsins.

En því er ekki að neita að hjón t.d. þurfa að passa uppá sambandið þegar hlutverkin breytast, börnin eru flutt að heiman og eru ekki lengur miðpunktur athyglinnar á heimilinu.

Við Valur fórum  að sjá myndina Hope Springs í gærkvöldi, en hún fjallar um MIÐALDRA hjón sem leita til hjónabandsráðgjafa, að frumkvæði konunnar sem saknar þess sem þau áttu áður saman. Þetta var ágætis mynd að mörgu leyti og hún var nokkuð fyndin á köflum. Þó hefði verið hægt að gera enn betri mynd hefði handritið verið betra, því leikurinn var góður. Engu að síður sýndi myndin ýmsar gildrur sem auðvelt er að falla í þegar hjónabandið er komið í vítahring vanans. Hjónin hrædd við að "rugga bátnum" og halda þess vegna í siði og venjur sem eru í raun ekki að virka. Fyrir hvorugt þeirra.

En þrátt fyrir hugsanlegar hjónabands- og aðrar lífskrísur, er margt gott sem fylgir því að eldast. Maður verður öruggari með sjálfan sig, veit betur hvað maður vill og vill ekki, og lætur umhverfið síður hafa áhrif á skoðanir sínar og viðhorf. Ýmis konar komplexar sem ungt fólk á við að stríða hafa lotið í lægra haldi fyrir uppsafnaðri visku og auknum þroska.

Hvað sjálfa mig snertir, þá hef ég þá skoðun (og vona að hún sé rétt) að ég sé svona "late bloomer". Það er að segja, að ég eigi bara eftir að batna eftir því sem ég eldist, og öðlist með aldrinum hugrekki til að láta þá drauma rætast sem ég þorði ekki að eltast við þegar ég var yngri :-)

Jamm og jæja, þetta voru pælingar dagsins í boði Guðnýjar, sem fagnaði sigri yfir kvefpestinni of snemma, og er slöpp/veik heima aðra helgina í röð.



P.S. Myndin sýnir bláklukkur í Mjóafirði, í lok júlímánaðar.

mánudagur, 15. október 2012

Öll að koma til



Það er nú einu sinni svo, að þegar maður vælir um kvef fyrir framan alþjóð (eða alla þessa fimm sem lesa bloggið mitt...) þá tel ég mér skylt að upplýsa um framgang málsins.

Það er mér sönn gleði að segja frá því að ég var ótrúlega hress framan af degi í dag. Ekkert hor-rennsli, engir verkir í augum, enginn höfuðverkur. Það dró nú reyndar af mér eftir því sem leið á daginn og ég var orðin fremur framlág þegar ég kom heim úr vinnunni um hálf fjögur leytið. En engu að síður var ég mjög ánægð með að hafa þó átt svona góðan tíma fram að því.

Annars var þetta fremur tíðindalítill dagur. Fáir viðskiptavinir sem komu í Potta og prik, enda er október með afbrigðum rólegur mánuður. Við Sunna vorum aðeins að kíkja á vörur og ákveða varðandi pantanir, enda styttist verulega í jólatraffíkina. Úff, ég fæ nú eiginlega smá sting í magann þegar ég hugsa um það, því eins skemmtilegt og það er, þá er það líka sá tími sem er hvað erfiðastur fyrir mig.

Þegar heim var komið hékk ég aðallega í tölvunni, enda ekki með orku í að gera neitt annað. Eitt af því sem konan er farin að gera á gamals aldri er að leika sér í "tölvuleikjum". Þessir leikir eru reyndar sérstaklega hannaðir með það í huga að þjálfa heilann á ýmsan hátt. Þá má finna inni á síðunni Lumosity.com en leikirnir eru m.a. hannaðir af vísindamönnum á sviði taugalíffræði, svo þetta er alvöru... ;-) Og ég er ekki frá því að ég sé þegar farin að sjá smá árangur af þessum æfingum. Aðgangurinn kostar tæpa 80 dollara á ári, eða ríflega 800 krónur á mánuði, sem er nú ekki mikið ef þetta skilar árangri í skarpari heila.

Svo er ég líka pínulítið upptekin af því að skoða tískublogg þessa dagana. Veit ekki alveg hvaðan þessi skyndilegi áhugi minn á tísku dúkkaði upp, en við erum sem sagt ekki að tala um hátískuna, heldur bara fatnað venjulegra kvenna. Þá kemur Pinterest sterkt inn. Þar set ég inn myndir af fötum og fatasamsetningum sem mér finnast flottar, á mína Pinterest síðu, og get svo skoðað það síðar meir til að fá innblástur.

Myndin sem fylgir þessari bloggfærslu er tekin í glugga Gamla Kaupfélagsins á Breiðdalsvík. Þar er núna safn, en húsið hefur verið endurbyggt af miklum myndarskap, í samráði við Húsafriðunarnefnd ríkisins.


P.S. Ég held annars að ástæðan fyrir þessum aukna tískuáhuga sé að hluta til sú, að ég er aðeins að vakna til lífsins aftur, eftir afskaplega langt þreytutímabil.

sunnudagur, 14. október 2012

Haust


Mér hefur sennilega tekist að krækja mér í einhverja pesti þarna í útlandinu. Að minnsta kosti var ég komin með hálsbólgu seinni part miðvikudags, verri á fimmtudaginn og á föstudag var það haus fullur af hori... Ótrúlega spennandi, eða þannig. Ég var nú í vinnunni og þurfti m.a. að biðja einn viðskiptavin að hafa mig afsakaða meðan ég fór að snýta mér. Þá var ég búin að sjúga árangurslaust upp í nefið og fann að horið var farið að leka... oj bara, þvílík lýsing. Er kannski að ýkja þetta aðeins en ekki mikið.

Helgin hefur því að mestu farið í hvíld hjá mér. Í gær fór ég samt með Ísak að kaupa buxur af því það var 30% afsláttur í Levi's búðinni og hann átti sem sagt bara einar passandi gallabuxur. Þar sem hann er að fara með skólanum til Reykjavíkur um næstu helgi fannst móður hans að hann þyrfti nauðsynlega að eiga buxur til skiptanna ef eitthvað kæmi uppá. Fatakaup eru hins vegar ekki í miklu uppáhaldi hjá honum en hann lét sig hafa það í þetta sinn.

Eftir að hafa farið heim aftur, snýtt mér og slappað aðeins af, fór ég reyndar út aftur. Í þetta sinn til að kíkja á LEE gallabuxur sem voru með 20% afslætti. Það er endalaust gallabuxnavesen á mér. Ég keypti mér buxur á útsölu í Benetton í sumar, en ákvað að taka þær frekar þröngar af því ég lendi svo oft í því að buxur víkka og verða alltof stórar eftir fyrstu notkun. Þá gerðist það auðvitað næst að ég fitnaði ... og Benetton buxurnar eru orðnar alltof þröngar í strenginn.

Auðvitað hefði verið fjárhagslega hagkvæmara að grenna sig bara aftur - en það er eiginlega hægara sagt en gert. Sérstaklega þar sem kolvetnafíknin er alveg að fara með mig þessa dagana. Ég hef reynt að taka mig á en það gengur illa. Svo er ég jú heldur ekki feit, það er víst nokkuð langt í það hjá mér. En samt, ég þarf að koma mér upp úr þessu kolvetnaáti því mér líður betur orkulega séð ef ég er laus við "upp-og-niður-sveiflurnar" sem því fylgir.

Í dag fór ég nánast ekkert út úr húsi. Er samt að mestu laus við hálsbólgu og hor, en bara alveg hræðilega slöpp. Svaf samt til að verða tíu í morgun. Eina ferðin mín út, var þegar ég fór út í garð um miðjan daginn í dag, og smellti af nokkrum mis-heppnuðum myndum.

Að öðru leyti hékk ég alltof mikið í tölvunni (hvernig væri nú að ég héldi frekar áfram að prjóna peysuna mína?) og dundaði mér m.a. við að útbúa þessa undirskrift sem hér má sjá. Ekki þar fyrir, þetta er náttúrulega ekki einu sinni mín eigin skrift (eða hrafnaspark eins og undirskriftin mín er), en mér finnst þetta samt pínu flott. Persónulegra einhvern veginn. Æ, ég veit það samt ekki, svo kannski finnst mér þetta ekkert flott á morgun, hehe.

laugardagur, 13. október 2012

Fínasta Danmerkurferð að baki

þar sem allt gekk samkvæmt áætlun. Við flugum suður á þriðjudagskvöldi og tókum svo rútu til Keflavíkur, þar sem við gistum hjá mömmu og Ásgrími um nóttina. Flugið til Kaupmannahafnar var ekki fyrr en kl. 13 svo við gátum sofið frameftir og borðað morgunmat með mömmu og þeim í rólegheitum áður en við fórum upp á flugvöll. Það er ótrúlega mikill munur að þurfa ekki að vakna kl. fjögur að nóttu fyrir flug.

Við komum til Kaupmannahafnar um hálf sjö að dönskum tíma og tókum lest frá flugvellinum, að Österport lestarstöðinni, en þar kom Hrefna á móti okkur með regnhlífar því það hafði verið ausandi rigning skömmu áður. Það er ca. tíu mínútna gangur frá lestarstöðinni heim til hennar, en hún býr á stúdentagarði sem heitir Nordisk Kollegium. Hrefna var búin að elda flottan mat handa okkur og við sátum heillengi og borðuðum og spjölluðum, ásamt Egil kærastanum hennar. Svo fengum við herbergið hennar lánað en hún gisti í Egils herbergi á næstu hæð fyrir neðan. 

Á fimmtudeginum vorum við Valur aðallega að slæpast um í miðborginni, á meðan Hrefna og Egil voru í vinnunni. Valur var að leita að verslun sem seldi Fjellreven buxur og við fórum í einar fjórar slíkar án þess að finna réttu buxurnar. Svo auðvitað kíktum við á kaffihús og fengum okkur síðan að borða síðbúinn hádegismat á 42raw, sem er hráfæðisveitingastaður, en þar fást rosalega góðar avocado samlokur. Ég fékk mér reyndar lasanja í þetta skiptið sem var líka mjög gott. Um kvöldið fórum við svo út að borða á indverskan veitingastað með Hrefnu og Egil. Það var líka mjög gaman og vel heppnað. 

Á föstudagsmorgni þegar við vorum nýlega búin að borða morgunmat hringdi síminn minn. Það var Anna systir, en hún og Kjell-Einar höfðu tekið ferju frá Noregi kvöldið áður og voru nýlega komin í höfn. Þau kíktu aðeins á okkur og keyrðu svo mig, Val og Hrefnu í enn eina útivistarverslunina, áður en þau héldu áfram för sinni til Palla bróður á Jótlandi. Í þessari verslun fengust loks réttu Fjellreven buxurnar og ég fékk meira að segja á mig buxur líka. Ég var mjög ánægð með það, því útivistarbuxurnar sem ég á eru alltof stórar á mig.

Við fengum okkur aftur að borða hádegismat á hráfæðisstaðnum en þar sem það var farið að hellirigna, og við vorum ekki almennilega klædd fyrir rigningu, fórum við næst í stóra verslunarmiðstöð í útjaðri borgarinnar. Þar kíkti ég í H&M en gekk hálf illa að finna eitthvað spennandi á mig. Það er eiginlega of mikið af fötum úr lélegum efnum, og erfitt og tímafrekt að finna eitthvað sem er ódýrt en nokkuð vandað. Ég keypti nú samt tvö pils, kjól og sokkabuxur svo ekki fór ég tómhent út. Til að kóróna kaupæðið, keypti ég svo nýja spariskó til að vera í í brúðkaupinu. Ég hafði reyndar tekið með mér skó en þeir eru eiginlega alltof litlir á mig, enda skildi ég þá eftir hjá Hrefnu þegar ég fór, þar sem hún notar númeri minna af skóm en ég. 

Á meðan ég var að máta skó fóru Hrefna og Valur og keyptu í kvöldmatinn. Nautasteikur, rauðvín og grænmeti. Svo sáu þau í sameiningu um að elda matinn á meðan ég bara sat á mínum lata rassi og kíkti á facebook og svona. Eftir matinn pökkuðum við Hrefna inn gjöfinni til Palla og Sanne, og svo fórum við frekar snemma að sofa. Það var að minnsta kosti meiningin, en ég hef sennilega verið í einhverju stresskasti og var illt í maganum og svaf fremur illa um nóttina. 

Laugardagur rann upp nokkuð bjartur og fagur. Við Valur, Hrefna og Egil tókum lest til Jótlands þar sem Palli býr. Lestin var ekki nema ríflega tvo og hálfan tíma á leiðinni, enda hraðlest sem stoppaði sjaldan. Klukkan var hálf eitt þegar við komum til Skanderborg. Þar tók Kjell-Einar á móti okkur og ók okkur heim í hús til Palla og þeirra. Tja, eða réttara sagt á gistiheimilið sem Sanne rekur sem nokkurs konar aukabúgrein. Þar fengum við að borða og Palli kom síðan og heilsaði uppá okkur en Sanne var að undirbúa sig fyrir giftinguna og við sáum hana ekki fyrr en í kirkjunni. Hins vegar komu líka Sara og Anna dætur Palla, ásamt kærasta Söru. Já og Bjarni sonur Palla. Það var gaman að hitta þau öll. Næst á dagskrá var svo að fara í sparifötin og drífa sig í kirkjuna. 


Þarna er Anna dóttir Palla, og Sara fyrir aftan hana. Hrefna og Anna systir mín.


Sara, Anna og Hrefna.


Hrefna og Egil í sparidressinu :-)


Undirrituð ásamt eiginmanni.


Bjarni sonur Palla, ásamt pabba sínum og verðandi brúðguma. Hm, hvar á nú eiginlega að festa þetta blóm??



Brúðkaupið var í lítilli sveitakirkju örskammt frá heimili þeirra. Athöfnin gekk snuðrulaust fyrir sig og þau játuðust hvort öðru eins og lög gera ráð fyrir ;-) 




Það var föðursystir Sanne sem hannaði og saumaði brúðarkjólinn, en hún er menntaður fatahönnuður. Eins og sjá má var þetta afskaplega fallegur kjóll, jafnt af framan sem aftan.


Búið að gefa brúðhjónin saman og presturinn horfir á eftir þeim út í lífið.



Amma brúðarinnar óskar til hamingju.


Smá uppstilling í kirkjudyrunum fyrir ljósmyndarana.



Eftir athöfnina óku brúðhjónin á brott í hestvagni en við hin ókum hefðbundnari farartækjum í salinn þar sem veislan var haldin.




Enn ein uppstilling fyrir myndatökur, í þetta sinn fyrir utan veislusalinn.



Hrefna, Egil og systir brúðarinnar skoða hestana sem drógu vagninn.


 Næst var boðið uppá brúðartertu og freyðivín. Brúðhjónin skiptust á að gefa hvort öðru köku að smakka og brugðu aðeins á leik af því tilefni.




Eftir að allir höfðu fengið köku og drykk, stungu hin nýgiftu af til að fara í myndatöku ásamt börnunum sínum öllum sjö.

Þegar þau komu aftur tóku þau upp gjafirnar en síðan hófst heljarinnar veisla með forrétt, aðalrétt og eftirrétt, þar sem hver rétturinn var öðrum ljúffengari.



Kjell-Einar horfir á mig íbygginn á svip. Verst að ég man ómögulega hvað við vorum að ræða um þarna...


 Faðir brúðarinnar að halda ræðu. Móðir brúðarinnar situr honum til hægri handar, en konan í græna pilsinu er föðursystirin sem hannaði brúðarkjólinn.


Kjell-Einar eitthvað að spauga í Önnu systur.


Í Danmörku er sá siður að brúðhjónin flytja ræðu til hvors annars. Hér er Sanne að hlusta á ræðu Palla.



Og hér flytur Sanne sína ræðu. Ræður þeirra beggja voru mjög hjartnæmar og tár komu í augu þónokkurra veislugesta við að hlusta.


Sara dóttir Palla og Emma dóttir Sanne.


Hér er kærastinn hennar Söru kominn með á myndina.


Og Egil og Hrefna.




Fyrirfram hafði ég ekki leitt hugann að ræðuhöldum, en fannst svo að einhver yrði að tala fyrir hönd fjölskyldu Palla, og kastaði mér því í djúpu laugina ... og sagði nokkur orð, nánast óundirbúin. Tókst nú að gleyma því sem ég ætlaði að segja þar sem ég fraus í miðri ræðu, en klóraði mig  fram úr þessu svona nokkurn veginn skammlaust. 

Um miðnættið dönsuðu Palli og Sanne brúðarvalsinn, og eftir það var spilað fyrir dansi. Þetta var orðinn langur dagur og við fórum fljótlega heim í hús ásamt Önnu og Kjell-Einari, en Hrefna og þau voru eitthvað lengur. 




Á sunnudagsmorgni var svo heljarinnar sameiginlegur morgunverður í gistiheimilinu. Að því loknu voru teknar myndir af okkur systkinunum saman, (mér, Palla og Önnu) en svo var komið að kveðjustund. 

Við Valur ókum  til Kaupmannahafnar með Önnu og Kjell-Einari en Hrefna og Egil tóku lestina. Við vorum nú reyndar lengur á leiðinni því það tók svo langan tíma að keyra í gegnum Kaupmannahöfn, en það er nú önnur saga. Svo fóru Anna og þau í ferjuna um þrjúleytið. Síðar um daginn fóru svo Hrefna og Valur út í hjóltúr en ég var búin að klára alla mína orku og rúmlega það, og var bara heima á meðan. Um kvöldið fórum við á Wok-veitingastað í fimm mínútna göngufæri, og fengum þar hinn fínasta mat.

Mánudagur var heimferðardagur. Vélin okkar fór þó ekki fyrr en kl. 14 og við skruppum í búð og keyptum skó handa Andra í leiðinni á flugvöllinn. Það er alltaf pínu erfitt að velja gjafir handa öðrum en hjálpaði þó að þeir feðgar nota nokkurn veginn sömu skóstærð. Flugið heim gekk vel en varði þó hálftíma lengur en flugið út, sökum mótvinds. Svo var það bara venjulega rútínan, þ.e.a.s flugrútan inn til Reykjavíkur, rúmlega klukkutíma bið á flugvellinum og svo flug norður til Akureyrar. Ég var nú orðin býsna framlág þegar við komum loks heim en fegin hvað allt hafði gengið vel. Ennþá fegnari því að hafa skipt um vakt við Önnu sem vinnur hjá okkur, þannig að ég gat verið í fríi daginn eftir. Enda veitti ekki af því, ég var gjörsamlega búin á því eftir ferðina. En ánægð samt með að hafa farið.

P.S. Ferðasagan er hér skrifuð til gamans, og fremur margar myndir birtar, en það er fyrir mömmu sem treysti sér ekki í ferðalög til útlanda. Og svo það sé nú alveg á hreinu, þá var það Valur sem tók nánast allar myndirnar.