sunnudagur, 9. mars 2008

Erfitt líf þetta kattalíf...

Þau gera lítið annað þessa dagana en sofa, éta og rölta á milli herbergja. Hm, og skyggja á tölvuskjáinn fyrir mér (það er Máni sem sér um þá deildina "as we speak"). Ég hef ekki haft það jafn náðugt og kettirnir þessa helgina. Yngriflokkaráð KA hélt Greifamótið í knattspyrnu frá föstudegi til sunnudags og eins og alltaf þá eru það foreldrarnir sem draga vagninn í sjálfboðavinnu. Í gær og í dag sá ég um að gefa hungruðum fótboltadrengjum hádegismat og eftir matinn í dag þurfti líka að ganga frá og þrífa svo starfsfólk Glerárskóla kæmi að öllu hreinu og fínu þegar það mætir til vinnu á morgun. Ég tel það reyndar ekkert eftir mér að taka þátt í þessu og það er voða gaman að umgangast þessa prúðu og flottu stráka sem voru á mótinu.

Seinnipartinn á föstudag var formleg opnun Læknastofa Akureyrar og þangað mætti ég að sjálfsögðu til að samgleðjast eiginmanninum og hans samstarfsfólki. Þar hitti ég líka Friðu maraþonhlaupara og bloggara og hafði gaman af. Til að kóróna annasama helgi fórum við Valur svo í bíó í kvöld og nú verð ég að viðurkenna að ég hlakka ógurlega til að komast í háttinn - held barasta að ég láti þetta gott heita og fari að bursta tennurnar ;-)

Engin ummæli: