miðvikudagur, 6. júlí 2005

Veikindi

í fjölskyldunni hafa valdið því að bloggskrif hafa ekki verið efst á forgangslistanum í dag og í gær. Verð samt að segja frá því að eftir að hafa samviskusamlega notað gleraugun í tvo daga steingleymdi ég að setja þau á mig í morgun. Ekki alveg orðin vön því að vera með þau. Nema hvað, eftir tveggja tíma tölvuvinnu var ég að drepast í augunum þannig að það er ljóst að þau eru aldeilis að virka - sem er auðvitað hið besta mál. Ég þarf bara að venjast því að hafa þau á nefinu, finnst ég alltaf vera með einhvern aðskotahlut framan í mér.

Flestir sem að mér standa vita að Hrefna var lögð inn á sjúkrahús í gærmorgun með alvarlegar hjartsláttartruflanir. Líklega er þetta blogg alveg eins góð leið til að flytja fréttir af henni eins og hver önnur. Það er sem sagt tvennt sem er að plaga hana, alltof hraður hjartsláttur (fer yfir 240 og allt upp í 300, a.m.k. einu sinni) og svo hættir hjartað alveg að slá annað slagið í 3-4 sek. en það gerist aðallega á nóttunni. Verið er að reyna að ná tökum á hjartslættinum með lyfjagjöf en það virðist því miður ekki ganga of vel. Næsta skref yrði þá að hún færi í hjartaþræðingu (lífeðlisfræðilega rannsókn á hjartanu) þar sem reynt yrði að finna út úr því hvaða leiðslutruflanir eru í gangi og vonandi yrði hægt að brenna fyrir leiðsluna/æðina sem er að valda þessum óskunda. En deildin í Reykjavík sem annast þessar aðgerðir er lokuð vegna sumarleyfa. Þannig að vonandi fer nú lyfið að verka betur.

En hún hefur a.m.k. fótaferð svo þetta er ekki alslæmt... henni leiðist nú samt alveg hrikalega enda í fyrsta skipti á ævinni sem hún liggur á sjúkrahúsi. Svo er hún tengd við hjartarita sem pípir inni á vaktinni í hvert sinn sem hún fer upp fyrir ákveðna tölu og það gerist mjög oft, þannig að þá koma hjúkrunarfræðingarnir hlaupandi til að athuga hvort ekki sé í lagi með hana og henni finnst hún undir stöðugu eftirliti... sem hún náttúrulega er. En nú á að auka skammtinn af þessu lyfi sem hún fær svo maður vonar það besta ;-)

Engin ummæli: