laugardagur, 9. júlí 2005

Hrefna komin heim

af sjúkrahúsinu, Valur farinn í veiði, Ísak gistir hjá vini sínum, Andri er í tölvunni og ég er í letikasti. Hið sama má reyndar segja um kettina þannig að ég er í ágætis félagsskap. Bjó til pítsu í kvöldmatinn með smá aðstoð frá Andra sem hefur fengið einhver kokkagen frá föður sínum og er búinn að velja bæði matreiðslu og bakstur í skólanum næsta vetur. Ætlaði að láta það eftir mér að liggja í leti í dag og fór á bókasafnið til að fá mér blöð og bækur til að fullkomna letidaginn en kom að lokuðum dyrum. Lét það ekki aftra mér og lagðist þá bara upp í rúm í staðinn og steinsofnaði í klukkutíma eða svo. Fór svo og þvoði bílinn en það + pítsugerðin + sundferð er það eina sem ég hef gert af viti í dag. Verð að vera duglegri á morgun og fá Andra með mér í að skrapa af veggfóðrið á baðinu svo þetta verði tilbúið undir flísalagningu þegar múrarinn má vera að því að koma.

Valur fékk heimsókn í dag, skömmu eftir að hann var farinn af stað í veiðina, er þetta ekki dæmigert? En gesturinn var jafnvel að spá í að heimsækja hann þá bara í veiðina í staðinn - og vonandi gerir hann það. Ég veit að Valur yrði spældur að missa alveg af honum, enda gesturinn langt að kominn eða alla leið frá Minnesota.

Hrefna er sem sagt komin heim og þarf að taka lífinu með ró þar til hún fer í hjartaþræðinguna. Engin vinna, engin leikfimi en hún má fara í rólega göngutúra - og láta strax vita ef hjartslátturinn fer að hækka aftur. Vonandi gerist það ekki.

Jæja, ætla að kíkja á "The girl in the café" sem mér skilst að sé tekin upp hér á landi.

Engin ummæli: