Svo fór ég í fyrrahaust í sjónmælingu hjá sjóntækjafræðingnum á Glerártorgi og viti menn - hún mældi hjá mér einhverja (smá) nærsýni á öðru auga og svo sjónskekkju. Þrátt fyrir þessa vitneskju þráaðist ég við, fannst ég ekki þurfa gleraugu, ég sem hef alltaf séð svo vel. Hélt bara áfram með mína augnþreytu og verki. Alveg þar til fyrir 2-3 vikum síðan þegar Bergþóra (sem ég er að vinna með)sá mig vera stöðugt að nudda augun og vöðvana í kringum augun og spurði (frekar hvössum rómi) af hverju ég fengi mér ekki gleraugu. Það var fátt um svör og í lok þeirrar sömu viku fór ég á stúfana að leita mér að gleraugnaumgjörðum.
Sú leit gekk nú ekkert alltof vel. Mér fannst ég eins og furðufugl með flestar umgjarðir en á endanum fékk ég 7 mismunandi umgjarðir lánaðar heim yfir helgina. Val datt það snilldarráð í hug að taka myndir af mér með þær og svo gat ég skoðað á tölvuskjánum hvernig ég leit út með ólíkar umgjarðir. Einnig "böggaði" ég vini og vandamenn með fyrirspurnum um hvað færi mér best. Komst að vísu að því að persónulegur smekkur hvers og eins blandaðist óhjákvæmilega inn í þeirra mat en á endanum var þetta spurning um tvær umgjarðir. Einhverra hluta vegna var ég samt ekki alveg að "fíla" þær og skilaði öllum. Datt þá reyndar í hug að athuga í aðra verslun og sá þar í fyrstu atrennu gleraugu sem mér fundust smellpassa. Nú sit ég sem sagt með þessi sömu gleraugu og reyni að venjast þeim.Spurning hvað það tekur langan tíma að losna við sjóriðuna??
Engin ummæli:
Skrifa ummæli