En þeir frændur náðu að vinna þrekvirki daginn áður en Sigurður fór. Þannig var að á föstudeginum spurði hann hvort við gætum ekki gert eitthvað skemmtilegt, já t.d. gengið á eitthvað fjall. Ísak greip það á lofti og spurði hvort við gætum ekki gengið upp á Súlur. Hann hafði nefnilega aldrei gengið þangað upp en pabbi hans og Andri hafa farið nokkuð reglulega síðustu árin og sennilega fannst Ísak að hann gæti nú ekki verið minni en þeir að þessu leyti. Ég hef reyndar ekki gengið á Súlur síðan ég var 14 ára og er ekki viss um að ég hefði farið ef einhver annar hefði spurt mig. Hugsaði sem svo að 10 og 11 ára strákar myndu fara sér svo hægt að ég hlyti að eiga roð í þá. Hafði rétt fyrir mér að því leytinu, þeir stoppuðu ótal sinnum til að skoða steina, kasta grjóti, drekka úr lækjarsprænum, rannsaka skordýr og blóm o.s.frv. Þannig að við röltum þetta í rólegheitum og ekkert uppgjafarhljóð var í þeim þrátt fyrir að gangan tæki svolítið á, sérstaklega í urðinni. Já upp komumst við og hringdum m.a. til Noregs af toppnum til að Sigurður gæti montað sig af því að hafa gengið upp á 1144 m. hátt fjall á Íslandi.
Ég viðurkenni að það var mun erfiðara að ganga niður og tók hressilega í hnén á mér og einnig voru ökklarnir farnir að kvarta. En eftir heitt bað og góðan nætursvefn var ég nærri því eins og ný og ekkert nema smá strengir í lærunum í dag bera vitni um gönguna. Því miður gleymdi ég myndavélinni heima svo engar hef ég nú myndirnar til að hafa með þessari frásögn :-(
Engin ummæli:
Skrifa ummæli