Í morgun fór ég í hvítar buxur sem ég keypti mér í sumar. Ég hef ekki átt hvítar buxur síðan á unglingsárum og datt aldrei í hug að kaupa buxur í þeim lit meðan börnin voru lítil því ég var viss um að þau myndu alltaf káma mig alla út. Nema hvað, ég ákvað að vera sumarleg og sæt í dag í sólinni og fór því í hvítu buxunum í vinnuna. Tók reyndar eftir því þegar ég kom þangað að ég hafði ekki látið nægja að setja meik framan í mig, heldur var smá sletta á buxunum. Náði henni úr að mestu leyti og var góð alveg fram að hádegi. Þá fór ég að keyra Val á stofuna og þegar ég kom aftur hafði mér á óútskýranlegan hátt tekist að setja smurningu í buxurnar. Reyndar bara smá en samt voru þetta tveir blettir sem sáust vel Eitthvað kám var líka komið á hægra lærið.
Það fyrsta sem ég gerði þegar ég kom heim úr vinnunni var að skella buxunum í þvottavélina eftir að hafa úðað blettahreinsi á þær. Var svo í stuttbuxum úti í garði en skipti fyrir matinn og fór í hreinar buxur. Viti menn, þegar ég var að ganga frá eftir matinn þá missti ég dós með tómatsósu á gólfið og það skipti engum togum að sósan slettist út um allt og þar af fór slatti á buxurnar mínar. Sem "by the wy" fóru beinustu leið í þvottavélina...
Jæja, eftir matinn fóru Valur og Andri í bíó en ég ákvað að fara út að hjóla í góða veðrinu. Fór í þunnan jakka utan yfir mig (sem var tandurhreinn, ég hafði ekki notað hann frá síðasta þvotti) og hjólaði góðan hring. Þegar nær dró heimilinu var ég orðin svo þyrst að ég stoppaði á vídeóleigu og keypti mér eplasafa. Nennti ekki að bíða meðan ég kláraði hann og hjólaði af stað með safann í hægri hendinni . Stuttu seinna þurfti ég að bremsa snögglega (með handbremsunni að sjálfsögðu) og - kemur á óvart - eplasafinn kreistist úr fernunni og sprautaðist yfir vinstri handlegginn á mér...... Hvernig er þetta hægt??
P.S. Þetta er það sem Valur kallar kellingablogg (svona kjaftavaðall - en það verður bara að hafa það ;-)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli