föstudagur, 29. júlí 2005

Stundum hringir

Ísak í mig í vinnuna og spyr um hitt og þetta, hvort hann megi poppa, hvort hann megi fá sér Sunlolly o.s.frv. Í dag hringdi hann til að tilkynna að hann væri að fara með vinum sínum í sundlaugargarðinn en þar eru skemmtileg leiktæki fyrir krakka. Af því þetta var um hádegisbilið spurði ég hann hvort hann væri búinn að borða eitthvað en það var hann ekki. Ég setti það sem skilyrði að hann yrði að borða fyrst. Þá kom hann með krók á móti bragði og spurði hvort hann mætti ekki bara taka með sér nesti. Það fannst mér góð hugmynd hjá honum og sagði að það væri alveg upplagt. Var svo sem ekki mikið að velta því fyrir mér hvaða nesti hann færi með, kannski kex og safa eða engjaþykkni. Seint í dag rak ég svo augun í bakpokann sem hann hafði farið með í Sundlaugargarðinn og fann að hann var frekar þungur. Opnaði pokann og viti menn - í honum fann ég glerkrukku með súkkulaðiáleggi, borðhníf, tóman kexpakka og vatnsflösku. Þá hafði Ísak sótt sér brauð í frysti og tekið með sér + súkkulaðiáleggið til að smyrja á brauðið. Mér fannst þetta eitthvað svo bráðfyndið að ég fór að skellihlægja - en var jafnframt ánægð með það hvað hann var duglegur að bjarga sér ;O)

En annars er ég komin í sumarfrí og Valur kemst í frí eftir helgi. Þannig að nú er bara að fara að plana hvað á að gera í fríinu.. við eigum t.d. alveg eftir að fara á Vestfirði en miðað við hvað við höfum stuttan tíma til ferðalaga þá verður það víst takmarkað sem við komumst yfir að gera. Það er þó alveg bráðnauðsynlegt að koma sér eitthvað burt úr bænum.

Engin ummæli: