Það er í tísku í kringum mig þessa dagana að kaupa sér nýjan bíl. Bæði Hrefna dóttir mín og Þóra móðir mín eru búnar að fjárfesta í nýjum (gömlum) bílum. Mamma sem er búin að keyra Skoda í áratug a.m.k. (mér liggur við að segja síðan ég man eftir mér en það er nú ekki alveg svo slæmt) breytti um og keypti Suzuki smájeppa en Hrefna keypti Toyota Yaris. Nú langar mig líka í nýjan bíl :-( Er samt mjög ánægð með jeppann, það er ekki málið. Hann var samt farinn að framleiða alls kyns (ó)hljóð í akstrinum svo ég fór með hann á verkstæði og kvartaði undan því að það ískraði í honum eins og gömlu hjónarúmi. Ég hélt að þetta væri allavega smá fyndið en það fannst verkstæðisformanninum greinilega ekki því honum stökk ekki bros á vör. Svo kvartaði ég líka undan því að það ískraði í bremsunum og hann skrifaði það samviskusamlega niður - en viti menn það ískrar ennþá í þeim eftir viðgerð. Ég er svei mér þá að hugsa um að kvarta og kveina yfir þessu við formanninn.
Kosturinn við að hafa bíl á verkstæði (nú eða í Mývatnssveit sem farkostur míns kæra eiginmanns sem þar er staddur núna) er sá að fæturnir mínir sem flesta daga eru mikið til ónotaðir fá loksins að spreyta sig á malbikinu. Og það er gott að ganga. Í gær gekk ég frá Toyota verkstæðinu og í vinnuna, úr vinnuni og heim og af hárgreiðslustofu á verkstæðið. Fannst ég rosa dugleg. Í dag gekk ég reyndar bara úr vinnunni en morgundagurinn lofar góðu. Er búin að ákveða að fara í sund í fyrramálið (gangandi að sjálfsögðu) og svo í bæinn. Það er Akureyrarvaka á morgun en ég ætlaði nú bara í bæinn að skoða föt (ótrúlega ómenningarleg eitthvað þessa stundina). Er nefnilega að fara í fertugsafmæli á morgun til Margrétar Steinnunnar Thorarensen og á við aldagamalt vandamál kvenna að stríða: "Á ekkert til að fara í".
Læt hér við sitja og fer að sinna móðurhlutverkinu. Sækja Ísak út á fótboltavöll og draga hann í háttinn svo hann verði hress og sprækur í fyrramálið.
1 ummæli:
Gudny ! Thu veizt ad konur eiga ekkert ad vera ad spá í bíla !! Bara vesen.
Heyrdu, thessar veidiferdir hans Vals, ekkert skrítid ad thad ískri í jeppanum, (og í rúminu !!!!) ertu ad fatta hvad ég er ad fara ??
Kemur hann kannski heim med reyktan lax líka ? Ég thekki svona menn.
Jæja, sér madur ykkur ekki á Van Morrison tónleikunum 2 okt í höllinni ???
Skrifa ummæli