sunnudagur, 8. ágúst 2004

Tiltekt

Er í algjöru tiltektarstuði (tími til kominn myndu kannski einhverjir segja). Verkefni dagsins er reyndar frekar krefjandi en það er að laga til í Ísaks herbergi. Þar eru nokkur kíló af legokubbum stráð yfir gólfið og hafa kubbarnir verið þar í nokkrar vikur, eða allt síðan byrjað var að leggja parkett á neðri hæðina og piltinum var skipað að flytja allt sitt leikfanga-hafurtask upp í herbergið sitt.
Frá og með þeim degi hefur ekki verið hægt að ganga um gólfið inni í herberginu hans og hef ég neyðst til að setja hreina þvottinn (sem með réttu hefði átt að fara í fataskápinn innst í herberginu) á endann á rúminu hans þar sem mér tókst ekki að brjóta mér leið að skápnum.
Loks datt mér það snilldarráð í hug að stinga upp á því að hann myndi bjóða einhverjum félaga sínum að gista yfir nótt - sem hann samþykkti - og viti menn, neyddist hann þá ekki sjálfur til að taka slatta af legokubbunum (nógu mikið til að hægt væri að koma fyrir dýnu á gólfinu) og setja í þar til gerðan kassa. Því miður er þó nóg eftir enn og eru kubbarnir orðnir skemmtilega blandaðir ryki og sjálfsagt örverum af ýmsu tagi. Það er mesta furða að krakkinn skuli hafa haldið heilsu þessar síðustu vikur.....

Er annars að spá í að kynna mér nánar þá lífsfílósófíu sem nefnist "Simple living" og felst m.a. í því að eiga ekki meira en þörf er á. Markmiðið er að hætta sem sagt að safna rusli og drasli sem maður ætlar að eiga svona "just in case" ef á þyrfti að halda seinna meir.... Þannig að nú er bara að bretta upp á ermarnar, tína til svörtu plastpokana og keyra allt heila klabbið í Rauða krossinn, Hjálpræðisherinn eða á haugana, allt eftir ástandi hlutanna.

Engin ummæli: