miðvikudagur, 25. ágúst 2004

Ókey, kannski fullsnemmt

að segja að það sé komið haust. Þessi hitabylgja sem var hjá okkur um daginn var náttúrulega ekki alveg marktæk. Núna er bara venjulegt íslenskt sumarveður og engin ástæða til að kvarta undan því. Valur er í sumarfríi þessa vikuna og notar tímann til að mála gluggana á húsinu. Það er ótrúlegt hvað hann er fljótur að þessu og eftir að hafa staðið í stiganum í allan dag og málað þá snaraði hann fram Pizzu Calzone fyrir fjölskylduna í kvöld. Einn hálfmáni á hvern fjölskyldumeðlim, að Ísaki undanskildum en hann fær heimatilbúnar ostabrauðstangir í staðinn. Í pítsunni minni var hellingur af hvítlauk, sterkt pepperoni, þistilhjörtu og ostur (já og pítsusósa að sjálfsögðu). NAMM!!! Ég má þakka fyrir að eiga svona snillings-kokk fyrir eiginmann því líklega værum við hin dauð úr hor ef hans nyti ekki við. Nú eða þá dauð úr ofneyslu skyndifæðis eins og sá frægi Mc-Donalds maður.
Er ekki enn búin að tína rifsberin og gera úr þeim hlaup, ætli það endi ekki með því að Valur geri það - eins og allt annað á heimilinu (enda er þetta eiginlega eldhúsdeildin og það er nú einu sinni hans deild...). En þrestirnir hafa greinilega góðan smekk fyrir rifsberjum og eru farnir að gleypa þau í sig af offorsi. Þegar ég fór út í kvöld að fá mér smá ber í munninn var lengi vel eitthvað þrusk úr runnanum og eftir langa mæðu birtist eitt stykki þröstur út úr runnanum - líklega búinn að éta yfir sig því hann var svo lengi að vappa burtu (flaug sem sagt ekki!). Ég sagði við hann "já, var það ekki, bara verið að éta rifsberin mín, það er eins gott að kettirnir mínir komi ekki og éti þig væni.... Það er reyndar ekkert nýtt að ég tali við dýrin (myndi þó seint líkja mér við Dagfinn dýralækni) en það er spurning hvort það er ekki fyrir neðan mína virðingu að vera að hóta smáfuglunum?
Úff. ég er ennþá svo södd að ég er að springa. Ætti kannski að koma mér út í göngutúr til að reyna að koma pítsunni aðeins neðar í meltingarveginn. Hef komist að því að mér finnst best að fara út að ganga á kvöldin og morgnana, loftið er einhvern veginn öðruvísi þá, get ekki útskýrt það á neinn vitrænan hátt. Jú, og það er líka meiri þögn þá, ekki þessi iðandi bílaumferð eins og á daginn.
Hér með lýkur lestri dagsins, "Guðný has left the building".

Engin ummæli: