þriðjudagur, 17. ágúst 2004

Það ætti að vera bannað

að vera svona orkulaus þegar sólin skín úti og maður ætti að vera hress og fullur orku. Því miður þá eru orkugeymarnir bara gjörsamlega tómir þessa dagana og ég nenni engu. Ekki einu sinni að blogga :0(
Helgin var samt mjög góð. Við fórum með Ísak á Króksmót (sem var að sjálfsögðu haldið á Króknum) og það var bara virkilega gaman að bætast í hóp þeirra foreldra sem fylgja börnum sínum á íþróttamót og standa á hliðarlínunni og hrópa "Áfram KA". Þetta var alveg ný upplifun fyrir okkur þar sem áhugi á íþróttum hefur hingað til verið af skornum skammti hjá okkar börnum. Þó hefur Andri reyndar æft handbolta í tvo vetur núna og hlakkar til að hefja vertíðina í ár.
Á laugardeginum svindluðum við reyndar aðeins á þessu foreldra-dæmi og skelltum okkur í ferð á Vatnsnesið. Skoðuðum Borgarvirki http://www.islandsvefurinn.is/photo2.asp?ID=484 Hvítserk http://www.nat.is/travelguide/ahugav_st_hvitserkur.htm og Hindisvík en þar er sellátur og alveg gríðarlega fallegt. Við vorum alein á þessum yndislega stað og lögðum okkur smástund í grasið og sofnuðum í sólinni (nokkuð sem skilaði sér daginn eftir með rauðu andliti og þrútnu). Komum aftur á Krókinn um kvöldmatarleytið og fórum og fengum okkur að borða á stað sem ég man ekki lengur hvað heitir (illa haldin af "alzheimer light") en maturinn þar var mjög góður. Kíktum aðeins á kvöldvöku í íþróttahúsinu þar sem Auðunn Blöndal (Auddi í PopTíVí) og Ofur-Hugi Halldórsson brugguðu ógeðisdrykki og létu börn og þjálfara drekka við mikla hamingju ungviðsins. Það vakti sérstaka lukku þegar kattamatur var settur í ógeðisdrykk þjálfaranna!
Á sunnudeginum skiluðum við foreldrahlutverkinu fullkomlega, horfðum á alla leiki sonarins og ekki spillti það ánægjunni að kapparnir unnu alla leikina. Það var því afskaplega sæll og glaður Ísak sem steinsofnaði í bílnum á leiðinni heim.

2 ummæli:

Ég sjálf sagði...

Blessuð og sæl Guðný ...og takk fyrir innlitið á síðuna mína.

Það er rétt hjá þér að ég verð að vera duglegri að blogga...dett bara í það við og við að þykjast ekkert hafa tíma í svoleiðis stúss sem er nottla bara tóm vitleysa!!!!
Bæjó...Eygló

Halur Húfubólguson sagði...

Þetta var góð ferð en staðurinn á Króknum heitir Ólafshús með skemmtilega hallærislegum innréttingum, en lúðan leyndi á sér fyrir 1600 kall með vatni. Það er ekki alltaf samband milli orku og veðurs, sjáðu bara hvernig aðrir kvarta sem eru alla daga í sólinni t.d. í Kaliforníu. Ertu búinn að ákveða þig í tölvumálunum?
Þessi skrif tóku 2 mínútur af matartímanum sem annars reyndist 7 mínútur.