sunnudagur, 22. ágúst 2004

Sunnudagar

eru stundum svolítið skrítnir dagar. Einkennast af hálfgerðri leti og manni verður lítið úr verki. Stundum dreymir mig um það að vera nær stórfjölskyldunni og þá ímynda ég mér að við færum í kaffi til hvers annars á sunnudögum og treystum fjölskylduböndin. Eða að við systurnar gætum farið í berjamó með synina. Ég hef ekki ennþá farið í berjamó og samkvæmt Mogganum í dag fer hver að verða síðastur að næla sér í ber í munninn, sultuna eða frystikistuna. Við erum með rifsberjarunna í garðinum og ég hafði nú ætlað mér að tína rifsber um helgina og gera úr þeim hlaup en helgin er að verða liðin og ekkert varð úr því. Reyndar varð mér lítið úr verki yfir höfuð, ólíkt mínum kæra eiginmanni sem fellur nánast aldrei verk úr hendi :O)
Við Bryndís vorum þó að vinna á laugardeginum og var það síðasti formlegi könnunardagur í þeim hluta rannsóknar Ferðamálaseturs Íslands sem við erum að vinna að þessa dagana. Þessi könnun hefur staðið í 18 daga og dreifðust þeir yfir sumarið, þannig að lítið varð um sumarfrí hjá okkur. Bryndís fór í eina viku til London í maí og ég í eina viku til Noregs í júní en annars höfum við verið í vinnunni. Ég geri mér grein fyrir því að þetta er ekkert einsdæmi en ég er samt orðin hálf þreytt eitthvað og hefði haft gott af smá pásu. En við erum líka með annað verkefni í takinu og þurfum að ljúka því á næstu tveimur vikum þannig að pásan verður að bíða um sinn.

Engin ummæli: