mánudagur, 31. mars 2014

Í Keflavík

Það er eiginlega frekar fyndið að ég hafði aldrei komið til Keflavíkur áður en mamma giftist Ásgrími og flutti hingað. Núna er ég farin að rata þokkalega um bæinn (OK kannski ekki sérlega flókið) og finnst þetta bara ágætis staður. Hér hefur greinilega átt sér stað heilmikil uppbygging síðustu árin /áratuginn en því miður á ennþá eftir að peppa gamla miðbæinn meira upp. Þar eru mörg húsanna orðin ansi ósjáleg og í sárri þörf fyrir endurbætur. Hins vegar er heldur betur búið að skvera þennan gamla vatnstank upp, eins og sjá má. Ég fann hann í gær þegar mig vantaði myndefni fyrir ljósmynd dagsins.

En já sem sagt... Við Valur ókum hingað suður eftir vinnu hjá honum á föstudaginn. Kíktum til mömmu um kvöldið þegar við komum, en á laugardeginum fórum við smá rúnt inn til Reykjavíkur með Andra og Freyju. Það er meiningin að kaupa úr handa Andra í útskriftargjöf og það tekur smá tíma að finna „það eina rétta“. Við stoppuðum ekki lengi í höfuðborginni því Andri átti að mæta í flug um kaffileytið. Eftir kaffi fórum við Valur svo aftur í heimsókn til mömmu en um kvöldið fórum við út að borða í Duus húsi. Í gærmorgun brunaði Valur svo aftur af stað norður, svo ekki var þetta langt stopp hjá honum en gaman samt fyrir mömmu að ná að hitta hann aðeins.  
Í dag var svo komið að útskrift hjá mömmu. Ég reyndi að sjæna íbúðina aðeins til í morgun, moppaði gólfin og þreif klósettið svo þetta yrði nú allt eins fínt og á yrði kosið þegar mamma kæmi heim. Um hálf tólf fór ég og sótti Andra sem kom með mér að sækja hana á sjúkrahúsið. Við biðum í smá stund eftir að hitta hjúkrunarfræðing en síðan fengum við hjólastól til að keyra mömmu út í bílinn. Heima á Nesvöllum beið svo Dísa og hafði fengið lánaðan hjólastól í dagvistuninni til að aka mömmu frá bílnum og upp í íbúðina. Það var ágætt að vera ekki að reyna alltof mikið á sig svona fyrsta daginn heima. Andri hjálpaði mér svo að hækka rúmið hennar mömmu upp, með því að setja dýnuna hans Ásgríms ofan á dýnuna hennar, og þá er mamma orðin eins og prinsessan á bauninni, því efst er svo eggjabakkadýna. En hún var náttúrulega búin að venjast rúminu á sjúkrahúsinu og þarf að venjast sínu rúmi uppá nýtt. Ég hringdi svo í Securitas og pantaði öryggishnapp og á von á því að maður frá þeim komi á morgun. Heimahjúkrun mun svo líka hafa samband fljótlega.  
Annars hefur þetta verið tíðindalítill dagur. Mamma náði að sofna aðeins og ég var að prjóna á meðan. Svo hringdi Anna systir á Skype og núna er ég að elda matinn. Ég reyndar klikkaði aðeins á því að mamma á ekki sama úrval af kryddum eins og við heima, svo þetta verður aðeins bragðdaufara og „öðruvísi“ spaghetti bolognese en venjulega. Já svo er ekkert spaghetti heldur ...  
Hér koma svo nokkrar svipmyndir frá laugardeginum, og ein sem Dísa tók af mér og mömmu fyrr í dag. Ég tók reyndar líka mynd af mömmu og Dísu, en brást eitthvað bogalistin í ljósmynduninni og myndin varð eiginlega ekki nógu góð til að birta hana. 









þriðjudagur, 25. mars 2014

Hvað keyptirðu fyrir peningana

sem frúin í Hamborg gaf þér í gær? 
Þessi orðaleikur var mjög vinsæll þegar ég var lítil. Sá sem spyr reynir að leiða þann sem svarar í ógöngur, þ.e.a.s fá hann til að segja bannorðin "svart, hvítt, já, nei". Ég var oft býsna ánægð með mig að hafa náð að svara nokkrum spurningum án þess að falla í gildruna, þegar sigurvissan varð til þess að í næstu andrá notaði ég óvart eitthvað af bannorðunum í svari mínu, og var þar með dottin úr leik.
Þetta var skemmtilegur leikur og hann rifjaðist upp fyrir mér núna áðan þegar ég velti eftirfarandi spurningu fyrir mér:  
Hvað gæti ég gert ef ég væri frísk og full af orku? 
Ég gæti:
  • Gert áætlanir um framtíðina
  • Verið í vinnu og einnig átt mér líf utan vinnu
  • Verið í góðu líkamlegu formi
  • Synt lengri vegalengdir og notað froskalappirnar
  • Hjálpað meira til á heimilinu
  • Farið í langar gönguferðir 
  • Unnið í garðinum á sumrin
  • Boðið heim,  t.d. vinkonum mínum og kvennaklúbbnum mínum / ljósmyndaklúbbnum
  • Haldið frænkuboð (hef aldrei gert það en held það gæti verið gaman)
  • Þrifið húsið án þess að hafa áhyggjur af afleiðingunum

Við Valur gætum:
  • Farið í fleiri ferðalög, innanlands sem utan
  • Boðið fólki heim án þess að hafa áhyggjur af því hvort ég verði „uppistandandi“ þegar að heimboðinu kemur
  • Farið oftar í leikhús, bíó, á tónleika
  • Tekið húsið í gegn (mála o.s.frv.)
  • Farið í fleiri ljósmyndaferðir
  • Farið á skíði saman
OK þetta er bara smá sýnishorn, hlutir sem komu upp í hugann svona einn-tveir-og-þrír. En já það sakar ekki að láta sig dreyma :) 
Annars má kannski færa rök fyrir því að sumt af þessu gæti ég gert, þrátt fyrir að vera ekki eins frísk og full af orku eins og mig dreymir um að vera. Svo sem að bjóða fólki heim. Það er að minnsta kosti auðveldara í dag (þegar ég er ekki í vinnu) því þá get ég hvílt mig fyrir og eftir heimboðið. 
Stóra vandamálið er samt að sökum þess hve síðustu 5 ár hafa verið erfið hjá mér, þá er komin svo mikil þreyta í okkur bæði tvö, að erfitt er að hafa sig af stað og framkvæma hluti sem eru framkvæmanlegir þrátt fyrir ástandið á frúnni. 
Kannski er þetta bara spurning um að byrja smátt, setja sér t.d. markmið um eitt heimboð á ca. 8 vikna fresti. Svona til að komast upp úr startholunum ...  
P.S. Þetta var bloggfærsla nr. 1600 - sko mig :) 

mánudagur, 24. mars 2014

Aldrei fór ég suður ...

söng Bubbi hér um árið. Heiti þessa lags kom upp í huga mér þegar ég settist niður til að blogga, enda var Öxnadalsheiðin ófær frá miðvikudagskvöldi fram á seinni part laugardags og þar af leiðandi komumst við Valur ekki suður um helgina að heimsækja mömmu. Þetta voru okkur mikil vonbrigði og erfitt eiginlega, því það er ótrúlega taugatrekkjandi að bíða í óvissu varðandi það hvort maður kemst á áfangastað eða ekki.
Sunnudagur 23. mars
Núverandi gigtarkast hjá mér hefur staðið í tvær vikur og þrátt fyrir að hafa vaknað örlítið hressari í morgun, þá var það bara í smá tíma og ég er aftur orðin eins og drusla. Það flækir málið töluvert að vera svona slöpp, en mér finnst endilega að ég verði að heimsækja mömmu eitthvað meira áður en hún kemur heim af sjúkrahúsinu. Bara verst að enginn veit hvenær það verður. Sjúkraþjálfarinn hennar talaði um hugsanlega í kringum næstu helgi, ef allt gengi vel. Ef það væri raunin þá gæti ég kannski bara farið suður á ca. miðvikudag og verið áfram, en ef ekki ... og hún á að vera lengur á sjúkrahúsinu þá gæti ég farið heim aftur í einhverja stund þar til hún útskrifast. Málið er bara að mér sýnist þetta ganga frekar hægt og hef það á tilfinningunni að þetta sé dæmigert „eitt skref áfram og tvö afturábak“ ferli. En já það þýðir víst ekkert að spekúlera í þessu, hlutirnir verða bara að hafa sinn gang. Það er bara þetta að mér finnst svo erfitt að vera þetta langt í burtu frá henni, og þó ég (og við systur báðar) hringi í hana á hverjum degi þá upplifi ég það samt eins og maður sé einhvern veginn ekki að gera nóg.
Á sama tíma er ég algjörlega að missa þolinmæðina gagnvart ástandinu á sjálfri mér og er orðin alveg hreint skelfilega þreytt á þessu. Arg! Alls konar einkenni (fyrir utan verki og yfirgengilega þreytu) stinga upp kollinum og pirra mig, s.s. bólgnir eitlar, þrútnar æðar á gagnaugum, flökurleiki og viðkvæmni, bara svona til að nefna eitthvað ...
Mánudagur 24. mars 
Þessi bloggfærsla ætlar að vera lengi í fæðingu ... Byrjaði upphaflega að skrifa á föstudaginn en eyddi því út. Byrjaði uppá nýtt á laugardag og hélt áfram í gær en kláraði ekki heldur þá. Og það er náttúrulega ekki hægt að enda bloggfærslur bara „í lausu lofti“ þó það væri kannski í takt við upplifun mína þessa dagana, því mér finnst ég svo mikið í lausu lofti einhvern veginn.
En já á laugardag gekk ég smá hring í hverfinu, í gær var það bara sófinn, og Valur lýsti því yfir að hann væri eiginlega bara feginn að hafa ekki farið að drusla mér milli landshluta, því ég kæmist nú varla milli herbergja. Hm, jæja þetta var kannski ekki orðrétt svona, en nálægt því. Í ofanálag var andlega hliðin eiginlega alveg á leiðinni út í sjó, svo ekki var ástandið gáfulegt. Seint í gærkvöldi fór mér nú samt að líða aðeins betur og þegar ég vaknaði í morgun ákvað ég að nú skyldi ég taka við stjórnartaumunum og hætta að leyfa þessari vefjagigt að stjórna. Svo ég hringdi í vinkonu mína, skrapp í morgunkaffi til hennar og við fórum meira að segja út að ganga saman. Sem var bara akkúrat það sem ég þurfti.
Núna áðan hringdi ég svo í mömmu og hún var þá bara býsna hress. Sagði að læknirinn hefði nefnt að nú færu þau bráðum að stefna að útskrift. Engin dagsetning var þó nefnd, þannig að ég hringdi í hjúkrunarfræðinginn á vakt og spurði nánar út í þetta. Hún sagði að mamma væri að hressast svo mikið núna. Kæmist sjálf á klósettið í göngugrindinni og væri öll að koma til. Varðandi útskriftina þá gat hún ekki sagt mér neitt nákvæmt, en nefndi hugsanlega 5-7 daga ef allt gengi vel. Ég bað um að mér yrði leyft að fylgjast með og sagði þeim að ég hyggðist koma og vera hjá mömmu fyrst eftir að hún útskrifaðist. Vonandi verður það nú samt ekki til þess að þau senda hana fyrr heim ...
En já já þetta kemur bara allt í ljós!

fimmtudagur, 20. mars 2014

Fröken flækjufótur



Ég á það til að flækja ótrúlegustu hluti fyrir mér. Taka eitthvað sem er tiltölulega einfalt og búa til þvílíkan risaflóka í kollinum á mér að hann yfirskyggir allt annað. 
Akkúrat núna er það væntaleg ferð suður sem er að flækjast svona fyrir mér. Við Valur höfðum hugsað okkur að keyra suður eftir vinnu hjá honum í dag. Sem er í sjálfu sér gott og blessað. Nema hvað Öxnadalsheiðin er ófær í augnablikinu (sem þarf ekki að þýða að hún verði ófær síðar í dag), og það er grámi, hríðarmugga og skafrenningur úti (ekkert sérlega spennandi ferðaveður). 
Þar fyrir utan er ég haldin þvílíku verkstoli að það er ekki séns að ég geti farið að pakka ofan í tösku. Sem er „vandamál“ nr. 2. Ég veit ekki hvað ég á að taka með mér af dóti. Því ef mamma ætti kannski bráðum að fara heim af sjúkrahúsinu, segjum t.d. á fimmtudegi (sem ég veit ekkert um), þá tekur það því ekki fyrir mig að fara norður á sunnudegi, eða hvað? Og það segir sig eiginlega sjálft að ég þarf að pakka aðeins öðruvísi fyrir (hugsanlega) 2ja vikna fjarveru í stað 3ja daga ferðalags. 
Líklega hjálpar ekki að hafa verið eins og drusla undanfarið. Því þrátt fyrir fögur fyrirheit um að reyna að láta þetta ekki hafa áhrif á andlegu hliðina hjá mér, þá gerist það óhjákvæmilega. Sjálfs-efasemdir laumast inn í kollinn á mér. Mér fer að finnast ég svo mikill lúser eitthvað, að geta ekki haft stjórn á þessu ástandi. En aftur á móti, ef fólk almennt gæti nú haft stjórn á veikindum sínum þá væru víst fáir veikir, eða hvað? Kvíði lætur líka á sér kræla. Ég óttast að geta ekki staðið undir því sem ég þarf að gera s.s. í þetta skiptið að fara suður. Áður fyrr tengdist kvíðinn vinnunni, mér fannst svo erfitt að hugsa til þess að mæta í vinnuna þegar ég stóð varla undir sjálfri mér. 
En í raun held ég að það séu ekki einstök verkefni sem slík sem eru kvíðavaldandi, heldur meira að þegar ég er í þessu ástandi þá líður mér eins og ég sé almennt ekki að höndla þau verkefni sem lífið býður mér uppá. Þetta gildir sérstaklega á tímabilum eins og núna, þegar líkaminn er svona á sínu eigin róli - sem samræmist ekki þeim hugmyndum sem ég geri mér um það hvernig minn líkami ÆTTI að hegða sér. 
Samt veit ég að hann er að gera sitt besta og ég ætti að vera þakklát fyrir að hafa þó þá heilsu sem ég hef. Plús (og þetta er mikilvægt en gleymist stundum í hita leiksins) þetta er tímabundið ástand! Klassískt „eftir-jólatörnina í vinnunni-ástand“. Þegar við bættist svo andlát Ásgríms, útsölutörn og endalok Potta og prika, þá er alls ekkert skrýtið við það að ég skuli vera þreytt. Ég mun hressast aftur, má ekki gleyma því!!!

þriðjudagur, 18. mars 2014

Eitthvað svo tóm í augnablikinu

Veit ekki hvað það á að þýða. Ég sem er meira að segja búin að hitta fólk í dag „og alles“. Reyndar áttaði ég mig á því í gær að ég væri búin að yfirbóka daginn í dag, svona miðað við hvað ég hef verið slöpp undanfarið, svo ég afpantaði tannlæknatíma sem ég átti að mæta í kl. 10 í morgun. Hins vegar var bráðnauðsynlegt að fara í klippingu og litun til hennar Ernu. Það er alltaf jafn notalegt að koma á  stofuna til hennar og Soffíu, afslappað andrúmsloft og mikið spjallað. Svo var líka afskaplega mikilvægt að hitta vinkonur mínar, þær Unni og Heiðu, enda þurfti ég að aflýsa kaffihúsahittingi með þeim í síðustu viku. Ég var frekar framlág en náði svona nokkurn veginn að halda haus (held ég ;). 
Svo svindlaði ég big time í kvöldmatnum. Valur er á Sauðárkróki og ég var of þreytt og óupplögð til að láta mér detta eitthvað í hug til að elda. Þannig að ég leyfði Ísaki að koma með uppástungur að kvöldmatnum. Hann langaði í kjúklingabita og franskar, og ég ákvað að láta það eftir honum (og mér). Ég hef ekki smakkað djúpsteikta kjúklingabita í laaaaangan tíma og veit að það er m.a. hveiti í þeim og kannski eitthvað fleira óhollt fyrir mig. En ég stóðst ekki mátið og borðaði tvo bita. Til að kóróna óhollustuna fékk ég mér svo lakkrís á eftir ... (það er líka hveiti = glútein í lakkrís). Mér til mikillar undrunar varð mér ekki illt í maganum á eftir, kannski af því ég ákvað að úr því ég væri að svindla þá ætlaði ég bara að gera það með „góðri samvisku“ og ekki skammast út í sjálfa mig á eftir. En svo á eftir að sjá hvernig ég verð á morgun. Stundum vakna ég með poka undir augunum ef ég hef verið að borða glútein. 
Í kvöld hringdi ég svo í mömmu. Ég reyndar hringdi líka í sjúkraþjálfarann hennar fyrr í dag og hún sagði að það væri merkjanleg framför hjá mömmu þó hún gæti ekki bjargað sér sjálf ennþá. Hún er farin að ganga oftar og lengra fram á ganginn. Eins er hún farin að vera aðeins frammi á gangi / í setustofu, svo það er nú aldeilis flott. Mamma var samt pínu lúin eftir daginn þegar ég heyrði í henni og sagðist hafa verið með smá hita. Það er vonandi bara eitthvað tilfallandi. 
Akkúrat núna sit ég við tölvuna og blogga - í stað þess að fara snemma í háttinn eins og ég ætlaði að gera. Ég á líka eftir að taka mynd dagsins fyrir blippið mitt, og er algjörlega hugmyndasnauð í augnablikinu. Hm þarna fékk ég reyndar hugmynd... sem tók smá stund að framkvæma. Og til gamans þá læt ég hér fylgja bæði myndina og textann með blippi dagsins. Textinn er á ensku af því blipp samfélagið er enskumælandi.
One of my goals is to meditate more often, as I find it quite rewarding (those few times I actually do it). I like to use guided meditation, and during one of those (as I was reflecting on my current unemployment situation) those words came to me: "Everything is possible". 
In Icelandic, those words are: "Allt er mögulegt". I wrote them down on this piece of paper now tonight, and placed it in front of my computer.
Let's say I truly believed that everyting is possible, what then would I do with my life? That's the big question ;-)
P.S. Sjáið nú bara hvað það að blogga og blippa getur haft góð áhrif á eina konu. Þessi bloggfærsla endar á mun jákvæðari nótum en hún byrjaði ;)

mánudagur, 17. mars 2014

Næturbrölt og ljósmyndarölt

Ég fékk fregnir af því í morgun að mamma hefði dottið út úr rúminu sínu í nótt, á þá hliðina sem brotin er. Það var búið að taka röntgenmyndir af henni en ekki komin niðurstaða úr þeim þegar Dísa tengdadóttir Ásgríms hringdi í mig. Því það var hún sem hringdi, ekki sjúkrahúsið. Þá hafði enginn aðstandandi verið skráður hjá mömmu, þrátt fyrir að ég hafi nefnt það við a.m.k. þrjá hjúkrunarfræðinga, og síðast daginn sem ég fór norður, hvort það væri ekki alveg öruggt að nafnið mitt og símanúmer væri skráð hjá þeim. Jú jú, alltaf tóku þær niður nafnið og lofuðu að athuga hvort það væri ekki örugglega komið inn í tölvukerfið, en það hafði aldrei verið gert.  
Ég er afskaplega þakklát fyrir það að Dísa og Kristinn eru í Keflavík og ég veit að Dísa hefur litið daglega til mömmu, en það breytir því ekki að ég er nánasti ættingi hér á landi, og mér finnst það hálfgert skeytingarleysi í mömmu garð að geta ekki komið þessum upplýsingum inn í tölvukerfið. Þannig að tilfinningarnar hlupu aðeins með mig í gönur í morgun. Áhyggjur af mömmu og hvort hún þyrfti ef til vill að fara í aðra aðgerð? Hvort ég ætti að drífa mig suður í hvelli? Og svo framvegis ... 
Eftir að hafa talað við Dísu og síðan við hjúkrunarfræðing á legu-deildinni og fengið nánari upplýsingar, þá fann ég hvernig streitan ætlaði alveg að éta mig, enda þoli ég afskaplega lítið áreiti þegar ég er í gigtarkasti. Í kjölfarið ákvað ég að koma mér út í sólskinið. Ég tók myndavélina með mér og vonaði að útiveran myndi ná að róa mig aðeins niður. Sem varð raunin. Að minnsta kosti svona rétt á meðan ég var úti. Ég var bara samt svo lúin, að ég treysti mér ekki til að ganga nema rétt uppá túnið sem er milli Hamragerðis og Dalsbrautar. Hins vegar er myndefni yfirleitt að finna hvar sem er, bara ef maður hefur augun opin.
Það var gott að fara út, en þrátt fyrir það náði ég ekki að slakað almennilega á fyrr en ég fékk loks fréttir af því (um tvöleytið) að það væri í lagi með mömmu. Röntgenmyndirnar sýndu ekkert óeðlilegt sem betur fer. Úff, mikið sem mér var létt. En ég var samt svo þreytt eftir allar þessar tilfinningar og streitu, að það er fyrst núna (klukkan rúmlega hálf fimm) sem ég er að ná mér. 
 
Eins og sést kannski óbeint á þessum myndum, þá skein sólin hér í dag. Hún hefur verið sjaldséður gestur í vetur og fólk almennt orðið afskaplega þreytt á þessari endalausu snjókomu sem verið hefur. Vonandi fer nú bráðum að vora meira í lofti.

sunnudagur, 16. mars 2014

Örlitlar breytingar á blogginu


Ég hef verið í gigtarkasti undanfarið og þá gerist ýmislegt. Tja, eða akkúrat öfugt, það gerist auðvitað fátt, sökum þess hve geta mín til flestra hluta verður takmörkuð. Ég reyni að vera þolinmóð (gengur ekki vel), reyni að hvíla mig í stað þess að tjúnna mig upp með sykri og kaffi, reyni að falla ekki í sjálfsvorkunnarpyttinn ...
Eins og ég hef sagt áður þá er gigtarkast ekki ósvipað flensu, nema ég er laus við horið og hálsbólguna. Sem er gott! En það segir sig þá kannski sjálft að sund, útivera og samvera við fólk er ekki ofarlega á framkvæmdalistanum þegar þannig er ástatt fyrir manni.
Mér fer óhjákvæmilega að leiðast og þá verður bloggið fyrir barðinu á mér. Ég reyni að vísu að sleppa því að blogga meðan ástandið er sem verst, en þá fer ég að hamast í útlitinu á bloggsíðunni í staðinn. Í þetta skiptið gerði ég reyndar engar stórkostlegar breytingar. Eftir að skoða nokkrar bloggsíður sem aðhyllist einfaldleika (James Clear, Leo Babuta)  þá ákvað ég að draga úr áreiti á síðunni minni. Sleppa tenglum á aðrar vefsíður og hafa bara eina bloggfærslu sýnilega hverju sinni. Þeir sem hafa áhuga geta alltaf skoðað eldri færslur, sem eru aðgengilegar hér til hægri, eða kíkt á "You might also like" dálkinn fyrir neðan hverja færslu. Og nei, mér hefur ekki tekist að fá þann texta til að birtast á íslensku ...
Ég hef verið að velta því fyrir mér undanfarið hvernig ég gæti hugsanlega unnið við að skrifa - og allar hugmyndir eru vel þegnar ;) Mér datt reyndar í hug að kannski væri ekki vitlaust að byrja á því að þýða erlenda bók s.s. þessa hér: Chronic Resilience (10 sanity-saving strategies for woman coping with the stress of illness) eftir Danea Horn. Ég pantaði þessa bók fyrir nokkru síðan og finnst hún algjör snilld. En já þar sem ég hef einungis þýtt eina bók áður þá veit ég ekki alveg hvernig ég ætti að bera mig að varðandi það að fá þýðingarréttinn og útgefanda hér á landi. Geri mér nú samt alveg grein fyrir því að það er ekki óleysanlegt verkefni að finna út úr því ;) 
Fyrir utan alls kyns vangaveltur þá er næst á dagskrá að fara suður þegar mamma á að útskrifast af sjúkrahúsinu. Batinn kemur að vísu fremur hægt hjá henni enn sem komið er, en vonandi fer þetta allt að koma. Við Valur höfðum hugsað okkur að keyra suður á fimmtudag/föstudag en það er a) spurning hvernig heilsufarið verður á mér og b) spurning hve langt á leið mamma verður komin í bataferlinu þá. Við sjáum til þegar nær dregur. Ég ætla að hringja í sjúkraþjálfarann hennar á morgun og heyra betur hjá henni hvernig staðan er.
P.S.  Þetta er líklega fremur ruglingslegt hjá mér varðandi mömmu. Ég hef ekki hugmynd um það hvenær hún á að útskrifast, en óháð því þá erum við að spá í suðurferð til að heilsa uppá hana.  



fimmtudagur, 13. mars 2014

Sama landið?

Það er stundum ótrúlega fyndið hversu miklu munar á veðrinu milli landshluta hér á Íslandi. Snjóamyndirnar hér á eftir eru teknar á Akureyri ca. kl. 9 að morgni þann 27. febrúar síðastliðinn. Neðsta myndin er hins vegar tekin í Borgarnesi ca. kl. 18 að kvöldi sama dags. Þar var ekki snjóörðu að sjá.





miðvikudagur, 12. mars 2014

Skrifað á flugstöðinni í Reykjavík í gær


Hér er heitt! Þessi orð féllu þegar ég kom inn í gufubaðið í sundlauginni í Keflavík í morgun. Fyrir voru tveir eldri karlmenn og annar þeirra mælti þessi snilldarorð. Málið var bara að það var alls ekkert heitt í gufunni og ég stóðst ekki mátið að segja honum það. Svo þegar ég sá hvað hann varð vonsvikinn með þessi viðbrögð mín þá fékk ég dúndrandi samviskubit. En já það er misjafn smekkur manna og ef maður er á annað borð að fara í gufu þá vil ég helst hafa hana dálítið vel heita. Sama með heita potta, ég vel yfirleitt alltaf að fara í heitasta heita pottinn ef hann er að finna.

Annars hefur þetta verið rólegheitadagur. Eftir sundið fór ég heim í hús og borðaði morgunmat en síðan fór ég til mömmu. Þá var hún nýkomin úr baði og var mjög eftir sig. Þannig að það er töluverður dagamunur á henni, eins og kannski við er að búast. Svo eftir hádegismatinn kom sjúkraþjálfarinn og lét hana ganga og það gekk nú bara nokkuð vel. Hún er með háa göngugrind og getur látið efri hluta líkamans hvíla ofan á örmunum á göngugrindinni. Þetta voru nú svo sem ekki mörg skref sem hún tók, að rúmendanum og til baka, en hún var að minnsta kosti ekki slæm af verkjum á meðan svo það var nú gott.

Ég stoppaði hjá henni til að verða hálf tvö en fór þá aftur heim í hús til að fá mér að borða og pakka niður í tösku.  Ætlaði að taka rútuna til Reykjavíkur kl. 14:45. Þá fékk ég skilaboð frá flugfélaginu sem hljóðuðu á þá leið að sökum samverkandi þátta væri búið að fella flugið mitt kl. 17:30 niður og ég var beðin um að bóka aftur. Fyrst varð ég nú frekar fúl því ég óttaðist að þá kæmist ég kannski ekki norður í dag, en ástandið var ekki verra en svo að ég gat fengið flug klukkutíma seinna.

Ég notaði þennan aukatíma sem ég fékk í að setja rúmfötin hennar í þvottavél og rykmoppa gólfin aftur og snurfusa eldhúsið, en í gær skúraði ég gólfin og þreif klósettið. Það ætti því allt að vera hreint og fínt þegar mamma kemur heim af sjúkrahúsinu. Já svo hringdi Anna systir líka. Hún er í Þrándheimi á ráðstefnu og var í smá pásu.  Henni finnst erfitt að vera svona langt í burtu þegar ástandið er svona með mömmu, og ég skil hana vel, en svona er þetta þegar fólk er búsett hvert í sínu landinu. Anna sagðist hafa séð í fréttum að danskar ferðaskrifstofur væru byrjaðar að flytja ferðafólk heim frá Sjarm-El-Sheikh í Egyptalandi, sökum aukinnar ókyrrðar í landinu, en í örstuttum samskiptum sem ég átti við Hrefnu fyrr um daginn minntist hún ekki á neitt slíkt. Já Hrefna og Egil eru sem sagt stödd í fríi í Egyptalandi og ættu í raun að vera fram á næsta sunnudag

Andri og Freyja komu svo og keyrðu mig inn á Reykjavíkurflugvöll, þar sem ég sit núna og blogga. Það verður gott að komast aðeins heim. Ég svaf bara tvær nætur heima eftir síðustu Reykjavíkurferð okkar Vals og þar til ég fór suður af því mamma brotnaði. Valur segir að Birta (kisa) sé búin að vera í hálfgerðu þunglyndiskasti síðustu daga. Hún lítur náttúrulega á mig sem "mömmu" sína og saknar þess ábyggilega að geta ekki kúrt með mér í sófanum. Hehe mig grunar nú sterklega að ég eigi eftir að leggjast í sófann á morgun, svona miðað við hvað ég er þreytt og lúin í skrokknum núna ;-) Svo er bara að vona að mamma hressist fljótt og fái að vera á sjúkrahúsinu þar til hún er orðin nokkuð fær um að bjarga sér sjálf.

P.S. Myndin sem fylgir tengist efni bloggfærslunnar alls ekki neitt - en ég tók hana um daginn þegar við Valur vorum í Reykjavík. Hafði hugsað hana sem mynd dagsins á blippinu en notaði mynd af Val, Andra og Freyju í staðinn.


mánudagur, 10. mars 2014

Að komast á klósettið og í ísskápinn

 er skilyrðið fyrir því að vera útskrifaður af sjúkrahúsi eftir mjaðmarbrot og neglingu. Þá vitum við það... Mamma hefur verið með frekar mikla verki um helgina þrátt fyrir verkjalyfjagjöf. Hún er nú heldur ekki sú duglegasta að láta í sér heyra ef henni líður illa. Í dag var svo ákveðið að auka við hana verkjalyfin því það að líða sæmilega er forsenda þess að sjúkraþjálfunin gangi eins vel og hægt er.

Annars fór ég extra snemma á sjúkrahúsið í morgun til að reyna að hitta á lækni og fá einhverjar upplýsingar um það hvernig framhaldið yrði. Staðan er þannig að um leið og sjúkraþjálfari metur hana færa um að fara heim, þá fer hún heim. Það er erfitt að segja hvenær það verður, en mér var sagt að í Reykjavík er fólk sem farið hefur í svipaða aðgerð sent heim eftir ca. 5-6 daga. Þá sagði ég að hún yrði nú að geta komist á klósettið - og var tjáð að klósettið og ísskápurinn væri það sem fólk þyrfti að geta komist í - og þegar það væri fært um það, væri það útskrifað. Þá hélt ég nú kannski að fólk fengi sjúkraþjálfun heima, en nei það er engin frekari sjúkraþjálfun. Athafnir daglegs lífs eiga að sjá fólki fyrir þeirri þjálfun sem það þarf. Ég vona samt að hún fái að vera þarna a.m.k. fram yfir næstu helgi. Ætla að reyna að ná sambandi við sjúkraþjálfarann fljótlega og heyra hvað hún/hann segir.

Hvað sjálfa mig varðar þá ætla ég að skreppa heim og heilsa uppá eiginmann, son og kött. Ég er búin að bóka flug norður á morgun, en fer þá bara aftur suður þegar mamma á að fara heim af sjúkrahúsinu. Svo verðum við bara að spila þetta eftir því hvernig ástandið á henni verður. Anna systir gæti jafnvel líka komið og verið eitthvað hjá mömmu ef þarf, en vonandi mun bara ganga vel hjá henni að ná sæmilegri hreyfifærni á ný.



P.S. Maður rekst á ýmsa gamalkunnuga hluti hér í íbúðinni hennar mömmu og eitt af því er þessi púði sem sjá má hér að ofan. Mér finnst endilega að ég hafi saumað þennan púða þegar ég var krakki/unglingur en kannski ekki klárað og mamma tekið við. Hins vegar treysti ég minninu á mér ekki meira en svo, að það getur vel verið að Anna systir hafi saumað púðann ... hehe ;-) Anna, hvað heldur þú? (Mamma staðfesti að ég hefði saumað þennan ...) 

P.P.S. Að vissu leyti er gott að vera hætt að vinna núna þegar svona aðstæður koma upp. "Heildarpakkinn" verður ekki alveg jafn stressandi.

laugardagur, 8. mars 2014

Á faraldsfæti


Já það er engin lognmolla hjá mér og mínum þessa dagana. Um síðustu helgi fórum við Valur til Reykjavíkur og gistum í orlofsíbúð frá fimmtudegi til þriðjudags. Við vorum ekki með neina fyrirfram áætlun, fyrir utan að fara út að borða á föstudagskvöldinu með Andra og Freyju, til að halda uppá að Andri var að klára verklega atvinnuflugmannsprófið og er þar með orðinn löggiltur atvinnuflugmaður. Flott hjá honum! Við fórum á veitingastaðinn Kopar við höfnina og fengum mjög góðan mat, sem var hluti af "Food and fun" matarhátíðinni. Þetta voru allt frekar óvenjulegir réttir en samt góðir. Á laugardeginum fórum við svo í flug með atvinnuflugmanninum ;-) Hér má sjá nokkrar (margar) svipmyndir úr fluginu, svona til gamans. 



Eins og sjá má er þetta ekki stór flugvél. Hann var að læra á tveggja hreyfla vél líka, en það er mun dýrara að leigja hana, svo við létum þessa litlu duga :)


Þessi vél frá Icelandair var að lenda þegar við vorum að fara í loftið.


Feðgarnir í framsætinu.


Keflavík séð úr lofti.



Og Reykjavík séð úr lofti.


Gaman að horfa á landið úr lofti.



Almannagjá (og hluti af flugvélarvængnum, það er svo erfitt að ná myndum úr aftursætinu án þess að annað hvort komi speglun úr glugganum eða vængurinn komi með á myndina).


Auglýsing fyrir flugskólann Keili (hehe eða þannig).


Laugarvatn.


Man ekki hvað þetta heitir ... ;)


Landið var allavega á litinn eins og sjá má. Sums staðar var snjór og annars staðar alveg autt.


Þingvallavatn.


Akranes í fjarska og Akrafjallið uppi til hægri.


Horft í átt til Reykjavíkur (á leið inn til Keflavíkur aftur).


Dúnmjúk lending hjá flugmanninum flotta.


Og smá rúntur á flugbrautinni.



Vélin komin inn í skýli. Valur að tala við Hjört bróður sinn.


Og flugmaðurinn að skrifa skýrslu um flugið.



Við heimsóttum svo mömmu eftir flugið og fengum hjá henni te og brauð. Ég færði henni líka peysu sem hún skellti sér í og leist vel á.

Daginn eftir var svo enn meira fjölskylduþema. Við byrjuðum reyndar á því að fara í sund (ég) og ræktina (Valur) en svo kíktum við í kaffi til Gunnu og Matta tengdaforeldra minna. Um miðjan daginn var svo smá ættarmót hjá ættinni hennar Gunnu, sem haldið var í Sjóminjasafninu. Ég þekkti nú afskaplega fáa þar fyrir utan nánustu ættingja en það var gaman samt.


Eftir ættarmótið fórum við svo og kíktum til Hjartar bróður Vals og Guðbjargar konunnar hans. Hún hafði nýlega átt afmæli og allir synir þeirra þrír ásamt kærustum voru staddir í afmæliskaffi hjá þeim. Þannig að við náðum að hitta alla á einu bretti, svo það var nú aldeilis fínt.

Á mánudeginum var ég hálf lasin framan af degi. Valur fór til augnlæknis en svo kom Andri og við skruppum með honum í bæinn að skoða útskriftargjöf. Ekkert var samt keypt að sinni. Svo fór hann aftur til Keflavíkur en við Valur fórum í bollukaffi til Guðjóns bróður hans og Eddu mágkonu. Við stoppuðum reyndar svo lengi að við vorum boðin í mat líka ;-)

Daginn eftir ókum við aftur norður. Ferðin gekk vel en ég var lúin enda hálf lasin ennþá, svo miðvikudagurinn fór allur í hvíld hjá mér. Um kvöldið fékk ég svo óvænt símtal frá Keflavík. Það var Dísa tengdatóttir Ásgríms sem tilkynnti að mamma hefði dottið í Nettó og mjaðmarbrotnað. Þetta voru ekki góðar fréttir. Ég pantaði mér flug suður daginn eftir og kom til Reykjavíkur um kl. 18 á fimmtudaginn. Dísa sótti mig og við fórum á Borgarspítalann þar sem mamma hafði verið í aðgerð fyrr um daginn. Hún kom ekki af vöknun fyrr en um áttaleytið en leið þá þokkalega enda búið að gefa henni mikið af verkjalyfjum. Um nóttina gisti ég í íbúðinni hennar mömmu. Hér má sjá útsýnið úr gestaherberginu þegar ég vaknaði í gærmorgun.



Í gær fór ég svo "fýluferð" inn til Reykjavíkur því það hafði verið ákveðið að senda mömmu með sjúkrabíl á sjúkrahúsið hér í Keflavík, en þrátt fyrir að hafa gefið þeim á deildinni upp símann hjá mér þá klikkaði hjá þeim að láta mig vita. Ég kíkti reyndar aðeins á sófa úr því ég var komin inneftir, en ók svo til baka og heimsótti mömmu á sjúkrahúsið. Í gærkvöldi fór ég síðan aftur til Reykjavíkur að hitta vinkonur mínar þær Sólrúnu og Hjördísi. Það var mjög gaman.

Í dag er ég búin að tala við Önnu systur, fara í sund, reyna að heimsækja mömmu (hún svaf svo fast að ég vildi ekki vekja hana), tala við Val á Skype og hanga í tölvunni ... Nú ætla ég að fara aftur til mömmu.