Já það er engin lognmolla hjá mér og mínum þessa dagana. Um síðustu helgi fórum við Valur til Reykjavíkur og gistum í orlofsíbúð frá fimmtudegi til þriðjudags. Við vorum ekki með neina fyrirfram áætlun, fyrir utan að fara út að borða á föstudagskvöldinu með Andra og Freyju, til að halda uppá að Andri var að klára verklega atvinnuflugmannsprófið og er þar með orðinn löggiltur atvinnuflugmaður. Flott hjá honum! Við fórum á veitingastaðinn Kopar við höfnina og fengum mjög góðan mat, sem var hluti af "Food and fun" matarhátíðinni. Þetta voru allt frekar óvenjulegir réttir en samt góðir. Á laugardeginum fórum við svo í flug með atvinnuflugmanninum ;-) Hér má sjá nokkrar (margar) svipmyndir úr fluginu, svona til gamans.
Eins og sjá má er þetta ekki stór flugvél. Hann var að læra á tveggja hreyfla vél líka, en það er mun dýrara að leigja hana, svo við létum þessa litlu duga :)
Þessi vél frá Icelandair var að lenda þegar við vorum að fara í loftið.
Feðgarnir í framsætinu.
Keflavík séð úr lofti.
Og Reykjavík séð úr lofti.
Gaman að horfa á landið úr lofti.
Almannagjá (og hluti af flugvélarvængnum, það er svo erfitt að ná myndum úr aftursætinu án þess að annað hvort komi speglun úr glugganum eða vængurinn komi með á myndina).
Auglýsing fyrir flugskólann Keili (hehe eða þannig).
Laugarvatn.
Man ekki hvað þetta heitir ... ;)
Landið var allavega á litinn eins og sjá má. Sums staðar var snjór og annars staðar alveg autt.
Þingvallavatn.
Akranes í fjarska og Akrafjallið uppi til hægri.
Horft í átt til Reykjavíkur (á leið inn til Keflavíkur aftur).
Dúnmjúk lending hjá flugmanninum flotta.
Og smá rúntur á flugbrautinni.
Vélin komin inn í skýli. Valur að tala við Hjört bróður sinn.
Og flugmaðurinn að skrifa skýrslu um flugið.
Við heimsóttum svo mömmu eftir flugið og fengum hjá henni te og brauð. Ég færði henni líka peysu sem hún skellti sér í og leist vel á.
Daginn eftir var svo enn meira fjölskylduþema. Við byrjuðum reyndar á því að fara í sund (ég) og ræktina (Valur) en svo kíktum við í kaffi til Gunnu og Matta tengdaforeldra minna. Um miðjan daginn var svo smá ættarmót hjá ættinni hennar Gunnu, sem haldið var í Sjóminjasafninu. Ég þekkti nú afskaplega fáa þar fyrir utan nánustu ættingja en það var gaman samt.
Eftir ættarmótið fórum við svo og kíktum til Hjartar bróður Vals og Guðbjargar konunnar hans. Hún hafði nýlega átt afmæli og allir synir þeirra þrír ásamt kærustum voru staddir í afmæliskaffi hjá þeim. Þannig að við náðum að hitta alla á einu bretti, svo það var nú aldeilis fínt.
Á mánudeginum var ég hálf lasin framan af degi. Valur fór til augnlæknis en svo kom Andri og við skruppum með honum í bæinn að skoða útskriftargjöf. Ekkert var samt keypt að sinni. Svo fór hann aftur til Keflavíkur en við Valur fórum í bollukaffi til Guðjóns bróður hans og Eddu mágkonu. Við stoppuðum reyndar svo lengi að við vorum boðin í mat líka ;-)
Daginn eftir ókum við aftur norður. Ferðin gekk vel en ég var lúin enda hálf lasin ennþá, svo miðvikudagurinn fór allur í hvíld hjá mér. Um kvöldið fékk ég svo óvænt símtal frá Keflavík. Það var Dísa tengdatóttir Ásgríms sem tilkynnti að mamma hefði dottið í Nettó og mjaðmarbrotnað. Þetta voru ekki góðar fréttir. Ég pantaði mér flug suður daginn eftir og kom til Reykjavíkur um kl. 18 á fimmtudaginn. Dísa sótti mig og við fórum á Borgarspítalann þar sem mamma hafði verið í aðgerð fyrr um daginn. Hún kom ekki af vöknun fyrr en um áttaleytið en leið þá þokkalega enda búið að gefa henni mikið af verkjalyfjum. Um nóttina gisti ég í íbúðinni hennar mömmu. Hér má sjá útsýnið úr gestaherberginu þegar ég vaknaði í gærmorgun.
Í gær fór ég svo "fýluferð" inn til Reykjavíkur því það hafði verið ákveðið að senda mömmu með sjúkrabíl á sjúkrahúsið hér í Keflavík, en þrátt fyrir að hafa gefið þeim á deildinni upp símann hjá mér þá klikkaði hjá þeim að láta mig vita. Ég kíkti reyndar aðeins á sófa úr því ég var komin inneftir, en ók svo til baka og heimsótti mömmu á sjúkrahúsið. Í gærkvöldi fór ég síðan aftur til Reykjavíkur að hitta vinkonur mínar þær Sólrúnu og Hjördísi. Það var mjög gaman.
Í dag er ég búin að tala við Önnu systur, fara í sund, reyna að heimsækja mömmu (hún svaf svo fast að ég vildi ekki vekja hana), tala við Val á Skype og hanga í tölvunni ... Nú ætla ég að fara aftur til mömmu.