þriðjudagur, 25. febrúar 2014

Síðasta bókhalds-maraþonið ;-)

Jæja þetta nær því meira segja varla að vera maraþon, en ég er samt búin að liggja aðeins yfir bókhaldinu fyrir Potta og prik síðustu daga. Bæði þarf ég að skila af mér árinu 2013 til endurskoðandans, og eins þarf ég að klára bókhaldið fyrir janúar og febrúar 2014, fyrir virðisaukaskattskil. Þetta er allt að hafast, stefni að því að klára á morgun. En það er ótrúlegt hvað leynast villur í þessu dóti, jafnvel þó ég fari yfir og double-tékki þegar ég er að færa bókhaldið. En já bæði er ég nú oft að flýta mér og eins hjálpar vefjagigtin ekki til, eða heilaþokan öllu heldur en hún er jú fylgikvilli vefjagigtar. Þegar ég er slæm af henni þá þarf ég helst manneskju með mér til að passa uppá að ég geri engar stórvægilegar vitleysur hehe (og þá er ekki gott að vera að vinna með tölur ;).

Eftir góða bókhaldstörn í morgun dreif ég mig út á Gáseyri með myndavélina. Það var kannski ekki beint ljósmynda-vænt veður en ég hafði samt voða gott af því að fá mér ferskt loft og dreifa huganum aðeins. Einhverra hluta vegna fékk ég smá dillu fyrir því að taka myndir af hliðum sem ég sá - og hér er smá sýnishorn.






sunnudagur, 23. febrúar 2014

laugardagur, 22. febrúar 2014

Hvar er „kveikja“ takkinn?



Hann er týndur, svo mikið er víst. Mér líður eins og það sé búið að slökkva ljósin hjá mér - en samt ekki. Einhver týra er þarna einhvers staðar. Málið er bara að ég er svo lúin, löt og pínu leið eitthvað. Og nei, það var ekki viljandi sem það komu þrjú lýsingarorð í röð sem byrja á bókstafnum L. Það var hins vegar viljandi að ég setti orðið „pínu“ inn á milli, bæði til að brjóta upp þessi þrjú L, en líka til að fólk færi ekki að halda að ég væri dottin í þunglyndiskast. Sem ég er ekki. Er bara flöt.

Kannski er ég of mikið að reyna að bæla niður neikvæðar tilfinningar í tengslum við allt sem er að gerast í lífi mínu þessa dagana. Ég las í bók eftir Brené Brown að það er ekki hægt að blokkera út einungis neikvæðar tilfinningar. Um leið og maður bælir niður tilfinningar sem maður vill ekki horfast í augu við, þá lokar maður á sama tíma á jákvæðu tilfinningarnar. Og missir getuna til að upplifa tilfinningar eins og gleði og ánægju. Kannski það sé ástæðan fyrir því að mér finnst ég vera svona flöt?

Þannig að ef ég reyni nú að horfast í augu við það sem er að angra mig, þá er það meðal annars þetta:
  • Það sem átti að verða mín leið til að skila loks einhverju framlagi til heimilisins (Pottar og prik) fór á allt annan veg. 
  • Ég var ekki að höndla að vera verslunareigandi með vefjagigt. Ég lenti í algjörri klemmu, gat ekki tekið það tillit til sjálfrar mín sem ég hefði þurft að gera af því við höfðum ekki efni á að ráða starfsfólk í staðinn fyrir mig. Þannig að mig langaði að losna úr þessari klemmu og nú þegar ég er laus úr henni þá er ég með samviskubit yfir því að hafa langað að losna. 
  • Núna þarf ég að finna mér nýjan starfsvettvang og það skelfir mig. Ekki séns að ég gæti farið í 100% „venjulega“ vinnu einhvers staðar en þá þarf ég líka að koma með einhverja aðra lausn.
  • Upp á síðkastið hugsaði ég sem svo að ef ég myndi hætta með Potta og prik þá skyldi ég fara að sinna skrifum (á einhvern hátt). En ég veit ekki hvernig ég á að fara að því að hafa skriftir sem launaða atvinnu. Fyrir utan þá staðreynd að mér er eiginlega lífsnauðsynlegt að eiga samskipti við fólk og ef ég sit bara ein heima að skrifa þá hitti ég ekki marga aðra.
OK bjartsýnin sem sagt alveg að drepa frúna ... eða þannig. Reyndar verð ég að viðurkenna að sjálfsævisögulega skáldsagan sem ég er að lesa hjálpar ekki til í þeim efnum. Það er að segja, höfundurinn hressist jú smám saman og lagast af síþreytunni, en hún er frekar melankólísk og ég lifi mig alltof mikið inn í söguna. Var einmitt að segja við Val í dag að ég verð eiginlega að drífa mig að klára þessa blessaða bók svo ég komist út úr þessu hugarástandi.

En svona til að enda þennan pistil á jákvæðari nótum þá er ég afskaplega þakklát fyrir það hvað við Sunna áttum gott samstarf. Okkur gekk mjög vel að vinna saman og ég minnist þess ekki að okkur hafi orðið sundurorða þau 7,5 ár sem samvinnan varði. Eins hafði ég mjög gaman af því að eiga samskipti við fólk í tengslum við vinnuna, viðskiptavini, birgja og aðra, og öðlaðist meiri færni í mannlegum samskiptum (vona ég, hehe). Og mér dytti áreiðanlega eitthvað fleira jákvætt í hug ef mér tækist að kveikja aðeins fleiri ljós inni í höfðinu á mér ;-)

En af því ég var að minnast á Brené Brown, þá er hér tengill á áhugaverðan fyrirlestur með henni á Ted.com.


föstudagur, 21. febrúar 2014

Konan í kúlunni

Mér líður eiginlega svolítið eins og ég sé inni í kúlu þessa dagana. Eins og ég sé þátttakandi í lífinu en samt ekki. Frekar fyndið eiginlega. Líklega er ástæðan sú hvað ég hef verið mikið ein með sjálfri mér síðustu vikuna. En samt hef ég alveg verið að hitta fólk, bara ekki eins mikið eins og kona sem vinnur í verslun. Ég hef líka verið að lesa mjög mikið og þá hverfur maður svolítið inn í sinn eigin heim.

Í fyrradag (eða var það í gær?) fór ég á bókasafnið og sótti nýja áfyllingu af bókum og tímaritum. Tók nokkur Hús&Híbýli blöð, nokkur Alt for damerne, matreiðslubók með Yesmine Olsson og svo eina norska skáldsögu. Ég hafði aldrei heyrt um höfundinn áður en opnaði bókina af handahófi og sá strax að þetta var texti sem náði að grípa mig. Bókin heitir Monstermenneske og er eftir Kjersti Annesdatter Skomsvold. Ég hafði ekki lesið margar blaðsíður þegar ég áttaði mig á því að aðalsöguhetja bókarinnar væri líklega með það sem á íslensku kallast alltof einfölduðu nafni: síþreyta. Í stað þess að lesa áfram fór ég í tölvuna og gúgglaði nafn höfundarins og komst að því að þetta var hárrétt hjá mér. Þegar ég hélt svo áfram með bókina kom það fram tveimur blaðsíðum síðar. Hehe fröken Óþolinmóð lætur ekki að sér hæða ;-)

Mér finnst þetta virkilega góð bók og nýt þess að lesa hana. En á sama tíma er það erfitt. Því þegar ég hef verið sem verst af minni vefjagigt/síþreytu, þá þekki ég þessa tilfinningu of vel sem höfundurinn miðlar svo vel í bókinni. Vonleysið um að ástandið muni nokkurn tímann lagast. Kærastinn hennar hafði alltaf vonað að henni myndi batna og reyndi að vera sterkur fyrir þau bæði, en svo kom að því að hann missti vonina og hætti með henni. Gat þetta ekki lengur. Það er ábyggilega ekki auðveldara að vera aðstandandi heldur en sjúklingur í svona tilfellum. Báðir aðilar þjást á sinn hátt.

Góðu fréttirnar eru þær að mitt í allri þjáningunni þá fór Kjersti að dreyma um að verða rithöfundur. Að skrifa bók. Og smátt og smátt fór henni að líða betur, andlega og líkamlega. Ég er reyndar bara komin á blaðsíðu 175 af 580, svo ég hef nóg að lesa ennþá, sem betur fer. Er að reyna að gleypa þetta ekki í mig á sama hraða og ég les venjulega.

Annars er ég sem sagt ennþá aðallega í því að hvíla mig. Fór samt í sund í morgun, í fyrsta sinn síðan á laugardaginn síðasta þegar gigtarkastið var byrjað og sú sundferð var jú algjörlega ónýt. Gekk mun betur í morgun.

Og til að komast aðeins út úr kúlunni sem ég upplifði mig inni í, þá fór ég í Eymundsson í hádeginu, til að vera innan um annað fólk í smá stund. Mér leið samt eins og inni í kúlu þar niður frá. En akkúrat núna er ég búin að ná tengingu við sjálfa mig og umheiminn. Sjáið bara hvað það gerir manni gott að blogga ;-)


miðvikudagur, 19. febrúar 2014

Hugurinn út um víðan völl



Já það er fyndið hvaða brögðum hugurinn beitir til þess að sleppa því að horfast í augu við raunveruleikann. Þegar ákveðið upplausnarástand er í kollinum á mér finnst mér gott að reyna að koma röð og reglu á hlutina í kringum mig, s.s. að laga til í skápum og skúffum (við mikla hrifningu Vals). Það virkar sérlega vel og mér líður alltaf betur á eftir.

Hins vegar hef ég ekki haft orku í svoleiðis hamagang undanfarið og þá fer ég í þann gír að skanna alls konar síður á netinu, lesa mér til um ótrúlegustu hluti, og athyglin dreifist gjörsamlega út um allt. Eins og þetta sé ekki nóg, þá fer ég á bókasafnið og sæki mér bækur og tímarit sem ég gleypi í mig í einum grænum. Þetta er svo sem engin ný hegðun hjá mér. Þegar ég var yngri var netið ekki til og þá einskorðaðist veruleikaflóttinn við bækur, öfugt við núna.

Kosturinn er sá að ég hef uppgötvað alls konar skemmtilegar síður og sumt mjög fræðandi s.s. iTunes university. Mér finnst algjör snilld að geta legið heima í sófa og horft á fyrirlestra í sálfræði frá Stanford háskóla í Bandaríkjunum, svo dæmi sé nefnt. Önnur síða sem ég fann heitir 33voices.com  en þar er m.a. hægt að hlusta/horfa á viðtöl við alls konar fræðimenn um margs konar áhugaverða hluti.

Þessa dagana finnst mér samt afskaplega erfitt að einbeita mér að því að hlusta t.d. á heilan fyrirlestur í einu. Það er eins og ég nái ekki að halda athyglinni nógu lengi. Sem er í sjálfu sér allt í lagi, það þarf ekkert að hlusta á þetta í einni bunu, maður má alveg taka pásu ;-)

Hm núna áttaði ég mig reyndar á einni staðreynd - Mér finnst virkilega skemmtilegt að fræðast um hluti/viðfangsefni sem vekja áhuga minn.

En já það er einhver óróleiki í mér þessa dagana og innst inni veit ég að ég þarf að ná aðeins meiri rósemd í hugann. Verða svona lygn og friðsæl eins og sjórinn á myndinni hér að neðan ;-)


sunnudagur, 16. febrúar 2014

Fegurð einfaldleikans


Þetta er kannski ekki ljósmynd sem „flestu“ fólki finnst falleg, en svona myndefni höfðar mikið til mín. Þar sem ytra landslagið sjálft hverfur og einungis verður eftir afmarkað svæði, sem er þó hægt að týna sér í að horfa á. Eins og ég hef örugglega sagt áður, þá er það eitthvað sérstakt við skilin milli himins og hafs sem heillar mig. Einhver óendanleiki kannski?

Það hefur stundum verið nefnt við mig að vera með ljósmyndasýningu á Læknastofum Akureyrar. Þar eru yfirleitt alltaf einhverjar listasýningar í gangi en ég hef neitað því hingað til, enda hvorki haft orku né umframtíma til að standa í slíku. Nú hef ég að minnsta kosti nægan tíma og að loknu núverandi gigtarkasti mun ég aftur fá orku. Það flóknasta er að velja myndir. Ég hafði hugsað mér að ef ég myndi einhvern tímann halda sýningu þá yrði það með blómamyndum. En núna veit ég ekki. Svo kemur líka sjálfsgagnrýnin til skjalanna. Hvaða erindi á ég upp á dekk? En ég fengi þá a.m.k. um eitthvað að hugsa á meðan. Æ, ég veit það ekki. En þetta er ástæðan fyrir því að ég er (afar óskipulega) að fara í gegnum myndirnar mínar og finn þá m.a. myndir eins og þessa hér að ofan.

laugardagur, 15. febrúar 2014

Gamla alveg búin á því


Já allt í einu er ég dottin í allsherjar þreytu „breakdown“ með tilheyrandi óskemmtilegum einkennum. Hraður hjartsláttur, svimi, þrekleysi, sljóleiki yfir höfðinu, óþol fyrir hávaða, verkir í skrokknum ... allur pakkinn bara. Ég fann strax í morgun að ég var eitthvað skrítin en reyndi að leiða það hjá mér. Fór meira að segja í sund um hádegisbilið þó Valur reyndi að segja mér að líklega væri skynsamlegast fyrir mig að vera heima. Svona upplifði ég sundferðina...
Þegar ég kem í bílinn ætlar hávaðinn að æra mig. Miðstöðin er á fullu og kveikt á útvarpinu. Ég skrúfa niður í miðstöðinni og slekk alveg á útvarpinu. Bakka út úr stæðinu og ek áleiðis niður í sundlaug. Þarf að passa mig sérlega vel, því það er eins og öll rýmisskynjun brenglist þegar ég er svona. Hvað er langt í næsta bíl? Kemst slysalaust niður eftir og alla leið ofan í laugina. Byrja að synda. Er að gefast upp eftir fjórar ferðir. Líkaminn lætur ekki nógu vel að stjórn, vöðvarnir kannski að vinna á 10-20% afköstum, hraður hjartsláttur, mæði. Kannski ég ætti að fara bara uppúr? Nei það hlýtur að gera mér gott að synda... Reyni að beita núvitund. Horfi á hendurnar taka hvert sundtakið á fætur öðru, einbeiti mér að því að upplifa hvernig hendurnar kljúfa vatnið. Tel sundtökin milli bakkanna. Stoppa. Finn hvað ég er móð. Bara tvær ferðir enn. Já og svo aðrar tvær. Hætti eftir tíu ferðir. Fer í gufu. Dauðfegin að geta sest á bekk og hvílt mig. Loka augunum. Finn hvernig hjartað hamast í brjósti mér eins og eftir meiriháttar áreynslu. Hitti konu sem ég þekki, reyni að halda uppi eðlilegum samræðum en líður eins og ég hafi komið undarlega fyrir. Fer í sturtu. Sé aðra konu sem ég veit að ég þekki en það tekur heilann minn býsna langan tíma að segja mér hvaða kona þetta er. Spjalla líka aðeins við hana. Líður eins og hugurinn svífi þarna einhvers staðar um þó líkaminn sé vissulega á sínum stað. Hafði ætlað að þvo mér um hárið en gleymi því alveg þar til ég sæki handklæðið mitt og sé sjampóið. Ekki séns ég nenni aftur í sturtuna. Í búningsklefanum er ærandi hávaði. Samt bara kona að nota hárþurrkuna. Og önnur á eftir henni. Ég get vel skilið að hávaði sé notaður sem pyntingatæki þegar mér líður svona. Verð að komast héðan út. Sleppi því að þurrka á mér hárið og mála mig. Dríf mig heim. Er algjörlega örmagna.
Þessi dagur kemur sem sagt til með að verða algjörlega ónýtur nema eitthvað kraftaverk eigi sér stað. Já já kannski hressist ég eitthvað þegar líður á daginn. En það er eiginlega pínu fyndið að ég er nýlega búin að hrósa mér af því bæði við Val, Önnu systur og Hrefnu að nú þoli ég hávaða miklu betur en ég gerði á tímabili. Og fæ það þá heldur betur í bakið. En miðað við hvað er búið að ganga á undanfarið, þá er auðvitað ekkert skrítið að eitthvað láti undan. Vonandi stendur þetta bara stutt yfir.

Annars ætluðum við í herbergjaflutninga í dag. Ísak er löngu byrjaður að sofa inni í gamla herberginu hans Andra en það á eftir að flytja afganginn af dótinu hans þangað inn. Já og tæma Andra dót úr herberginu. Aðalmálið er skrifborðið stóra sem Hrefna átti á sínum tíma og arfleiddi svo bróður sinn að. Það þarf að skrúfa það í sundur til að geta flutt það. Valur græjar það. En já það liggur svo sem ekkert á þessu.

P.S. Þessi fallega fjöður leyndist í lyngi í Loðmundarfirði  (hvað eru mörg "L" í því ;-)

fimmtudagur, 13. febrúar 2014

Og hvað svo?


„Hvað ætlarðu svo að fara að gera?“

Eftir að fólk er búið að jafna sig á fyrsta sjokkinu yfir því að við Sunna skulum vera hættar með Potta og prik, kemur þessi spurning næst. Stundum fylgir svo önnur spurning strax í kjölfarið:
  • Stofnið þið ekki bara nýja verslun inni í bæ? (Hm nei það stendur ekki til)
  • Ætlarðu að fara að vinna aftur á sjúkrahúsinu? (Yeah right, það eru bara 25 ár síðan ég var að vinna þar síðast... )
  • Ferðu ekki bara að taka myndir? (Jú einmitt það er svo mikil eftirspurn eftir ljósmyndum frá áhugaljósmyndurum... )
Annars ætti ég náttúrulega vera þakklát fyrir að fá hugmyndir - já já allar hugmyndir bara vel þegnar :-) En svona í alvöru talað þá veit ég ekki hvað ég á að taka mér fyrir hendur. Hins vegar þarf ég eiginlega að byrja á því að hvíla mig eftir síðustu vinnutarnir. Venjulega tekur það mig 6-8 mánuði að jafna mig eftir jólatörnina og nú bættist útsölutörnin við. 14 daga stanslaus vinna og þar að auki brjálað að gera. Ekki akkúrat „my cup of tea“. Enda er það svo að ég get varla sótt um venjulega launavinnu einhvers staðar, það væri þá að hámarki 50% vinna, í starfsumhverfi sem ég gæti ráðið við með góðu móti. 

Það er eiginlega fyrst núna að ég er að átta mig á því að ég er án atvinnu. Það hefur verið nóg að gera hjá okkur Sunnu að hnýta ýmsa lausa enda, og þar fyrir utan hef ég verið að vinna í bókhaldinu. Þeirri vinnu er raunar ekki alveg lokið enn. Stefni samt að því að klára þetta núna í vikunni - já þú meinar það er fimmtudagur í dag - hm ein ekki að fylgjast með dögunum. 

Það sem mér finnst skemmtilegt að gera ...... er að skrifa og taka myndir. Spurning hvort mér tekst að búa til einhvers konar starf úr því? Sennilega hámark bjartsýninnar. 

Ég hef reyndar næg verkefni hér heima við. Hef látið svo margt sitja á hakanum undanfarin ár þegar þreytan hefur verið allsráðandi. Spurning að gera lista bara ... 

Þarf að minnsta kosti að passa mig á því að detta ekki í þunglyndi yfir þessu öllu. Viðurkenni að það eru ýmsar tilfinningar að hrærast í mér þessa dagana og auðvitað er ótrúlega fúlt að hafa þurft að enda söguna um Potta og prik á þennan hátt. Mér fannst t.d. mjög erfitt að fara í búðina í allra síðasta sinn í gær, en þá sóttum við ljósmyndina mína sem var á veggnum í búðinni, og skiluðum lyklunum til húsvarðanna. Æjá, ég fór kannski ekki að vatna músum en varð hálf „sentimental“ eitthvað (svo ég sletti nú aðeins ensku).

Og nú læt ég þetta gott heita í bili - á ábyggilega eftir að þurfa útrás oft og mikið hér á blogginu í nánustu framtíð ;-)

mánudagur, 10. febrúar 2014

Heimsókn í kirkjugarðinn

Ég kom við í kirkjugarðinum í dag og heimsótti leiðið hans Ásgríms. Mér fannst svo leiðinlegt að geta ekki verið við jarðarförina hans en ekki gat ég verið á tveimur stöðum á sama tíma. Útförin var frá Fíladelfíukirkjunni í Reykjavík á föstudegi en hann var jarðaður á mánudegi hér í Akureyrarkirkjugarði. Þar hvílir hann við hlið fyrri konu sinnar, Sigurlaugar Kristinsdóttur, en þau höfðu verið gift í nærri 50 ár þegar hún lést úr krabbameini í janúar 1996. Mér fannst leiðið hans Ásgríms svo fallegt þarna í dag og stóðst ekki mátið að taka mynd af því.


laugardagur, 8. febrúar 2014

Örlítil ferðasaga

Við flugum suður á miðvikudagseftirmiðdegi og gistum eina nótt í Keflavík hjá Andra og Freyju. Flugið okkar var ekki fyrr en um hálf fjögur, og við náðum því að hitta Önnu systur og Kjell-Einar í ca. 15 mínútur, en þau voru að koma til landsins til að vera viðstödd jarðarför Ásgríms. Palli bróðir og Sanne konan hans voru áður komin.

Þar sem við systkinin og mamma erum nánast aldrei samankomin, var tækifærið gripið og tekin mynd af okkur. Þessi er reyndar bara úr símanum mínum og gæðin ekkert sérstök eins og sjá má.


Sjálf útskriftin hennar Hrefnu var svo á föstudagsmorgni 31. jan. Hér bíðum við eftir því að hátíðarsalurinn opni, en salurinn sjálfur er frekar lítill og einungis þrír aðstandendur gátu fylgt hverjum útskriftarnemanda. Í okkar tilviki varð það úr að við sem höfðum komið frá Íslandi (ég, Valur og Einar pabbi Hrefnu) fengum að fara á útskriftina, en Egil kærastinn hennar sat eftir heima. Hann hafði reyndar farið með henni á hátíðarkvöldverð kvöldið áður, svo það var smá sárabót.








Það var mjög gaman að vera við sjálfa athöfnina. Fyrst talaði deildarforseti Læknadeildar og svo var boðið uppá veitingar. Síðar um daginn voru Hrefna og Borgný vinkona hennar með sameiginlega veislu. Hér má sjá Nönnu systur Egils, May mömmu hans, Hrefnu og mig.



Daginn eftir var ég orðin veik, þannig að ég var nú aldeilis fegin að hafa náð útskriftinni. Þann dag lá ég í rúminu heima á hóteli alveg fram undir kvöldmat. Við höfðum ætlað að fara út að borða á fínan veitingastað með Hrefnu, Egil, Einari pabba Hrefnu og mömmu og systur Egils, en þau áfrom urðu að engu. Í staðinn eldaði Hrefna dýrindis súpu heima og við fórum þangað í mat.

Á sunnudeginum var ég sem betur fer aðeins hressari og við notuðum þann dag í að skoða Luisiana safnið í Humlebæk. Já eða hluta úr safninu ... þetta er svo stórt safn og ég ennþá frekar slöpp, svo við skoðuðum bara lítinn part af því sem í boði var. Safnið stendur við ströndina og þetta var útsýnið þaðan. Það var ansi kalt eins og sjá má.


Um kvöldið fórum við svo á ítalskan veitingastað sem er staðsettur ca. miðja vegu milli hótelsins sem við gistum á og heimilis Hrefnu. Það var mjög fínt.

Á mánudeginum fórum við í smá búðarráp en versluðum nánast ekki neitt. Ég keypti mér eina peysu og Valur keypti nokkrar hljómplötur. Um kvöldið eldaði svo Hrefna og Egill og mamma Egils kom líka í mat. Þarna má sjá Egil standa álútan yfir eldamennskunni (í neðsta uppljómaða glugganum). Þau búa enn á stúdentagarði en stefna að því að kaupa sér íbúð í sumar.



Á þriðjudagsmorgni var svo komið að brottför.  Tíminn líður alltaf svo hratt þegar verið er að heimsækja ættingja sem búa erlendis, mér finnst ég vera nýkomin þegar kominn er tími til að fara aftur.

Heimferðin gekk vel, fyrir utan það að ég fékk svona svakalega verki í hljóðhimnurnar þegar vélin fór að lækka flugið. Hef aldrei lent í þessu áður og líklega hefur þetta bara verið af því ég var veik. En vá hvað það var vont. Andri tók óvænt á móti okkur á Keflavíkurflugvelli, sem var ágætt því hann plataði Freyju kærustuna sína til að skutla okkur inn til Reykjavíkur og þá sluppum við við að bíða eftir flugrútunni.


Við náðum því að heimsækja foreldra Vals í góða stund áður en flogið var norður. Það var mjög ánægjulegt. Það er erfitt að vera alltaf svona langt í burtu frá foreldrunum sem farin eru að reskjast, og geta ekki hjálpað til með praktíska hluti, né kíkt inn í kaffi og smá spjall.


Ferðin norður gekk vel og Ísak sótti okkur á flugvöllinn. Ég get ekki lýst því hvað það var gott að leggjast í sitt eigið rúm um kvöldið, því rúmið á Hótel Österport var held ég það versta sem við höfum gist í ... En slíkir hlutir gleymst fljótt :-)

P.S. Valur tók langflestar myndirnar, bara svo það sé nú á hreinu ;-)